Færsluflokkur: Bloggar

Nei, þetta passar ekki

Í frétt Morgunblaðsins um American Idol segir eftirfarandi:

Kántrísöngvarinn ungi, Scotty McCreery, hefur verið krýndur sigurvegari Idol-söngvakeppninnar. Þetta er fjórða árið í röð sem sigurvegarinn er karlkyns og var sigur hans nokkuð óvæntur þar sem mótherji hans, Lauren Alaina, þótti líklegri til sigurs.

Hér held ég að blaðamaður hljóti að hafa misskilið eitthvað hraplega. Ég held að enginn sem hefur fylgst með keppninni að ráði hafi haldið að Lauren myndi vinna og satt að segja er ég viss um að flestir hafi verið sannfærðir um sigur Scottys. Ég efast um að niðurstöðurnar í American Idol hafi nokkurn tímann verið eins fyrirsjáanlegar. T.d. hafa heimasíður sem mæla biðtónana á símalínum þátta eins og American Idol og So you think you can dance sýnt Scotty í fyrsta sæti hverja einustu viku frá því símakosning hófst fyrr í vor. Alla vega var það þannig á dialidol.com. Hann var alltaf langhæstur og stundum svo mikið hærri en allir hinir að hann var sá eini sem ekki var í hættu við að detta úr keppni. Sigur hans var aldrei í hættu. Sjálf hef ég sagt í sirka tíu vikur núna að Scotty ætti eftir að vinna þetta. Ég sagði reyndar einhvern tímann að topp sex yrði Pia og fimm strákar en það gekk nú ekki eftir. En ég hef trú á að hér hafi blaðamaður snúið hlutunum við.

 


mbl.is McCreery nýjasta Idol-stjarnan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hraðahindranir og tillitsleysi

Hvað eru borgaryfirvöld að meina með þessum hraðahindrunum sem eru ekki steyptar heldur gerðar úr einhverju hálflausu efni sem heyrist ógurlega í þegar bílar fara þarna yfir á of miklum hraða - sem þeir gera auðvitað oftast? Það er ein svona fyrir utan húsið sem ég bý í og hávaðinn getur verið ógurlegur, sérstaklega þegar bílar fara þarna yfir með kerru. Ég mun sjálfsagt venjast þessu en ég skil bara ekki alveg tilganginn. Má ekki bara setja þarna þessar steyptu sem ekki heyrist svona ógurlega í?

Og af því að ég er farin að kvarta við borgaryfirvöld þá get ég svo sem haldið áfram. Hver er tilgangurinn með þessum endalausu mjókkunum á götunum við þessar hraðahindranir? Vita þeir hvernig það er að hjóla eftir svona götu með bíl fyrir aftan sig. Maður veit ekki hvort maður á að þora yfir hindrunina því ef bíllinn reynir að komast yfir á sama tíma (og þeim er trúandi til þess) þá á maður eftir að lenda í vandræðum. Í morgun þorði ég ekki annað en að stoppa og hleypa bílnum yfir fyrst því ég var ekki viss um hvað myndi annars gerast. Þetta var á Langholtsveginum og þar hefur greinilega einhvern tímann verið málaðar myndir af hjólreiðamönnum á götunum, sem hjálpar til við að minna á hjólreiðafólk, en nú eftir veturinn er lítið eftir af þessum myndum svo það mætti gjarnan mála þær.

Annars hef ég líka góða hluti að segja. Ég fór t.d. í hjólreiðatúr í morgun og var yfir mig hrifin af öllum stígunum sem búið er að leggja út um allt. Ég hafði bara hálftíma áður en ég þurfti að fara annað en ég náði að hjóla upp í Elliðaárdal og síðan niður með Elliðaánum niður að sjó og út eftir einhverjum stíg þar, næstum því að Gullinbrú. Ég veit ekki hvað þetta svæði heitir en á pottþétt eftir að fara þarna aftur og þá með myndavél. Ég hlakka til að kanna hjólreiðastíga borgarinnar og sjá hvað ég get gert.

En aftur smá kvörtun í lokin. Að þessu sinni ætla ég ekki að kvarta yfir Reykjavíkurborg. Ég fór í sund í gær - í Laugardalslaugina og hafði bara gaman af. Synti einn kílómetra sem er svona mín tala þegar kemur að sundi. Þegar ég var búin að sitja um stund í heita pottinum fór ég upp úr. Þegar ég kom að skápnum mínum var kona þar í næsta skáp við hliðina með tvö börn. Hún og börnin voru búin að dreifa svoleiðis úr sér að það var eiginlega ekkert pláss fyrir neinn annan í kring. Fötin af öðru barninu lágu fyrir framan minn skáp og ég varð að standa svona með gleiðar fætur til að komast að skápnum. Ég gat hvergi lagt sundfötin frá mér því þeirra dót tók yfir allt páss fyrir framan svona sirka sex skápa. Þá var búið að setja handklæði á gólfið sem byrjaði hinum megin við skápinn minn og tók allt gólf pláss fyrir framan næstu fjóra skápa þar. Ég er að reyna þarna að klofast yfir hluti til að komast í minn skáp og að ná út úr honum því sem ég átti þar og að gekk ekkert of vel. Ég lít svona á konuna og er að velta því fyrir mér hvort hún ætli virkilega ekki að taka aðeins svona til í kringum sig þar sem hún hlýtur að geta séð að ég er að reyna að athafna mig þarna. En hún lítur bara á mig með einhverjum vandlætingarsvip eins og hún eigi heiminn og gerir ekkert. Hún biður heldur ekki börnin um að færa sig þótt þau séu augljóslega fyrir mér. Ég næ að koma mér í svona það helsta og hrúga svo afgangnum í fangið, klofa yfir barn á gólfinu og klára að klæða mig á hinum enda raðarinnar. Ég get skilið að þegar maður er með börn þurfi maður meira pláss, en það var engin afsökun fyrir því hversu mikið pláss þessi kona var búin að leggja undir sig, né að hún skyldi ekki einu sinni biðjast afsökunnar á því að hún gerði mér það hérumbil ófært að komast að mínu eigin dóti. En ég ætti að fara að skilja það að Íslendingar vilja helst ekki biðjast afsökunar á neinu. Fólk virðist líta á að það megi gera það sem það vill hvort sem það veldur öðrum ama eða ekki. Ég held að við ættum að senda alla til Kanada í æfingabúðir. Þar geta þeir lært almenna kurteisi og mannasiði.


Í Riga

Ég er búin að vera í Riga, Lettlandi, frá því á mánudagskvöldið og þetta er alveg stórmerkileg borg. Rétt eins og Ísland er landfræðilega mitt á milli Evrópu og Bandaríkjanna og menningin ber þess mörk merki, er Riga á milli Skandinavíu og Austur-Evrópu og það er jafn greinilegt. Byggingarlistinn er t.d. býsna rússnesk og margar byggingarnar minna mig á myndir sem ég hef séð frá bæði Moskvu og St. Pétursborg. Aðrar byggingar eru tiltölulega skandinavískar og í gær sá ég byggingu sem passaði vel í Vesturbæinn í Reykjavík eða Eyrina á Akureyri.

Fólkið ber þess líka merki að vera blandað. Rússneska (eða kannski ætti ég að segja slavneska útlitið) er áberandi, enda fjölmargir Rússar sem fluttu hingað á dögum Sovétríkjanna, en ég sé líka töluvert af skandinavísku útliti. Mest er þó áberandi það sem ég get einungis ætlað að sé lettneskt útlit sem er heldur dekkra en það skandinavíska og það slavneska, og andlitsfallið er hringlóttara. Ég verð að viðurkenna að það er eitthvað aðlaðandi við það. Alla vega hef ég séð marga karlmenn sem eru kannski ekki klassískt myndarlegir en eru eiginlega svona mín týpa.

Aðal gallinn eru reykingarnar. Það liggur mengunarský yfir borginni sem aðeins að sumu leyti stafar af mengun frá bílum. Það reykja hreinlega allir. Konur standa t.d. á götuhornum og reykja. Þær eru of mikið klæddar til að vera gleðikonur en ég skil samt ekki af hverju þær hanga bara og reykja. Karlmennirnir reykja ekki síður. Við ein stór gatnamót nálægt hótelinu mínu eru undirgöng svo hættulaust sé að komast hinum megin við götuna. Maður fer þarna niður og á móti manni tekur þykkt reykský. Þetta svona liggur í göngunum og helst þarf maður að draga að sér andann áður en maður fer niður og svo bara sleppa því að anda þangað til maður er kominn upp aftur. Gallinn er að göngin eru stór og maður yrði að halda andanum lengi.

Byggingar eru margar hverjar gullfallegar og eins og ég sagði eru margar þeirra mjög rússneskar í stíl. Það á að sjálfsögðu fyrst og fremst við rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna en líka fjölmargar aðrar byggingar. Gamli bærinn er sérstaklega áhugaverður og maður gengur eftir þröngum steinlögðum götum og skoðar gamlar kirkjur og aðrar byggingar. Ég tók sérstaklega eftir því hversu mikið var um hlera fyrir gluggum. Er búin að taka margar myndir af því. Er hins vegar ekki búin að hlaða inn mörgum myndum svo ég set þær ekki inn hér. Alla vega ekki strax.

Ég er hér á ráðstefnu. Reyndar var vinnufundur fyrsta daginn en vinnan mín er kostuð af Evrópusambandinu og er um evrópskt samstarfsverkefni að ræða. Við erum í hóp með Norðurlandaþjóðunum og Eystrasaltslöndunum. Ráðstefnan sjálf er um máltækni, nokkuð sem ég veit ekki mikið um en þó meir en áður en ég kom hér.

Meira síðar.


Fyrsta vikan

Ég er búin að vera á Íslandi í rúma viku núna og sumt er frábært og annað síður. Það er t.d. ljóst að sundlaugarnar á Íslandi eru engar líkar. Ég á eftir að eyða miklum tíma í Laugardalslauginn og Vesturbæjarlauginni. Þá er nammið og sætabrauðið mun betra en í Kanada. Umferðarmenningin er hins vegar mun slakari og veðrið er augljóslega ekki eins gott. Sérstaklega var ég búin að gleyma vindinum. Jafnvel á fallegum dögum eins og í gær og í dag er vindurinn ekkert sérlega hlýr. Málið er að það er næstum aldrei neinn vindur í Vancouver. Og hérumbil aldrei hvasst. Ég á því eftir að venjast veðrinu betur.

Umferðin í Reykjavík

Ég hef alltaf sagt að bílamenningin í Reykjavík er hræðilegt. Áður fyrr hélt ég að það væri vegna þess að hér væru svo margir bílar en það er alls ekki ástæðan. Það eru miklu fleiri bilar í t.d. Winnipeg og Vancouver en miklu betri bílamenning. Hér eru í raun ekki svo margir bílar á götunum en það virðast bara allir vera að hugsa um eigin rass. Ég gekk frá Háskólanum, niður í bæ, upp Snorrabraut, Borgartún og svo Suðurlandsbraut og það voru ótrúlega fáir sem hleyptu mér yfir. Á Suðurlandsbrautinni þurfti ég að komast yfir tvöfalda götuna og ég varð föst á miðri umferðareyju því bílarnir sem voru að beygja til vinstri stoppuðu ekki þótt ég væri á grænum karli og svo var kominn rauður karl á mig áður en ég vissi af. Yfirleitt virðist fólk ekki hrifið af því að hægja á sér eða stoppa til að hleypa gangandi vegfarendum yfir götuna. Þetta á þó ekki við um alla. Sumir voru mjög kurteisir og stoppuðu hiklaust fyrir mér. En ég vildi sjá fólk yfir höfuð taka tillit til annarra.

Reiðhjólafólk var ekki mikið betra. Hér tíðkast að hjóla á gangstéttum sem ég er auðvitað ekki vön lengur, en skil þó af hverju það er, enda stórhættulegt fyrir hjólreiðafólk að vera úti á götu innan um klikkaða bílstjóra. Gallinn er að hjólreiðafólkið virtist nota gangstéttina eins og það ætti hana og það voru allavega tveir næstum búnir að hjóla mig niður. Ég er nokkuð viss um að fólk á að hjóla rólega fram hjá gangandi vegfarendum.

Já, það er margt sem ég er orðin óvön. Sumt hefur þó lagast. Til dæmis voru nokkrir sem buðu strætóstjóranum góðan daginn. Ég man þegar ég gerði það eitt sinn þá hélt hann að við þekktumst, því enginn sagði góðan daginn. Þetta eru náttúrulega sjálfsagðir mannasiðir.

Á morgun stefni ég að því að hjóla í vinnuna og þá sjáum við hvernig mér gengur að ferðast um á hjóli í Reykjavík. Kannski verður annað skammarblogg frá mér annað kvöld.


Á leiðinni heim

Jæja, þá er heimferðin hafin. Síðustu dagar hafa verið algjörlega brjálaðir. Ég mæli með því að fólk sem er að flytja ákveði að gefa sér nokkra daga í það og á þeim tíma flytji það út úr íbúðinni sinni og inn til vina eða ættingja. Þegar maður er að reyna að flytja og að búa á staðnum líka verður þetta allt of flókið.

Það tók langan tíma að pakka öllu sem ég ætlaði að taka með, selja það sem ég gat selt, gefa það sem ég gat gefið og henda því sem ekkert betra var hægt að gera við. Og það var ekki hægt að þrífa almennilega fyrr en mest allt var farið út úr íbúðinni. Ég var ekki búin að þrífa gólfteppin fyrr en rúmlega átta í gærkvöldi og átti þá að vera komin í afmæliskvöldverð vinkonu minnar. Ég skaust til hennar í mat, fór svo til baka íbúðina til að ganga frá tveim hlutum, fór svo aftur til vinkonu  minnar til að borða eftirrétt og ég sat svo hjá þeim til um klukkan ellefu. Þá keyrði ég niður í bæ þar sem vinkonur mínar höfðu tekið hótelherbergi og þar vöktum við svo mestalla nóttina og horfuðum á brúðkaupið hans Villa. Klukkan sex keyrði Liza mig út á lestarstöð og nú er ég í lestinni á leið til Seattle þaðan sem ég mun fljúga til Keflavíkur.

Ferðin er öllu flóknari en ég ætlaði því þegar ég fór með farangurinn minn á flutningafyrirtækið gleymdist kassinn með hjólinu, svo nú er ég með tvær ferðatöskur, tölvuna í stórum kassa og hjólkassann. Það gekk þolanlega að koma þessu á lestina en nú verð ég að koma öllu í leigubíl og út á flugvöll og koma þessu svo í flug. Og ekki nóg með það, þegar heim er komið verður allt draslið einhvern veginn að komast til Reykjavíkur.

Ég verð annars að segja að ég hefði ekki getað reddað öllu ef ekki hefði komið til hjálp góðra vina. Doug og Rosemary hjálpuðu mér að losna við dót sem ég ætlaði ekki að taka með mér. Mark Freeman og Noriko komu á miðvikudaginn og hjálpuðu mér að bera dótið mitt út í sendlabíl. Mark kom svo aftur í gærmorgun og fór með mér til Surrey og hlóð með mér dótinu  mínu á bretti og svo vöfðum við allt með plasti. Alison í kjallaranum hjálpaði með þrif og einnig Julianna og mamma hennar. Liza kom svo og hjálpaði til líka. Ég hefði ekki getað þetta án þeirra. Það er gott að eiga góða vini.


Brynjolfson fólkið

Þegar ég bjó enn í Winnipeg frétti ég af því að ég ætti frændfólk á Vancouversvæðinu - Brynjólfsson fólkið. Þau eru afkomendur Sigurðar Brynjólfssonar sem, ef ég man rétt, var systursonur Ívars langafa míns. Frændi minn á Íslandi reddaði mér heimilisföngum þessa frændfólks míns og ég sendi þeim bréf og sagði þeim að ég væri að flytja á svæðið. Þau tóku mér ákaflega vel og fyrstu eða aðra helgina sem ég var í Vancouver var mér boðið með þeim í útilegu að Logan vatni hér í Bresku Kólumbíu. Þar hitti ég hreinlega alla fjölskylduna eða svo sem. Börn Sigurðar urðu sex og þau giftust öll og eignuðust börn. Þarna hitti ég sem sagt fólk af öllum ættbogum nema þeim sem flutti til Bandaríkjanna.
 
Upp frá þessum degi var alltaf komið fram við mig sem eina af fjölskyldunni og ég hef eytt með þeim mörgum jólum, páskum og þakkagjörðardögum. Sérstaklega hef ég umgengist börn Brynjólfs, eða Bens eins og hann kallast hér. Hann á fjórar dætur sem allar eru nokkuð eldri en ég, og eru þær systur mjög nánar. Ég hef líka farið í mat til Sigurðar - sem ýmist er kallaður Sig eða Sam - og hans konu Ginny, svo og í boð og veislur til fleiri ættmenna.Þetta fólk er alls ekki náskylt mér en þau eru eina fjölskyldan sem ég hef á svæðinu og þau hafa staðið sig vel í að bjóða mér með.
 
Ég lét þau vita fyrir stuttu að ég væri að flytja aftur heim og að ég myndi kveðja þau þessa páskana. Þegar ég mætti heim til Kathy, yngstu dóttur Bens, voru þar ekki bara þær systur og fjölskyldur þeirra heldur höfðu þau líka boðið Sig og Ginny, svo og systkinunum George og Vicky ásamt þeirra mökum. Þetta var því heilmikil veisla og mér þótti ákaflega vænt um að þau skyldu gera þetta fyrir mig. Ég fékk líka alveg að vita að ég væri heiðursgesturinn og fékk meira að segja fallegt kort sem allir skrifuðu undir. Ég sé þau ekki oft á ári því þau búa í klukkutíma fjarlægð, en ég á samt eftir að sakna þess að fara ekki í mat til þeirra reglulega, borða kalkún og styrkja ættarböndin.
 
Myndin hér var tekin af kvenpeningnum en því miður var Vicky farin því hún og John maðurinn hennar búa hinum megin við landamærin, í Bellingham, svo þau fóru fyrr heim.
 
 IMG_9703

Lögmaður á rölti

Ég fer ákaflega sjaldan niður í miðbæ Vancouver enda ekki margt þangað að sækja fyrir mig. Hér í mínu hverfi finn ég flest það sem mig vantar. Ég skaust þó aðeins niður í bæ á laugardaginn á leið minni að sjá Teit Þórðar og strákana hans spila á móti Chivas USA í MLS deildinni norður amerísku. Ég þurfti að taka tvo strætisvagna og eina lest sama hvaða leið ég færi svo ég ákvað að fara í gegnum miðbæinn og leita í leiðinni að Adidas hlaupaskóm fyrir bróður minn.

Þar sem égeng eftir Granville götu ganga hjón framhjá mér og var maðurinn mjög kunnuglegur. Ég vissi að hann var leikari og mundi að hann hafði verið í vinsælum sjónvarpsþáttum sem sýndir voru í langan tíma en mundi ekki hvaða þáttum. Datt helst í hug Law and Order Special: Victims Unit, því mér fannst hann hafa verið lögga, en var þó ekki viss.Þegar ég kom heim skoðaði ég myndir úr nokkrum lögguþáttum en fann ekki þennan. Rótaði og tætti í minninu og mundi allt í einu hvar ég hefði séð hann - sem lögmann. Mundi ekki heitið á þáttunum en mundi að þeir voru fyrirrennarar Boston Legal með James Spader. Fletti upp á þeim þætti, fann heitið á fyrirrennaranum, The Practice, og þar fann ég nafnið á þessum sem ég sá úti á götu, Michael Badalucco. Hann var Jimmy í The Practice.


Halldór Laxness

Frá Winnipeg

Málið sem kenndi þér hún amma þín,
það sem var áður goðamál í hofum
og geymt var einsog gamalt helgiskrín
- gullið í mörgum fátæklegum stofum, -
kallað í háska; kveðin oft við vín,
kveinað í Nýja Íslands bjálkakofum;
það mál sem ég hef tveggja ára talað
í trú og von á barnagullin mín,
og hvíslað minni fyrstu ást í eyra
einn aftan síðla um vorið, hvílíkt grín!
Það hefur hljóðin þægileg og fín.
Þyrstir mig laungum óminn þess að heyra.

-Halldór Laxness 


Svona gerist

Þeir hjá Applebee's eru nú ekki einir um svona mistök. Þegar ég var sirka fimm ára var ég í gullbrúðkaupsveislu afabróður míns og konu hans þar sem þjónað var til borðs. Mamma bað um kók handa mér og Gunna bróður sem þá var tólf ára. Ég drakk fyrst og kvartaði um að drykkurinn væri ógeðslegur og þegar Gunni smakkaði sagði hann að þetta væri brennivín. Þetta reyndist nú ekki brennivín en áfengur drykkur var það og margbaðst þjóninn afsökunar. En það breytti því samt ekki að við systkinin fengum áfengi að drekka í veislunni.
mbl.is Ungbarn fékk Margarítu í stað eplasafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband