Sofandi síða

Ég stofnaði þetta blogg á sínum tíma til að halda við íslenskunni. Ég bjó í Kanada, hafði gert um áraraðir, og notaði tungumál mitt ákaflega sjaldan. Ég fann að ég var að stirðna í málinu og að ég skrifaði það nær aldrei. Svo ég fór að blogga. Um nóg var að spjalla því ég var alltaf að upplifa einhverja nýja og skemmtilega hluti sem kannski voru svolítið ólíkir ýmsu sem fólk þekkti heima á Íslandi. Þetta var býsna skemmtilegur tími þótt ég lenti stundum í því sama og flestir aðrir sem voru að blogga - að maður fengi einhverja leiðindagesti inn á síðuna sína sem töldu sig geta sýnt dónaskap, bara af því að þeir stóðu ekki augliti til auglitis við mann. Því fólki hefur reyndar fjölgað gífurlega eftir að samfélagsmiðlarnir urðu algengari og nú er vart þverfótað fyrir því. Neinei, það er ekki fleira en hinir - bara meira áberandi. En svona fyrir utan þau tröll þá var þetta býsna skemmtilegt og oft sköpuðust áhugaverðar umræður.

En nú er ég flutt heim og þótt íslenskan mín hafi ekki enn alveg náð sama stað og áður en ég flutti út þá er þetta auðvitað allt annað mál núna. Svo ég stend frammi fyrir því hvort ég eigi að taka þetta blogg niður - enda meira en ár síðan ég skrifaði eitthvað síðast - eða hvort ég eigi að leyfa því að standa. Kannski ég ætti bara að fara að skrifa meira. En þetta er ekki dagurinn sem ég tek þá ákvörðun. Þótt ég bloggi nær aldrei finnst mér ég loka ákveðnum kafla í ævinni þegar ég loka blogginu og ég er ekki alveg til í að loka strax. Svo ég ætla að leyfa þessari síðu að vera hér eitthvað áfram.

En hún mun sennilega sofa Þyrnirósasvefni eitthvað lengur.


Bloggfærslur 11. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband