Í leikhúsi

Þegar ég var í menntaskóla fór ég á allar leiksýningar sem LA setti upp, eða alla vega vel flestar, og að sjálfsögðu allar sýningar LMA. Svo flutti ég til Reykjavíkar og fékk valkvíða og fór hér um bil aldrei í leikhús. Ætli ég hafi ekki séð kannski fjórar sýningar á þeim níu árum sem ég bjó þar. Átti svo sem aldrei mikinn pening en held það hafi meira verið bara það að úrvalið í Reykjavík var of mikið fyrir svona malarbarn eins og mig (Reykjavík er sem sagt malbikið en Akureyri mölin - enda var gatan okkar ekki malbikuð fyrir en ég var komin á unglingsárin).

Í Kanada fór ég heldur ekki mikið í leikhús. Fór reyndar á þrjú tilraunastykki fyrsta árið mitt þar því ég fékk miða á góðu verði og skemmti mér vel en það skilað sér samt ekki í fjölgun leikhúsferða. Fór reyndar á barnasýningu á múmínálfunum og svo skellti ég mér á balletsýningu hjá Royal Winnipeg Ballet - ekki af því að ég sé svo hrifin af ballett heldur vegna þess að þetta er næsbesti ballethópur N-Ameríku og mér fannst ég yrði hreinlega að fara. Var reyndar heppin - verið var að sýna nýjan ballett byggðan á Dracula og ég skemmti mér því konunglega. Í Vancouver fór ég aðeins einu sinni í leikhús og sá þá Rent í litlu áhugamannaleikhúsi. Fór aldrei í stóru leikhúsin. Einu skiptin sem ég fór í slík hús var til að fara á tónleika og svo einu sinni á óperusýningu. Töfranflautan sett upp eins og hún væri um indjána.

En núna er ég búin að fara tvisvar í leikhús í vikunni. Fór á Fólkið í kjallaranum um síðustu helgi og svo Svartur hundur prestsins í kvöld. Fannst báðar sýningarnar æðislegar. Og mikið rosalega eigum við góða leikara. Allir leikararnir stóðu sig með prýði - í báðum stykkjunum. En að öðrum ólöstuðum verð ég að segja að Kristbjörg Kjeld stóð upp úr. Mikið svakalega er hún góð leikkona, og það sem hún er falleg líka. Ilmur var auðvitað meiriháttar eins og hún er alltaf og sömu sögu má segja um Þröst Leó. En eins og ég sagði þá voru allir leikararnir sannfærandi og ekki sá ég veikan punkt. Það tók reyndar smá tíma að venjast ýkta stílnum í Svörtum, en um leið og það vandist naut ég verksins í botn.

Það er annars merkilegt að þessi tvö verk eiga margt sameiginlegt. Bæði fjalla þau um fjölskyldur í krísu þótt misjafnt sé hvernig tekið er á málum. Í báðum er forsagan mikill hluti en tvær ólíkar aðferðir notaðar til að sýna hana. Í báðum verkum er leyndarmál sem kemur fram á mismunandi hátt og hefur mismunandi áhrif á fólkið. Í báðum verkum er tónlist töluvert notuð. Og segja má að í báðum verkum sé tekist á við málin og hlutirnir dregnir fram í dagsljósið og margt sagt sem áður hafði verið grafið.

Stærsti munurinn á verkunum, fyrir mig alla vega, var sá að mér fannst ég alltaf nokkurn veginn vita hvar ég hefði Fólkið í kjallaranum, þótt ég vissi ekki endilega hvað gerðist næst, en í Svörtum hundi prestsins vissi ég aldrei hvar ég hefði söguna. Hvað verið væri að segja okkur, hvað væri nákvæmlega að gerast. En það var ekki galli. Það hélt mér á sætisbrúninni. Samræður voru góðar í báðum verkum og býsna sannfærandi en Svartur fær þó A+ fyrir hnitni. Ég átti það til að grenja úr hlátri yfir ýmsu sem kom út úr persónunum. Má kalla þetta svarta kómedíu? Fólkið var meira dramatík með fyndnum atriðum. Maður gat hlegið að mörgu en leikritið gerði sig ekki út fyrir að vera fyndið. Eða alla vega held ég ekki. Enda þurfti þess ekki.

Mér fannst leikstjóra Fólksins takast alveg ótrúlega vel að skipta á milli tíma. Maður var aldrei í vafa um í hvorn tímann var verið að vísa, nema rétt í byrjun. Virkilega vel gert.

En ef einhver á handritið að Svörtum hundi prestsins vildi ég gjarnan fá eintak af ræðu Steingerðar um málvísindi. Sem málvísindakona var ég auðvitað yfir mig hrifin af þeirri ræðu (þótt hún hafi sennilega átt að vera háð að einhverju leyti).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband