Klifur og málfræði

Um miðjan desember var klifursalnum mínum lokað og starfsemin fluttist í nýtt húsnæði, aðeins austar en hún fór fram áður. Lengi vel gat ég aðeins boulderað (grjótglímt) þar sem Marion, klifurfélagi minn, fór til Ástralíu um jólin og Dave, sem ég hefði getað klifrað með fór til Prince George að heimsækja foreldra sína og til að klifra ís. En mér þykir skemmtilegt að bouldera, jafnvel skemmtilegra en að klifra leiðir í reipi, svo þetta var allt í lagi. En eftir að Marion kom til baka höfum við klifrað tvisvar í reipi. Við höfum reyndar bara verið að klifra auðveldari leiðirnar því það var orðið svo langt síðan við klifruðum leiðir að þrekið datt niður - þegar maður boulderar þá klifrar maður miklu styttri en erfiðari leiðir. Í stað þess að klifra beint upp þá klifrar maður þvert á veginn og jafnvel hangir úr loftinu.

Í dag klifruðum við leiðir og það var hrikalega skemmtilegt. Nýi salurinn er svo miklu stærri en sá gamli og það eru svo margar leiðir sem við höfum ekki prófað ennþá. Við erum búin að klifra flestar 5.8 leiðirnar og sennilega flestar 5.9 en bara nokkrar 5.10a og í dag klifraði ég 5.10b. Það þýðir að næstum allar 5.10b leiðirnar eru eftir og allar 5.10c og 5.10d. Ég þarf að fara að klifra þessar hærri leiðir og koma mér aftur í nógu gott form til að fara að reyna við 5.11. Þar var ég stödd þegar Marion fór í burtu. Sem sagt nóg af skemmtilegu klifri framundan.

Annars er lítið að frétta. Ég er búin að eyða megninu af vikunni í það að fara yfir heimaverkefni í málvísindum 100, sem er fyrsta árs áfangi. Þessi áfangi er nokkurs konar inngangur að málfræði. Það er alveg ótrúlegt hvað sumir nemendur virðast ekki lesa lýsingarnar á því sem þeir eiga að gera og ná að klúðra einföldustu leiðbeiningum. Hluti af verkefninu þessa vikuna var að þau áttu að fylgjast með samskiptum manneskju og vélar og lýsa þeim nákvæmlega. Sumir lýstu sínum eigin samskiptum við vél (þótt það væri tekið skýrt fram að þau ættu að fylgjast með öðrum) og sumir lýstu samskiptum fólks almennt við vélar. Hvað gerir maður við svona nemendur? Ég á eftir að furða mig á sumum svörum í allan vetur. Látið mig þekkja það. Og þessi grey eru á fyrsta ári, átján ára. Vanalega hef ég séð um aðstoðarkennslu í þriðja árs áföngum þar sem nemendur vita aðeins meira hvað þeir eru að gera.

En þeim mun meira sem ég kenni við erlenda háskóla þeim mun sannfærðari er ég um það að Íslendingar megi ekki breyta skólaaldrinum. Átján ára krakkar eru yfirleitt ekki tilbúnir til þess að fara í háskóla. 


Ekki má maður skreppa frá

Ég fór í skólann í morgun og vissi ekkert af öllum þeim rýtingum sem verið var að stinga í bök borgarstjórnarmanna heima á meðan ég var þar. Kom heim og les fréttir og skildi ekki alveg hvernig Ólafur og Vilhjálmur gátu skipt með sér borgarstjórnarstól í stjórn sem Sjálfstæðismenn voru ekki hluti af. En ég áttaði mig fljótlega á því að eitthvað mikið hafði gerst á meðan ég var í skólanum.

Mér ætti auðvitað að vera sama því ég má ekki einu sinni kjósa lengur í Reykjavík. Hef löngu misst kosningarétt í sveitastjórnarkosningum á Íslandi. En auðvitað er manni ekki sama og mér þóttu þetta ljótar fréttir. Og kannski þykir mér verst hvernig þessir stjórnmálamenn hegða sér, óháð því hver situr í stjórn og hver svíkur hvern. Björn Ingi sveik Sjálfstæðismenn fyrir ekki mörgum mánuðum, nú svíkur Ólafur flokksbrotin-sem-áður-kölluðust-R-listi (eins og the artist formerly known as Prince). Og þetta er ekki nein ný uppfinning. Ég gleymi seint 1989 þegar Jón Baldvin og Steingrímur sviku Þorstein? Ég var ánægð með stjórnina sem tók við en hef alltaf haft óbeit á því hvernig að málum var staðið. Þorsteini var fórnað á altari stjórnmálanna eftir að Jón Baldvin hafði klúðrað fjármálaráðuneytinu. Og þetta batt auðvitað endiá feril Þorsteins og auðveldaði Davíð aðkoma. Fjöldi stjórnmálamanna er tilbúinn til þess að fórna miklu fyrir eigin hagsmuni. Og þetta er liðið sem á að sjá um mál okkar hinna.

Fuss og svei, það er mannaþefur í helli mínum. 


mbl.is Nýr meirihluti í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnuhelgi

Nú er þessi helgi að verða búin og ég er búin að vinna eins og sjúklingur. Byrjaði snemma í gærmorgun. Átti að leika fótbolta gegn Wildcats en þegar ég skreið á fætur klukkan átta um morguninn athugaði ég póstinn minn og sá þar bréf frá þjálfaranum þar sem tilkynnt var að leik væri frestað vegna snjókomu. Þjálfari hins liðsins hafði farið eldsnemma út á völl og sá þar að allt var á kafi í snjó og ekki hægt að spila. Hluti af mér andvarpaði af svekkelsi en hinn hlutinn af ánægju – ég gat skriðið aftur undir sæng. En ekki var ég búin að liggja nema í nokkrar mínútur þegar síminn hringdi. Það var Leah að láta mig vita að búið væri að fresta leiknum. Hún mundi ekki hvort ég hafði tölvupóst heima eða ekki. Ég spjallaði aðeins við hana og var nú glaðvöknuð og ekkert þýddi að reyna að sofa. Svo ég fékk mér morgunverð - óvenju stuttan því blaðið kemur ekki út á laugardögum, og svo fór ég bara að skrifa.

Ég var í stuði og skrifaði þangað til um eitt leytið þegar ég skrapp í kaffi til Rosemary. Kom heim aftur um þrjú leytið og hélt áfram að skrifa. Var reyndar dauðþreytt og reyndi að sofa á milli fimm og sex en ég held ég hafi í mesta lagi dottað. Ég sef yfirleitt ekki á daginn. Um sjö hófst leikur Canucks á móti LA Kings sem er lélegasta liðið í deildinni. Þeir vinna varla leik - nema þegar þeir spila á móti okkur. Og það gerðist aftur í gær. Skil ekki hvernig á þessu stendur. Við vorum með 45 skot að marki en skoruðum ekki nema þrjú mörk. Þeir skutu sextán sinnum að marki og skoruðu fjórum sinnum. Og við erum með besta markmann í heimi. Greinilegt að Luongo er mannlegur og á sína slæmu daga.

Um hálfníu  leytið fór ég yfir í Burnaby að spila innanhúsfótbolta. Mér fannst ég ekki spila vel. Náði einhvern veginn ekki að koma mér inn í leikinn. En ég held ég hafi ekki verið léleg. Bara ekki eins þolanleg og mér finnst ég geta verið. Leikurinn endaði 4-4. 

Lína hringdi í mig í gærkvöldi og bauð mér með á skíði í dag. En ég gat ekki farið því ég átti von á viðgerðarmanni frá símanum. Hann átti að koma á milli átta og tólf. Ég gat því ekki farið út og notið fallega veðursins heldur húkti heima og beið. Og þá var um að gera að nota biðina til skrifta. Svo ég skrifaði og skrifaði. Símamaðurinn kom ekki fyrr en klukkan tvö. Þá var ég búin að bíða í sex klukkutíma. Hann gat lagað sumt en ekki allt. Ætlar að koma aftur á morgun. Aðalástæðan fyrir veseninu er sú að símalínurnar í húsinu eru frá fornöld. Nískupúkarnir sem eiga húsið hafa ekki látið endurnýja neitt. Megnið af rafmagninu er t.d. ójarðbundið. Hugsanlega þarf að skipa um allar símalínur og það myndi taka marga klukkutíma.

Gallinn var að um leið og símamaður byrjaði að fikta í línunum versnaði vandinn og nú er módemið að endurræsa sig mörgum sinnum á klukkutíma og það þýðir að internet og sjónvarp lokast í þrjátíu sekúndur í hvert sinn. Sem betur fer er ekkert spennandi í sjónvarpinu í kvöld vegna verkfalls handritshöfunda.

En aðal málið er að ég hef skrifað alveg helling þessa helgina. Kaflinn minn um ástandssagnir er orðinn 37 síður sem er að verða nokkuð góð lengd.  


Dásamlegur dagur í Whistler

Ég komst loksins á skíði og það var alveg dásamlegt.

Ég vaknaði klukkan hálfsjö í morgun, borðaði morgunverð rauk út til að ná strætó. Ég þurfti að taka tvo strætisvagna niður í bæ og síðan ferjuna yfir til Norður Vancouver þar sem Peter vinur minn beið. Hann býr þar nyrðra. Það tók óvenjulangan tíma að komast uppeftir enda er verið að byggja upp veginn megnið af leiðinni vegna Ólympíuleikanna 2010. Klukkan var komin á tólfta tímann þegar við vorum loksins komin uppeftir og þá tók við gondólaferð upp í mitt fjall og síðan tvær stólalyftur þaðan upp á topp.

At WhistlerVið þurftum að bíða í fimmtán til tuttugu mínútur nokkrum sinnum en yfirleitt voru biðraðir þolanlegar. Samt voru alveg ótrúlega margir á skíðum miðað við að það var þriðjudagur. Ég var að velta því fyrir mér af hverju þetta fólk var ekki í vinnunni, eða í skólanum. Ekki geta allir verið að skrifa doktorsritgerð. Ég hef grun um að margir hafi bara tekið sér frí frá daglegum önnum vegna góðrar veðurspár. Enda var veðrið alveg dásamlegt. Sól og blíða en nokkuð kalt. Líklega um tíu stiga frost, þótt einhver hafi reyndar sagt að það hafi verið átján stiga frost. Ég er nokkuð viss um að það var ekki rétt. Færið var súper gott í troðnu brekkunum en þær ótroðnu voru ekkert sérstakar. Snjórinn of þungur. Í Whistler, eins og víða, eru brekkurnar merktar eftir því hversu erfiðar þær teljast. Þessar grænu eru auðveldastar og eru yfirleitt fyrir byrjendur. Bláu ferhyrningarnir eru fyrir meðaljónin og svörtu demantarnir fyrir  þá reyndari. Þar má reyndar velja um einn eða tvo svarta demanta og eru tveir erfiðari en einn. Demantarnir eru yfirleitt ótroðnar brekkur og stundum sértilgerðir mógúlar. Ég fór ekki margar ferðir niður demanta í dag þótt ég hafi vanalega gaman af því að skjótast niður þá nokkrar ferðir. En ég er alltaf hrifnust af breiðum, bröttum og vel troðnum brekkum. Það er sennilega gamla keppnisskapið. Ég get ímyndað mér að ég sé í vel lagðri braut að keppa. Ég sakna þess mikið að fá ekki að skíða niður braut. Hef ekki gert það síðan ég hætti að æfa fyrir...allmörgum árum.

Lyfturnar loka á bilinu hálfþrjú til korter yfir þrjú og ég náði ekki að komast alla leið upp á topp áður en hærri lyftunum var lokað. En komst þó nokkuð hátt. Ákvað að reyna vel á lærin á niðurleiðinni og skíðaði hratt niður í meira og minna einum rykk. Það tók um tíu mínútur að komast niður fjallið. Ég stoppaði einu sinni í nokkrar sekúndur til að gefa leggjunum smá afslöppun því læravöðvarnir voru farnir að titra. En svo hélt ég áfram.

Þetta var alveg súperdagur. Ferskt fjallaloft, sólskin, dásamlegur snjór, vel ruddar brautir, góður félagsskapur og chilli í hádegisverð (náði að halda mig frá hamborgara og frönskum).

Eftir skíðaferðina var ég svo þyrst að ég þambaði vatnið á heimleiðinni. Þurfti því að sjálfsögðu að pissa á miðri leið og var alveg í spreng þegar við komum niður í Norður Vancouver. Staulaðist á klósett á ferjumiðstöðinni og hélt að ég myndi aldrei klára. Þegar ég kom heim drakk ég þrjú eða fjögur glös af vatni og hef síðan verið að sötra vatn allt kvöldið. Er ennþá þyrst. Það er sennilega ferska fjallaloftið sem gerir þetta.

 


Hvassviðri og skíðaferð

Hér er vaðvitlaust veður. Húsið hristist í rokunum. Í dag fauk í burtu tjalddúkur á nýbyggingunni við hliðina. Ég var ákaflega ánægð með það því dúkurinn var búinn að sveiflast í vindinum í marga klukkutíma og varð af því mikill hávaði. Annars hefur þetta svona gengið á með kviðum. Á tímabili í dag var mígandi rigning en ekki svo hvasst. En undir kvöldið versnaði veðrið. Það kæmi mér ekki á óvart þó einhver tré brotni í nótt ef þetta heldur áfram.

Annars á að lægja fyrir morgundaginn sem er mjög gott því ég fæ loksins tækifæri til þess að komast á skíði. á morgun. Peter vinur minn hringdi í kvöld og spurði hvort ég vildi fara til Whistler. Ég vil það að sjálfsögðu enda var ég að verða vitlaus á skíðaleysinu. Ég athugaði meira að segja rútuverðið um daginn því ég var næstum því til í að leggja á mig rútuferð, en það er svo fjandi dýrt; yfir 2000 krónur. Þegar um 4000 kr. dagskort kemur ofan á má sjá að þetta er heilmikið fyrirtæki. Það er ódýrara að fara með Peter. Þótt ég borgi í bensíninu þá er það samt miklu ódýrara en rútuferð. Reyndar er ferðalagið ekkert styttra því Peter býr í Norður Vancouver og ég þarf að koma mér yfir á norðurbakkann með ferjunni. En ég tek bara bók með mér. Það er líka skemmtilegra að hafa félagsskap á skíðum.

Ég hef reyndar ekki tíma til að fara því kennslan er byrjuð og í dag þurfti ég að fara yfir 200 heimaverkefni. Ég þarf að lesa greinar fyrir miðvikudaginn og það verður ekki mikið gert á morgun eftir að ég kem heim úr fjallinu. En hey, ég mun ekki fá mörg tækifæri til þess að komast á skíði svo ég gríp þau sem gefast.

 


Dómarafífl

Einhvern tímann í vor eða sumar skrifaði ég langa færslu um dómarafífl sem dæmdi leikinn okkar í Presto og gjöreyðilagði gamanið því hann dæmdi eingöngu á okkar lið. Dómarinn í leiknum okkar í dag er í harðri samkeppni um titilinn 'Versti dómari allra tíma'. Þessi var reyndar skárri en hinn að því leyti að hann dæmi jafnmikið á bæði lið en það var yfirleitt ekki heil brú í því sem hann gerði.

Honum var sérstaklega illa við mig. Það er ástæða fyrir því. Leikurinn í dag fór fram á möl af því að spáð var rigningu og við máttum ekki við því að missa af enn einum leiknum vegna þessa.  Ég hef tvisvar áður leikið á möl og í fyrra skiptið var mér hrint afturábak svo ég fékk slæmt höfuðhögg, og í seinna skiptið datt ég á hnéð og rann svo á mölinni þannig að skinnið skrapaðist af hné og fótlegg. Ég náði ekki að þrífa þetta almennilega svo sýking kom í sárið og ég varð að lokum að fara til læknis og fá fúggalyf. Svo ég fór til dómarans fyrir leikinn og bað um leyfi til þess að leika í síðbuxum. Hann var harður á því að það væri mikilvægast að allt liðið liti eins út og honum var ekki hnikað. Ég fékk ekki að leika í buxum. Ég reyndi að benda manninum á það að ég lenti næstum alltaf á jörðinni, að minnsta kosti einu sinni í hverjum leik, en það breytti engu. Hann sagðist ætla að halda brotum í lágmarki.

Leikur hófst og við áttum völlinn. Boltinn fór ekki yfir á okkar helming fyrr en eftir að við skoruðum fyrsta, og eina mark leiksins. Benita skoraði það fallega úr aukaspyrnu. Síðar í fyrri hálfleik var ég að hlaupa upp kantinn með boltann og varnarmaður úr liði North Shore hleypur í síðuna á mér og ég flaug á hausinn. Það var ekkert að þessu. Hún notaði skrokkinn til að ýta mér til og það er leyfilegt. En ég var á harðahlaupum og jafnvægið var ekki gott. Þar að auki var völlurinn ójafn og auðvelt að stíga illa niður. Ég marðist illa á læri, skrapaði skinnið af hnénu (svo úr blæddi) og lenti að auki á olnboga og fann ógurlega til. Ég komst ekki strax á fætur. Dómarafíflið öskraði á mig að hundskast á lappir og lét leikinn halda áfram. Þjálfari hins liðsins sem var rétt við hliðina á mér kallaði á dómarann að ég væri meidd og hann yrði að stoppa leikinn en það var ekki gert. Ég skreið á lappir og byrjaði að  labba að varamannabekknum því ég þurfti út af til þess að hreinsa sárið. Ég ætlaði ekki að fá sýkingu aftur. Þegar boltinn fór loks úr leik kom fíflið alveg upp að mér og öskraði á mig að ef ég gerði þetta aftur þá fengi ég spjald. Ég kom af fjöllum og vissi ekki hvað ég gerði og þá hélt hann því fram að ég hefði stungið mér, látið mig detta. Ég átti ekki til orð en náði loks að öskra á móti að ég hefði bara alls ekki gert það og þá sagðist hann hafa verið alveg við hliðina á mér (sem var auðvitað ekki rétt). Hann ítrekaði að ég fengi spjald ef ég gerði þetta aftur svo ég þakkaði fyrir mig og fór útaf áður en ég segði eitthvað sem ég gæti fengið rauða spjaldið fyrir. En þið megið trúa því að það sem mig langaði að segja var ekki fallegt. Hvaða asni lætur sig detta á malarvelli, og það var ekki einu sinni eins og ég hefði grætt neitt á aukaspyrnu. Þetta gerðist við miðju. 

En þetta var ekki búið. Ég kom aftur inn á í síðari hálfleik eftir að ég var búin að hreinsa sárið og plástra. Ég var greinilega í svörtu bókinni núna því hann kallaði á mig rangstöðu þar sem engin var og í annað skiptið fékk hitt liðið aukaspyrnu þegar ég hafði varla snert á manneskjunni. En það sem var fyndnast var síðar í leiknum þegar ég fór út af fyrir Benitu (við lékum með fimm framverði). Boltinn fór út af rétt á eftir og ég var að labba eftir hliðarlínunni í átt að varamannabekknum þegar fíflið sér mig og spyr hvenær ég hafi farið út af og hvort einhver hafi komið inn fyrir mig. Hann sagðist ekki hafa gefið leyfi fyrir innáskiptingu. Þá kom þjálfarinn minn og sagðist hafa beðið um skiptingu og fengið merki frá dómaranum um að hann mætti skipta. Hvað haldiði að fíflið hafi sagt þá: "Þú fékkst leyfi fyrir einni skiptingu. Ekki tveim." Hvað er eiginlega að þessum manni. Í deildinni má skipta eins mörgum mönnum í einu og hverjum og einum sýnist. Það þarf ekki að láta vita hversu margir fara út af. En dómarinn var ekki búinn að ljúka sér af. Hann horfir til okkar Akimi og öskrar: 'Haldið áfram'. Ég benti honum á að við værum komnar út af (OK, kannski ætti ég að þegja en ég hélt hann væri orðinn galinn og héldi að ég ætti að taka innkastið.) Hann endurtók öskrið og ég endurtók svarið og þá hreytti hann í mig: "Farðu þá í jakka utanyfir því það er ruglandi að hafa fólk á línunni í sama lit." Afgangurinn af liðinu okkar stóð á línunni aðeins neðar í treyjunum og hinum megin við var allt hitt liðið í sínum treyjum. Næstum enginn var í jakka. 

Þarna lauk mínum samskiptum við dómarinn en hann var þó ekki búinn að rasa út. Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum spurði einhver dómarann hve mikið væri eftir og var sagt að það væru tíu mínútur eftir. Þegar þær tíu mínútur voru búnar tilkynnti hann einhverjum í hinu liðinu að hann ætlaði að bæta við þremur mínútum vegna stoppa (injury time; ég man ekki eftir að leikurinn hafi verið stoppaður oft. Ekki stoppaði hann fyrir mig t.d. - enginn annar dómari bætir við tíma vegna stoppa.) Dave leit á klukkuna þá og hann lét okkur spila í fimm mínútur eftir það. Allt í allt lékum við í 100 mínútur. Það var eins og hann ætlaði ekki að hætta fyrr en hitt liðið jafnaði.

Dave, þjálfarinn okkar, talaði við hinn þjálfarann eftir leikinn og þeir ætla báðir að kvarta við deildina. Ég talaði líka aðeins við nokkrar stelpurnar í hinu liðinu eftir leikinn og þær sögðust oft fá þennan dómara (lið fá oft sömu dómara því dómarar eru yfirleitt ekki sendir langt í burtu frá heimili sínu) og hann væri alltaf slæmur en aldrei eins slæmur og þarna.

Ég átti erfitt með að segja ekki manninum að hann væri fífl en ég vildi ekki gera honum það til geðs að fá að lyft rauða spjaldinu.

Það góða var að við spiluðum býsna vel, sérstaklega fyrri hálfleikinn, og unnum 1-0. North Shore Saints sátu áður á toppnum en nú erum við jafnhliða þeim, ásamt liði frá Burnaby. Höfum öll 19 stig. Burnaby hefur leikið fleiri leiki en við og North Shore en við höfum aðeins betra markahlutfall og ættum því að vera í öðru sæti núna. North Shore hefur besta markahlutfallið. Við eigum eftir að leika þrjá leiki áður en úrslitakeppnin hefst.


Laugardagur til leti

Ég hef haft þetta spakmæli að leiðarljósi í dag. Svaf til tíu eða svo, borðaði morgunverð á meðan ég horfði á seinni helming myndarinnar Dave sem var í sjónvarpinu. Ég er búin að sjá þessa mynd nokkuð oft en hef alltaf gaman af henni. Hvað varð annars að Kevin Kline. Hann er svo dásamlegur leikari en ég hef hvergi séð hann nýlega.

Búin að leggja nokkra kapla líka. Hef verið að spila 'spider' með tvær sortir og af því að maður getur næstum því alltaf unnið þar ef maður bara nennir að hugsa þá hef ég verið að keppast við tíma. Hef náð að komast undir átt mínútur nokkrum sinnum en aldrei undir það. En þið sjáið að hægt er að eyða heilmiklum tíma svona.

En þetta hefur ekki bara verið letidagur. Ég hef líka unnið í ritgerðinni minni og náði að gera nokkrar mikilvægar breytingar. Það er eins og ég þurfi alltaf að tæma hugann reglulega því ef ég geri það og sný  mér svo aftur að ritgerðinni þá er auðveldara að koma einhverju í verk. Ég get aldrei setið við lengi í einu. Þá fer allt að hringsnúast í hausnum á mér. En ég er búin að vera í vinnustuði undanfarið og ég veit að ég hef gert kaflann betri. Ég held ég muni koma honum í enn betra lag áður en helgin er búin.

Nú ætla ég í IKEA. Mig vantar nokkra hluti og þar að auki er alltaf gaman að fara í IKEA. Eini gallinn er að það er heilmikið fyrirtæki. Það er ein verslun í Richmond hér fyrir sunnan og önnur í Coquitlam sem er austan við Vancouver. Það er lengra í þá síðarnefndu en sú búð er nýrri og stærri og skemmtilegri. Ég ætla því að leggja á mig 40 mínútur í strætó, þá 30 mínútur í lest og svo aðrar fimm í öðrum strætó. Plús bið eftir strætóunum sem er lengri af því að það er helgi. En það er þess virði held ég.  

Bið að heilsa ykkur hinum. Vona að þið hafið líka notað laugardaginn í afslöppun.


Annir

Ég hef aðeins dottið út úr blogginu undanfarna daga. Það er aðallega vegna þess að skólinn er kominn á fullt og eins og ég sagði í síðustu færslu (þar sem ég var víst mjög leiðinleg) þarf ég að kenna þessa önnina.

Nú eru búnir tveir tímar og hópurinn er ekki farinn að minnka ennþá. Það mun sjálfsagt gerast þegar liðið fær fyrsta heimaverkefnið. Það er fremur erfitt en aðallega víst vegna þess að fólk tekur ekki auðveldustu leiðina - eða þannig hefur það víst verið undanfarin ár. Verkefnið er þannig að nemandinn á að lýsa samskiptum manneskju og vélar/tækis (machine) í smáatriðum og margir fara víst út í það að velja tölvu eða síma og detta svo út í það að tala í raun um samskipti manneskju við aðra manneskju í gegnum vélina/tækið. En það er alls ekki það sem á að gera. Auðveldara væri að lýsa samskiptum manneskju við t.d. sjálfsala eða eitthvað svoleiðis. Ég hef heyrt að það sé hræðilegt að fara yfir þessi verkefni og mér verið ráðlagt að taka frá alla vega tólf tíma til verksins. Gallinn er að ég á ekki að vinna meira en tólf tíma á viku. Reynt er að láta aðstoðarkennara vinna ekki of mikið því þá höfum við ekki almennilegan tíma fyrir ritgerðina. Ef ég ynni t.d. 40 tíma vinnuviku þá er ég þarna komin niður í 28 tíma fyrir ritgerð. Fjóra klukkutíma á dag alla daga...bíddu...það er svo sem ekkert langt frá því. Það eru takmörk fyrir því hvað maður getur setið við skriftir lengi í einu. Alla vega þarf ég alltaf að fá mér pásu reglulega. Best vinn ég þegar ég fer á kaffihús og sötra latté á meðan ég vinn. Gallinn er að ég þarf helst að drekka "megrunarlatté" (slim latté, 90 kaloríur hjá Starbucks) svo ég fitni ekki á allri kaffidrykkjunni, en það er bara ekki eins gott.

Marion er komin til baka frá Ástralíu þar sem hún var um jólin (maðurinn hennar er Ástrali) svo við fórum í gær að klifra í nýja klifursalnum. Ég hafði farið þangað og bólderað en hafði ekki klifrað í reipi ennþá. Hafði engan til að klifra með. Var komin á fremsta hlunn með að hringja í Dave sem ég kjafta reglulega við þegar ég klifra en rakst svo á hann einn daginn og þá var hann að fara norður í fylkið í ísklifur. Fór svo beint þaðan til foreldra sinna sem búa í Prince George, og var þar um jólin. Svo ég varð að bíða eftir Marion. Svo rákumst við reyndar á Dave sem sagði okkur frá ísklifur ævintýrinu. Hann og félagi hans duttu meðal annars í gegnum ís og ofan í vatn. Sem betur fer voru þeir nálægt bakkanum og félagi hans bjó þar að auki nálægt svo þeir gátu farið þangað og hitað sér. Ég ætla að halda mig við klettaklifur.

Var ég búin að segja ykkur frá því að Rosemary og Doug komu til mín í mat á sunnudaginn og á boðið var upp á hangikjöt með alles. Þetta var reyndar kanadískt hangikjöt sem er reykt einhvers staðar yfir á eyju. Það er náttúrulega ekki eins gott og okkar. Bæði af því að það er ekki reykt nógu mikið (en þó meir en það sem reykt er í Manitoba) og af því að þetta er kanadískt lamb. Ekki eins bragðgott og íslenskt lamb. En þetta var samt gott. Ég bar þetta fram með kartöflum, uppstúf (jafningi fyrir ykkur sem ekki þekkið uppstúfs nafnið), grænum baunum (því miður ekki ORA - þær fást ekki hér) og rauðkáli (heimatilbúnum - enn betra en úr dós). Það vantaði bara laufabrauðið. Ég hugsaði um það í alvöru að búa til laufabrauð fyrir jólin en guggnaði svo á því. Kannski af því að laufabrauðsgerð er eitthvað sem maður á að framkvæma í góðum félagsskap en ekki einn.

Á morgun býð ég Marion og Ryan í mat af því að þau eru nýbúin að kaupa hús í Victoriu og Ryan mun flytja þangað í næstu viku og Marion síðan í vor. Ég verð því að ná í skottið á þeim áður en ég missi Ryan yfir. Ég er ekki búin að ákveða hvað ég ætla að elda en ég ætla að hafa súkkulaði ganache í eftirrétt. Og það verður það síðasta sem ég borða af súkkulaði í langan tíma. Ekki að mig langi ekki í það, en ég borðaði of mikið um jólin og hef bætt á mig. Var búin að leggja of mikið á mig til að leyfa því að gerast.

Ætli ég hefji ekki hollustuna um helgina.

Og nú er ég farin að sofa. 


Kennslan að hefjast

Hið daglega líf hefst fyrir alvöru á morgun. Ég þarf að kenna þessa önnina og það á eftir að taka mikinn tíma frá skriftum. Ég þarf að mæta á fund í fyrramálið klukkan hálftíu þar sem aðal kennarinn og allir aðstoðarkennararnir (þetta er rúmlega 300 manna áfangi) þurfa að leggja línurnar fyrir veturinn, og svo klukkan ellefu hefst kennsla. Tímar verða á mánudögum og miðvikudögum klukkan ellefu og svo á föstudögum verður hópnum skipt upp í minni hópa og við aðstoðarkennararnir sjáum um þá tíma. Fyrir utan þessa tíma þarf ég að eyða tveimur klukkutímum á viku í viðtalstíma og öðrum klukkutíma í vikulega fundi. Þegar yfirferð verkefna kemur ofan á þetta má má sjá að þetta er heilmikill tími sem ekki verður notaður til þess að skrifa ritgerðina. Og til að gera þetta verra þá eru þessir tímar alltaf í kringum hádegi, sem er versti mögulegi tíminn því það slítur daginn í sundur. Ég er hundpirruð því ég veit að nú munu skriftirnar ganga enn hægar en áður og ég má ekki við því. En ég þarf á þessum peningum að halda. Hér er dýrt að lifa.

Á morgun byrja fótboltaæfingarnar aftur. Þetta verður langur dagur. Ég verð að koma mér í háttinn því ég er þegar komin niður í sjö og hálfan tíma svefn fyrir nóttina (þarf alla vega átta tíma svefn) og þeim mun lengur sem ég hangi á fótum þeim styttri svefn fæ ég. Gallinn er að ég er ekki til syfjuð. Ég hef ekki farið snemma í rúmið undanfarið. Alltaf nær maður að snúa sólarhringnum á undalegan hátt um jól. Þó ekki eins og í fyrra þar sem ég sofnaði aldrei fyrr en undir morgun, en það var reyndar af því að ég náði aldrei að komast út úr kanadíska tímanum.


Walk Hard – dásamleg mynd

Ég fór í bíó í dag og sá hina stórkostlegu Walk Hard: The Dewey Cox Story. Ég hló mig máttlausa aftur og aftur.

Í myndinni er rakin saga hins uppskáldaða tónlistarmanns Dewey Cox og það er augljóst að fyrirmyndin er maðurinn í svörtu fötunum, Johnny Cash – svona lengst af. Síðar fer Dewey Cox sínar eigin leiðir og meðal annars til Indlands þar sem hann lærir íhugun hjá Maharishi ásamt Bítlunum. Mér fannst það náttúrulega alveg hrikalega fyndið atriði og kannski að hluta til vegna leikaravalsins. Það voru engir smá gestaleikarar sem voru fengnir í hlutverk Bítlanna: Sjálfur Jack Black er Paul McCartney (og þær eru ekki margar myndirnar með Jack Black sem ég hef ekki haft gaman af), Paul Rudd (Mike úr Friends) er John  (sést á mynd hér á síðunni), Justin Long (Live free or die hard, Dogeball, Apple auglýsingarnar) er George og Jason Schwartzman (I heart Huckabees, Bewitched) er Ringo. Eftir að taka smá LSD fara þeir í ævintýralega ferð í stíl Yellow Submarine. Kannski þarf maður að vera Bítlaaðdáandi til þess að vera jafnhrifin en ég veit það ekki. Það má líka benda á að Jack White úr White Stripes leikur Elvis Prestley (þá er bæði Jack Black og Jack White í myndinni) og Frankie Munitz (úr Malcolm in the Middle) er Buddy Holly. 

Almennt lifir Dewey Cox hinu venjulega stjörnulífi: giftist nokkrum konum, verður háður öllum mögulegum eiturlyfjum, eignast alls konar kunningja meðal hinna frægu, reitir hljómsveitinga sína til reiði, fer ég gegnum ýmsar tónlistarstefnur... Þið verðið bara að sjá myndina.  

John C. Reilly sem leikur aðalhlutverkið er alveg dásamlegur leikari og það var löngu kominn tími til þess að hann fengi að láta ljós sitt skín af alvöru eftir að hafa þurft að sitja farþegamegin svo lengi. Hann var til dæmis alveg dásamlegur sem Cal Naughton jr. í Talladega Nights: The Ballad of Ricky Bobby, sem Al í Year of the dog (sem ég sá fyrir stuttu) og einnig sem Amos í Chicago (þar sem ég heyrði að hann getur sungið). Ég hlakka til að sjá meira frá John C. Reilly. Sérstaklega hlakka ég til að sjá myndin Ye Olde Times. Ég hef ekki hugmynd um hvað sú mynd er en í aðalhlutverkum eru John C. Reilly, Jack Black, Will Arnell (úr Arrested Development), Cary Elwes (úr The Princess Bride) og Tim Robbins. Þá er hann líka að leika í myndinni Stepbrothers ásamt Will Ferrell (önnur Apatow mynd).

Talandi um Judd Apatow. Hann framleiddi Walk Hard og skrifaði einnig handritið. Hann hefur verið framleiðandi margra af mest spennandi grínmyndum undanfarandi ára, svo sem Superbad, Knocked up, Talladega Nights, The 40 year old virgin, Anchorman (OK, ekki svo fyndin - en ég meina...Will Farrell), og svo vanmetnu sjónvarpsþættina Undeclared og Freaks and geeks

Ég sé að myndin verður frumsýnd á Íslandi fyrsta febrúar og mæli þá með að allir fari og sjái hana – alla vega þeir sem hafa haft gaman af fyrri myndum Judd Apatow. 

Hér koma að lokum nokkrar góðar setningar úr myndinni:

Dewey Cox: Maybe you don't believe in me at all
Edith: I do believe in you.......I just know you're gonna fail.

John Lennon: With meditation, there's no limit to what you can... Imagine.

Dewey Cox (syngjandi): In my dreams, you're blowing me... some kisses. 
Darlene (syngjandi): That's one of my favorite things to do.

Doctor: This was a particularly bad case of somebody being cut in half. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband