Hið skeikula minni

Það er alveg merkilegt hvað maður man í raun lítið af ævi sinni og einnig hversu skeikull minnið í raun er. Tvisvar sinnum í sumar hef ég farið með rangt mál þegar ég tala um skíðaferil minn. Ekki að ásettu ráði heldur einfaldlega vegna þess að minnið var verra en ég hélt. Í mörg ár hef ég nefnilega staðið í þeirri trú að öll mót í mínum aldursflokki hafi meira og minna farið á sömu leið fyrstu þrjú árin sem ég keppti á skíðum: Stína Hilmars í fyrsta sæti, Laufey Þorsteins í öðru sæti og ég í þriðja sæti. Óbreytt röð, öll mót, frá því ég var átta ára. Mig minnti að ég hefði fengið fyrsta silfrið svona ellefu ára og unnið fyrsta mótið tólf ára. Þetta segir minnið mitt. Jafnvel þótt til sé mynd af mér á efsta palli þar sem ég er augljóslega ekki orðin tólf ára. En einhvern veginn hunsaði ég það bara.

Stöllur á palli

En svo um daginn, þegar ég var á Akureyri hjá mömmu og pabba, fór ég eitthvað að skoða gömlu verðlaunapeningana mína. Þeir eru enn allir uppi á vegg í gamla herberginu mínu. Ég fann silfurpening frá fyrsta keppnisári mínu. Akureyrarmót átta ára stúlkna. Ég get engan veginn munað eftir þessu. Ég var sannfærð um að ég hefði aldrei náð hærra en þriðja sæti fyrr en ég var tíu eða ellefu ára. En samt vann ég þennan silfurpening. Og ég fann meira. Ég fann tvo gullpeninga í tíu ára flokki stúlkna. Stórsvig í bæði skiptin. Og þar sem ég geri ekki ráð fyrir að ég hafi gengið um og stolið peningum hinna stelpnanna hlýt ég að hafa unnið þessi mót. Og það passar líka við þessa mynd af mér á verðlaunapalli þar sem ég er svo lítil að ég er minni en stelpurnar á lægri pöllunum. (Set þessa mynd hér inn þótt ég hafi einhvern tímann áður sýnt hana.) En samt get ég ekki munað eftir þessu. Og hér er ekki einu sinni um neikvæðar minningar að ræða svo ég get ekki haldið því fram að þarna hafi ég bælt minningarnar. Ég er greinilega bara svona hrikalega gleymin. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Athyglisvert! En bíddu, á þessari mynd eru hvorki Stína Hilmars né Laufey Þorsteins, svo kannski voru þær veikar á þessu móti, þannig að minnið þitt hefur ekki flokkað þennan sigur sem raunverulegan sigur (þig hefur hungrað í að sigra Stínu og Laufeyju og taldir því þennan sigur ekki með), þannig að fyrsti sigurinn þar sem þú varst öllum fremri var við tólf ára aldur! Spurning hvort Þóra muni eftir silfrinu!!!

Annars er þessi mynd fullkomið hjálpargagn í uppeldinu á syni mínum. Hann er alltaf að vola yfir því að vera minnstur, og ég minni hann á að margur er knár þótt hann sé smár...og hvað sýnir það betur en þessi mynd!

Rut (IP-tala skráð) 29.9.2011 kl. 07:29

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Já, það er vel hugsanlegt að þær hafi verið veikar eða eitthvað. Eða dottið. Annað eins gerist á skíðum. En sé svo þá er þessi mynd ekki frá fyrsta sigri mínum því í fyrsta sinn sem ég vann þá var Stína Hilmars með og ég bara vann hana. En samkvæmt peningunum vann ég tvisvar þegar ég var tíu ára þannig að þessi mynd er sennilega af sigri númer tvö.

Æ, hefur Óskar áhyggjur af stærðinni? Það er ekki gott. Bentu honum á að Maradonna hafa alltaf verið ákaflega lítill en samt einn af bestu knattspyrnumönnum sögunnar. En svo stækkar fólk líka mishratt. Ég þekki tvo karlmenn sem eru um 190 en sem voru minnstir í bekknum sínum þegar þeir fermdust.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 29.9.2011 kl. 23:14

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þú hefur bara verið miklu betri en þig minnir.  Þarftu ekki bara að fara að vinna svolítið með sjálfstraustið?????????? (þetta er ekki illa meint)

Jóhann Elíasson, 1.10.2011 kl. 16:16

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Það gæti vel verið að þetta hafi eitthvað með sjálfstraustið að gera. Held að ástæðan sé frekar sú að ég hafi erft minnishæfileika föður míns, eða öllu heldur skortinn á slíkum hæfileikum. Hann er alveg ótrúlega óminnugur á fortíðina (mamma man allt miklu betur og það segi ég ekki í gríni) og ég er eins og hann. Var t.d. að skoða gömul myndaalbúm með myndum frá því fyrir tólf árum og þar er ótrúlega margt sem ég var búin að gleyma.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 1.10.2011 kl. 23:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband