Óþokkarnir í umferðinni

Áður en ég hafði náð í vinnuna í morgun sá ég tvo dóna og þrjá lögbrjóta, og þetta eru bara þeir sem pirruðu mig.

Lögbrjótarnir þrír voru hjólreiðamenn sem voru ekki með ljós. Þar sem enn var tiltölulega dimmt úti eru þetta auðvitað brot á umferðareglum.

Verst var hins vegar fíflið sem var að keyra á jeppanum sínum upp Ægisgötuna af bryggjunni. Hann rauk af stað um leið og græna ljósið kom á Geirsgötunni og beygði til vinstri, beint fyrir bílinn sem kom ofan götuna, og sem átti að sjálsögðu réttinn. Sá sem brotið á varð öskureiður og flautaði eins og fjandinn sem pirraði þann sem svínaði svo sá náunga steig á bremsuna og næstum stöðvaði bílinn á miðri götunni. Það var heppni að hinn lenti ekki aftan á honum. Hvað er að svona fólki? Væri ekki nær að hugsa um fleira en eigin rass og sýna bara almenna kurteisi.

Og svo fyrir utan bygginguna þar sem ég vinn var kvenmaður sem virtist lagstur til hvílu í bílnum sínum. Mér er svo sem sama hvar fólk sefur en þessi hafði lagt bílnum beint fyrir utan bakdyrnar að vinnunni og hérumbil blokkeraði aðganginn, og var þar að auki með bílinn í gangi. Skrifstofan mín er beint fyrir ofan og maður fær því eiturgufurnar inn. Ég var að hugsa um að berja á gluggana og skipa manneskjunni að annað hvort færa sig eða drepa á bílnum, en nennti ekki að standa í leiðindum svo snemma morguns.

En mikið rosalega leiðist mér svona tillitsleysi.

Annars er ég búin að fá algjörlega nóg af dónaskap og sjálfselsku í umferðinni í Reykjavík. Þegar ég róa mig mun ég kannski blogga um það. En er samt ekki slæmt að Stórreykjavíkursvæðið með um 200.000 manns skuli hafa mun lélegri umferðarmenningu en Vancouver sem hefur þrjár milljónir?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vancuver er samt eina borgin sem hefur verið flautað á mig í umferðinni :)

Nei bara svona til að koma með eitt leiðinda komment ;p

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 31.10.2011 kl. 21:34

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ertu að meina það? Einu sinni var flautað á mig (illskulega) í Reykjavík fyrir að fara ekki yfir á rauðgulu ljósi. Bílstjórinn fyrir aftan mig hafði sem sagt ætlað sér yfir á eftir mér. Hann hefði 100% farið yfir á rauðu. Og svo var hann svo óforskammaður að flauta á mig fyrir að brjóta ekki umferðareglurnar. Nei treystu mér, umferðamenningin í Vancouver er ekki fullkomin en þó miklum mun betri en hér.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 31.10.2011 kl. 21:56

3 identicon

Það er engin umferðarmenning í Reykjavík, því miður. Manni bregður þegar annar bílstjóri gefur sjens eða tekur tillit til stefnumerkis.

Björg (IP-tala skráð) 1.11.2011 kl. 10:50

4 identicon

Það er engin menning á neinu sviði á Íslandi. Íslendingar eru illa uppaldir dónar, úrkynjað bölvað pakk sem ætti að útrýma.

Ellilífeyrisþegi (IP-tala skráð) 1.11.2011 kl. 16:53

5 identicon

Já einmitt - eða nei annars. Hér hjóla ég og ek út um allar koppagrundir og fíla mig og aðra bara vel. Viðurkenni þó að mér leiðist fólk sem talar í símann undir stýri...

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 1.11.2011 kl. 22:10

6 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Stór Reykjavíkursvæðið er langversta umferðarsvæði heimsins. Ég vil ekki gera menningu þá skömm að blanda henni í umferðarmálin. Hef bæði ferðast og búið víða um heim, en ekkert jafnast á við þetta.

Bergljót Gunnarsdóttir, 2.11.2011 kl. 03:08

7 identicon

Ó Stína, komdu nú og hjólaðu svolítið hjá mér á Ítalíu, þá fer þér að þykja vænt um umferðamenninguna heima. Hér eru bæði ökumenn og hjólreiðamenn núllstilltir hvað menningu í umferðinni varðar. Það er næstum jafn líklegt að það komi heill her af hjólreiðamönnum (í glæsilegum múnderingum) á móti þér á einstefnugötu (og láti eins og þeir eigi götuna og að bílar sem þeir mæti séu hreinlega fyrir), og að bílar eða mótorhjól svíni fyrir hjólreiðamenn. þegar menn tala um frumskógarlögmál í umferðinni eiga þeir örugglega við ítalíu!

Rut (IP-tala skráð) 2.11.2011 kl. 14:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband