Til samanburðar

Þegar ég flutti fyrst til Reykjavíkur frá Akureyri var ég alveg sjokkeruð yfir því hversu mikið rignir í höfuðborginni. Eftir nokkra daga hringdi ég í mömmu og bað hana að senda mér gúmmískóna mína, sem ég hafði ekki notað síðan ég var fjórtán ára (þá gengum við Sigga vinkona um í hvítum ullarsokkum og gúmmískóm og fannst við hrikalega töff).

Nú í mars var úrkoma í Reykjavík sem sagt 129 mm í samanburði við 58mm á Akureyri. Það er ekki alveg eðlilegur samanburður þar sem úrkoma í Reykjavík var 57% yfir meðallagi en á Akureyri aðeins 35% yfir meðallagi.  En samt, staðreyndin er sú að það rignir mun meira fyrir sunnan.

Það er hins vegar skemmtilegt að bera þetta saman við það rigningarhelvíti sem ég er í núna. Á Akureyri rigndi sem sagt 58mm í mánuðinum. Hér á Vancouver svæðinu rigndi 50,6 mm á EINUM DEGI. Það er reyndar næstmesti rigningardagur (í mars) frá upphafi en sýnir samt muninn. Við það má bæta að það rigndi vel flesta daga mánaðarins svo ég hugsa að rigningin hér hafi verið margföld Reykjavíkurrigning. Ég virðist sem sagt alltaf flytja í blautara umhverfi í hvert sinn sem ég flyt. (Sem er reyndar ekki alveg rétt því ég flutti frá Reykjavík til Winnipeg og þar rignir ekki mikið.)

Hins vegar virðist ég alltaf flytja til stærri borgar í hvert sinn sem ég flyt á milli staða. Hvað verður næs? New York?

Að lokum vil ég vekja athygli fólks á þáttunum 'Planet Earth' sem nú eru sýndir á Discovery Channel. Ef íslensku stöðvarnar hafa ekki hugsað sér að sýna þessa þætti þá hvet ég þær til að endurskoða þá ákvörðun. Það sem ég hef séð er alveg ótrúlegt. Kíkið hér á nokkur myndskeið: http://dsc.discovery.com/beyond/?clik=www_nav_beyond 

Smellið á hlekkinn 'Planet Earth' og þar getið þið skoðað brot úr þáttunum. Vel þessi virði.  


mbl.is Rigning í mars í Reykjavík 57% yfir meðallagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

RÚV sýnir Planet Earth hérna við mikla hrifningu fólks!

Guðríður Haraldsdóttir, 2.4.2007 kl. 20:39

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Frábært. RÚV stendur sig nú alltaf vel í svona þáttum. Gott hjá þeim.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 2.4.2007 kl. 22:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband