Lítið gerst en þokkaleg dagskrá framundan

Ég hef bloggað skammarlega lítið þessa vikuna. Yfirleitt hef ég eitthvað að segja á hverjum degi en einhvern veginn hef ég bara verið svona andlaus undanfarið.

Dagurinn í dag er fremur skipulagður, ef frá er talinn morguninn sem hefur farið í langan morgunverð, svolitla tiltekt (frekari tiltektar er krafist), spjall við mömmu og pabba, heitt og gott bað... (hehe, ég skrifaði hott og gott - orðin soddan Vestur-Íslendingur). En svo tekur alvaran við. Klukkan hálftvö fer ég á fund með umsjónarkennaranum mínum. Það góða er að við ætlum að hittast á Starbucks og hún hefur lofað að kaupa handa mér graskerslatté sem alltaf er selt fyrir jólin. Ég vona að þetta verði góður fundur og að ég nái að vinna í gegnum vandamál sem ég er að reyna að leysa í ritgerðinni.

Þar á eftir ætla ég að fara og hlusta á fyrirlestur hjá David Pesetsky sem er þekktur málfræðingur. Ég man eftir að hafa hitt hann á ráðstefnu fyrir mörgum árum þegar ég var í MA námi heima á Íslandi. Man þó ekki hvort það var á GLOW í Svíþjóð 1993 eða á einhverri ráðstefnunni í Boston 1994.

Að loknum fyrirlestrinum ætla ég að sleppa því að fara á pöbb með hinum og rjúka fremur heim og horfa á Canucks spila á móti St. Louis. Þeir náðu topp riðilsins í fyrradag með sigri á Minnisota en misstu hann aftur í gær þegar Colarado vann Edmonton. Ef þeir vinna í kvöld komast þeir aftur á toppinn. St. Louis hefur verið á skriði undanfarið og unnið flesta sína leiki síðustu vikurnar en það á við Canucks líka. Af síðustu níu leikjum hafa þeir unnið sjö og tapað tveim í vítakeppni.

Um leið og leikurinn er búinn ætla ég til Halls og Andreu sem ætla að halda Sigurrósar partý í kvöld. Þau eru nýbúin að fá nýja diskinn 'Heima' og það á sem sagt að vera sýningarpartý á disknum. Ég mun reyndar missa af sýningunni þar sem ég ætla að horfa á leikinn, en ég fæ hann bara einhvern tímann lánaðan hjá þeim. En ég ætla samt að mæta síðar því ég efast um að liðið fari heim að sýningu lokinni. Það er orðið langt síðan síðasti Íslendingahittingur var þannig að ég mun hafa gott að því að tala íslenskuna.

Á morgun fer ég svo í skautatíma númer 3. Ég er nokkurn veginn búin að læra að stoppa og er orðin betri í að skauta afturábak. Á morgun eigum við að læra svokallað 'stepover'. Ég hef ekki hugmynd um hvað það kallast á íslensku....yfirstig?

Á sunnudaginn spilum við í fótboltanum á móti Wildcats sem hafa unnið alla sína leiki undanfarið. Þær voru ekki svo góðar þegar við spiluðum við þær í haust þannig að ég hef trú á að þær hafi bætt við leikmanni - einhverri góðri. Við munum þurfa að spila mun betur en um síðustu helgi ef við eigum að eiga séns.

Á mánudaginn er planið að keyra niður til Blaine, Washington, borða mexíkanskan mat (sem er alltaf betri í USA en í Kanada - og ég neita að kalla þetta mexíkóskan mat - hef aldrei samþykkt röksemdafærslu Árna Bö um það af hverju við ættum að segja það) og keyra svo til baka svo ég geti orðið fullgildur meðlimur í kanadísku samfélagi. Vona að ekkert komi uppá. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Dííí hvað þú ert mikið hokkínörd. Að sleppa ferð á pöbbinn eða videoglápi með Íslendingum fyrir hokkíleik í TV... þori varla að segja þér þetta en ég fer nú bara stundum að lúlla áður en leikir í TV klárast.
Til lukku með permantentinn og vonandi gengur vel að komast klakklaust inn í Kanada aftur.

AuðurA (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 20:16

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Já, ég er hokkínörd en ég held að tvennt annað hafi áhrif: 1. Ég drekk ekki bjór og hef því takmarkað notagildi af pöbbaferðum. 2. Myndin sem Íslendingar ætla að horfa á er á DVD og ég get því alltaf horft á hann. Leikurinn aftur á móti er bara í beinni akkúrat á þessum tíma. Ég gæti reynt að taka hann upp og horfa seinna en þegar ég hef reynt það hef ég alltaf heyrt hvernig leikurinn fór áður en ég náði að horfa og þá er ekkert gaman af því. Annars þori ég varla að segja þér að það verður líka málvísindapartý sama kvöld sem ég ætla að sleppa.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 23.11.2007 kl. 20:22

3 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Verður þetta nokkuð decaf soja latté?

Bið að heilsa Halli og Andreu og stelpunum þeirra

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 23.11.2007 kl. 20:23

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Nei, þarna verður pottþétt kaffi og ekkert soja. Hugsanlegta þó undanrenna í stað mjólkur. Skila kveðju til Halls og gengis.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 23.11.2007 kl. 20:59

5 identicon

Step over er væntanlega víxlgangur á íslensku. Afar hentugt að kunna vilji maður fara í hring og/eða beygja snöggt. Mest gaman þegar maður er farinn að geta farið víxlganginn afturábak...

Gangi þér vel á skautunum

Fyrrverandi skautamær...

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 22:40

6 identicon

hm hef aldrei prófað víxlganginn aftur á bak ... þá hef ég markmið ;)

en Stína! HEIMA er beztastastasta mynd EVER .... úff hún er svo góð að ég bara er ekki meika að skrifa þetta og hvað þá að lesa að þú hafir tekið hokkíleik fram yfir myndina ;p EN ok ok þú færð hana fljótlega lánaða ... oh hún er ÆÐI hmm versla hana kannski bara í fríhöfninni ef hún er komin þangað :D  er sko á leið til Köben ;)

Hrabba (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 21:54

7 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk Auður. Hrabba, leiki í beinni útsendingu þarf maður að horfa á þegar þeir eru sýndir, dvd diska getur maður horft á hvenær sem er. Annars kom í ljós að ég fór dagavillt. Íslendingapartýið er í kvöld og þau ætla að bíða með að hefja sýninguna þar til ég kemur af skautunum.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 24.11.2007 kl. 22:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband