Um tónlist, hokkí og lærdóm

Í síðustu viku héldu Muse tónleika í Coliseum skautahöllinni hér í Vancouver. Ódýrustu miðar  voru rúmlega 60 dollarar sem eru tæplega áttaþúsund krónur.  Ég fór ekki að þessu sinni þótt mig hafi langað en þar sem ég er aftur orðin nemandi með enga peninga verð ég að passa aurana. Ástæða þess að ég minnist á þetta er aðallega sú að þessir tónleikar sýndu svo vel hvernig tímarnir hafa breyst. Muse hafa tvisvar áður komið til Vancouver síðan ég flutti hingað. Í bæði skiptin léku þeir á stað sem líkist meira stærri útgáfu af Sjallanum. Miðaverð var að minnsta kosti  helmingi lægra en það var nú og maður gat staðið alveg upp við sviðið  án þess að nokkrir verðir pössuðu upp á að fólk reyndi að komast að tónlistarmönnunum. Þá voru þeir orðnir geysilega frægir í Evrópu og spiluðu á fótboltavöllum, en hér í N-Ameríku voru þeir enn tiltölulega óþekktir. Ég naut góðs af því. En nú hafa N-Ameríkanar loksins skilið hversu miklir snillingar eru þarna á ferð og þeir geta loksins spilað í höllum.

Eagles munu spila hérna í vor og ég er að velta því fyrir mér að athuga hvort ég geti nælt mér í miða. En eins og ég sagði áður, verð aðeins að horfa í aurinn þannig að það er hugsanlegt að ég láti þetta tækifæri mér úr greipum ganga. Það er alltaf hægt að fara á tónleika hér og ef ég færi á  alla þá tónleika sem mig langar á þá væri ég gjaldþrota, jafnvel þótt ég hefði vinnu.

---

Að öðru. Liðið mitt í hokkí tryggði sér í fyrradag rétt til þess að spila í úrslitakeppninni og við erum aðeins einu stigi frá því að tryggja okkur Norðvestur titilinn. Það tryggir heimaréttinn sem er mjög mikilvægur ef leika þarf sjö leiki til að fá úrslit. Reyndar lítur út eins og er að við munum spila í fyrstu umferð gegn Detroit Redwings, sem eftir hæga byrjun hafa verið á siglingu undanfarið, þótt reyndar hafi þeir tapað gegn Nashville í gær. En það eru fjórar umferðir eftir svo margt getur breyst og annað lið gæti endað í sjötta sætinu, sætinu sem við munum að öllum líkindum leika gegn.  Ég ætla að vona að við komumst alla vega í aðra umferð og helst alla leið. Gallinn við Vancouver er að svo margir hafa verið meiddir, þar á meðal okkar besti varnarmaður, að enginn veit hvaða lið mun mæta á svæðið þegar pökkurinn fellur. Á góðum degi getum við unnið besta lið, en stundum er eins og allt hrynji og við töpum fyrir verstu liðum deildarinnar.

Fótboltinn fer líka að byrja hjá liði Teits Þórðarsonar, Vancouver Whitecaps. Einn vinur minn fékk nýlega vinnu sem blaðamannafulltrúi liðsins svo það er hugsanlegt að ég fari á fleiri leiki en ég hef á undanförnum árum, sérstaklega ef ég fæ góðan díl.

---

Ég er líka byrjuð að skrifa. Vann vel á fimmtudag og föstudag en tók svo frí að mestu frá skriftum í gær. Í dag ætla ég að reyna að gera eitthvað en hversu mikið það verður fer svolítið eftir því hver plön mín verða seinni partinn. Það er svolítið óljóst ennþá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Plön á páskadegi og ritgerðarskriftir? Er það nú ekki einum of mikið af því góða?Myndi frekar spreða $ 80 á muse frekar en Eagles þér að segja,, hvernig litist þér á ef þú færir nú með "eðalmenni" eins og mér á "Ernina" en upplifðir að ég myndi sofna á miðjum tónleikum?

Svo er það þetta með íshokkí og Nashville, hljómar einvhern vegin svona ofurraunsæislegt fyrir íslenskan kjána út í Ballarhafi! Spila þeir nokkuð með hatta og hafa Brooks & Dunn sem númer til að hita upp?!

Gleðilega páska, fröken KM!

Magnús Geir Guðmundsson, 4.4.2010 kl. 21:12

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Muse spiluðu nú hér í síðustu viku svo það er ekkert val. Þar að auki var ég búin að sjá þá tvisvar áður en hef aldrei séð Eagles. HItt er annað mál að ég er að hugsa um að eyða peningunum mínum frekar í eitthvað sem tengist íþróttum. Betra fyrir heilsuna og yfirleitt skemmtilegra.

Það er nú fleira í Nashville en tónlist þótt þeir séu kannski þekktastir fyrir kántríið sitt.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.4.2010 kl. 21:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband