Dómaraasni

Á fimmtudagskvöldið varð ég vitni að verstu dómgæslu í knattspyrnu sem ég hef nokkru sinnum séð. Um leið og ég sá dómarann hafði ég áhyggjur því ég vissi að hann hafði dæmt hjá okkur áður og ég hafði þessa óljósu minningu um að hann hefði verið mjög slæmur. Ekki batnaði það þegar dómarinn fór að hita upp markvörð hins liðsins með því að skjóta á hana. Okkur þótti það mjög undarlegt svo vægt sé til orða tekið.

Við byrjuðum leikinn af miklu krafti, sóttum stanslaust og uppskárum mark eftir tæpar tíu mínútur. Eftir það var dómarinn með flautuna í kjaftinum og flautaði á allt, ég endurtek ALLT. Við máttum ekki snerta hinar stelpurnar svo hann flautaði ekki. Og hann útskýrði aldrei hvað var að. Stoppaði bara leikinn, gaf hinum boltann og við vissum ekki neitt. Hann flautaði aldrei á þær, sama hvað þær gerðu. Hann sleppti til dæmis að flauta þegar Benitu var hent til hliðar innan vítateigs en flautaði svo á Sonyu þegar nuddaðist aðeins utan í eina stelpuna. Ekki nóg með það, hann hljóp gargandi vitlaus til hennar og sagði að hún fengi ekki spjald núna en hún skildi passa sig. Síðan hélt hann ræðu yfir okkar liði og sagði að við værum allt of grófar og þetta gengi ekki. Við erum ekki grófar, höfum aldrei verið. Höfum fengið eitt gult spjald á fjórum árum og það gerðist áður en ég gekk til liðs við Presto - sem sagt, í einum af fyrstu fjóru leikjum liðsins. Stelpan sem Sonya á að hafa brotið svona gróflega á kom til mín og sagði að Sonya hefði varla snert sig. Þetta hélt svona áfram, við máttum ekkert gera án þess að flautað væri. Einu sinn datt ein stelpan hjá okkur og þegar hún stóð upp flautaði hann aukaspyrnu á hana. Enginn viss hvað hún átti að hafa gert. Hann útskýrði aldrei neitt. Stelpurnar í hinu liðinu sáu þetta jafnvel og við og voru farnar að yppta öxlum þegar við litum á þær. Það versta var að liðið  mitt hrundi við þetta mótlæti og hinar skoruðu þrisvar. Enda þorðu varnarmenn okkar ekki í þær því dómarinn var farinn að öskra á þær að hann myndi reka þær útaf. Þetta var hræðilegt. Hann dæmdi til dæmis hendi á stelpu hjá okkur sem hélt hendinni yfir brjóstunum, en ekki á stelpu hjá þeim sem tók boltann með hendi yfir höfðinu á sér. Augljóst öllum á svæðinu. Hann dæmdi einu sinni á mig þegar ég reyndi að ná boltanum innan vítateigs hins liðsins og ég og varnarstelpa skullum saman. Ég varð alveg vaðvitlaus enda hef ég rekist á við aðrar stelpur í fótbolta í mörg ár og aldrei nokkurn tímann hefur verið dæmt á það. Enda er útilokað að stoppa þegar tvær manneskjur fara á eftir sama boltanum. ég spurði hvernig í ósköpunum hann héldi að ég hefði getað stoppað og hvað sagði asninn: Þú átt ekki að fara á eftir boltanum ef þú getur ekki stoppað. 

Í hálfleik töluðum við um að kvarta til deilarinnar, dómarinn sem stóð  nærri virðist hafa heyrt þetta því hann slakaði á í seinni hálfleik. en hann hélt áfram að flauta á alls konar fáránlega hluti. Eini munurinn var að hann flautaði nú stundum á hinar stelpurnar. þessi asni eyðilagði leikinn algjörlega. Við vorum mun betri allan tímann en töpuðum leiknum af því að við létum hann hafa áhrif á okkur.

Það var mjög athyglisvert að dómarinn talaði með sama framburði og þjálfari hins liðsins! Tilviljun? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst svo frábært að komast að því hérna að þú sért knattspyrnukona ... ég er svo mikill aðdáandi íþróttarinnar.

Leiðinlegt að heyra með þennan dómara - ef þú veist hvar hann á heima eða netaddressuna hans, þá skal ég glaður bombarda hann með skrítnum skilaboðum, ok?

hafðu það gott, bestu kveðjur frá Akureyri á kosninga- og ESC-degi! 

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 12.5.2007 kl. 17:48

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ég elska fótbolta. Að spila hann og að horfa á hann. Ég ólst upp við það að fara á Þórsleiki með pabba og ég spilaði meira að segja einn leik með Þór í meistaradeild kvenna áður en ég meiddist illa á ökla á æfingu og varð að hætta. Fór að spila aftur fótbolta með strákunum til gamans í Manitoba og gekk svo í kvennalið hér í Vancouver þegar ég flutti að Kyrrahafinu. Ofsalega skemmtilegt og góð hreyfing.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 12.5.2007 kl. 20:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband