Á fótboltaleik

Ég hef skrifað töluvert um hokkí það sem af er vetri en hér kemur fyrsta og eina fótboltafærslan mín. Þ.e. ég ætla að skrifa um kanadískan fótbolta en ekki um knattspyrnu. Kanadíski fótboltinn er nokkuð svipaður ameríska fótboltanum en er þó ekki sami leikurinn. Leikið er á 110 yard (100,6m) velli og fær hvort lið þrjú tækifæri til þess að færa leikinn fram um 10 yards. Það þýðir að ef þetta tekst ekki í fyrstu tveim tilraununum þá er boltanum vanalega sparkað í þriðju tilraun. Hér má sjá meira um kanadískan fótbolta: http://en.wikipedia.org/wiki/Canadian_football

Í Kanada er leikið í tveim riðlum, austur og vesturriðli. Þrjú efstu liðin í hvorum riðli leika til úrslita um Gráa bikarinn (the Gray Cup). Liðið sem er efst í hvorum riðli fær að hvíla í fyrstu umferð á meðan liðin í öðru og þriðja sæti leika um sæti í undanúrslitunum. Að þessu sinnu léku Winnipeg Blue Bombers og Toronto Argonauts til úrslita í austurriðlinum og BC Lions og Saskatchewan Roughriders í vesturriðlinum. Ég horfði á fyrri leikinn í sjónvarpinu í dag og hélt að sjálfsögðu með Blue Bombers. Ég bjó í Winnipeg í fjögur ár og mun alltaf halda með þeim, enda eiga þeir ekki hokkílið í efstu deild og fá því sitt helsta kikk út úr fótboltanum. Þar að auki er það nokkurs konar hefð í Kanada að halda alltaf með þeim liðum sem leika gegn Toronto. Toronto er alltaf hampað meir en öðrum kanadískum liðum í fjölmiðlum, sama hvort þeir geta rassgat eða ekki. Toronto var svo öruggt um að vinna að þessu sinni að búið var að skipuleggja eina allsherjar partýviku fram að úrslitakeppninni um næstu helgi. Meira að segja var búið að bjóða tónlistarmönnum að koma og skemma í þessu sigurpartýi. En Blue Bombers höfðu önnur plön. Þeir spiluðu hreinlega miklu betur og unnu leikinn 19-9. Það var mikið fagnað í BC Place höllinni, heimavelli BC Lions, þegar þetta var tilkynnt.

Og þar var ég, meðal tæplega 50.000 áhorfenda og ég get sagt ykkur að stemmningin var engu lík. Hávaðinn var enn meiri en á fótboltaleik í ensku deildinni. Vancouverbúar voru mættir í appelsínugulum klæðnaði (ég fór í mína appelsínugulu Cintamati flíspeysu til að passa inn (og var í Vancouver Canucks bol undir) og byrjuðu að fagna löngu áður en leikurinn hófst. Þegar leiktími nálgaðist komu herklæddir menn fram á völlinn með risastóran kanadískan fána sem breytt var úr yfir völlinn. Þar á eftir komu klappstýrurnar hlaupandi inn á völlinn og stuttu síðar hópur krakka í appelsínugulum fötum. Þau röðuðu sér upp í tvær raðir og lið Saskatchewan varð síðan að hlaupa inn á völlinn á milli þeirra. Í nálægu horni var stórt uppblásið ljónshöfuð og fyrir framan það þyrlaðist upp reykur og síðan komu tveir eldar upp úr jörðinni. Þetta var sem sagt spúandi ljónshöfuð og út úr gini þessu hlupu leikmenn BC Lions. Þetta var flottasta innkoma íþróttaliðs sem ég hef nokkurn tímann séð. Og öll umgjörðin var geysilega flott.  

Ég verð hins vegar að segja að ég skil ekki tilgang klappstýranna. Þær gera ekkert til þess að auka á stemmninguna. Það eru ekki þær sem stýra klappinu. Það eina sem þær gera er að koma fram fáklæddar í háhæluðum stígvélum og gera hundleiðinlegar hreyfingar með kynþokkafullum rasshreyfingum inn á milli. Er ekki leikurinn nógu skemmtilegur til að draga karlana að? Þurfa þeir líka hálfnaktar konur til þess að finnast það þess virði að mæta á svæðið? Af hverju eiga karlarnir að geta horf á hálfnaktar konur á meðan við stelpurnar þurfum að horfa á karlana fullklædda?

Og svo hófst leikurinn og það var ljóst strax í upphafi að Saskatchewan langaði ógurlega mikið í úrslitaleikinn. Þeir börðust einfaldlega miklu harðar og náðu boltanum af BC trekk í trekk. Þeir skoruðu sitt fyrsta snertimark tiltölulega fljótt (touchdown), fengu aukastigið líka og stuttu síðar fengu þeir líka field goal. BC stóð sig geysilega illa fyrsta fjórðunginn. Þeir misstu boltann klaufalega í nokkur skipti og almennt fannst mér quarterbackinn þeirra spila illa. Það var reyndar kannski ekki allt honum að kenna. Varnarmennirnir eiga að sjálfsögðu að vernda hann svo hann nái að senda boltann á lausan mann, en trekk í trekk var hann tæklaður á meðan hann hélt enn á boltanum. BC skánaði aðeins í öðrum fjórðungi og náðu að jafna, 10-10 en stuttu síðar fékk Saskatchewan annað field goal og staðan í hálfleik var 13-10 fyrir Saskatchewan. Það gekk ekki betur hjá BC í síðari hálfleik og Saskatchewan hreinlega rúllaði þeim upp. Staðan í lokin var 26-17 fyrir Saskatchewan og það verða því tvö lið frá sléttunum, Winnipeg og Saskatchwean sem leika um Gráa bikarinn. Winnipeg hefur ekki unnið bikarinn síðan 1990 og Saskatchewan ekki síðan 1989 þannig að þetta verður langþráður sigur, hvort liðið sem vinnur.

Ég var ekkert sérlega döpur þótt við hefðum tapað. Kanadíski fótboltinn (né sá ameríski) hefur aldrei verið mín íþrótt og úrslitin skiptu mig því ekkert sérlega miklu máli, þótt ég hafi haft rosalega gaman af því að fara á leikinn. Eiginlega var ég miklu ánægðari með sigur Winnipeg en ég hefði orðið ef BC hefði unnið. Það eina sem virkilega skyggði á var að undir lok leiks Winnipeg og Toronto teygði Kevin Glenn, quarterback Winnipeg, sig í lausan bolta og fékk eitt stykki Torontoleikmann ofan á handlegginn. Við það brotnaði handleggurinn og Glenn mun því ekki geta leikið úrslitaleikinn gegn Saskatchewan. Það munar um minna því staða quarterback er líklega mikilvægasta staðan í leiknum. Þetta er leikstjórnandi, sá sem mest veltur á. Í staðinn verður ungur og óreyndur strákur að taka að sér þetta stóra hlutverk. Þetta gæti því reynst Winnipeg dýrkeypt. En ég mun að sjálfsögðu halda með mínum gamla heimabæ og ef ég væri ekki að spila fótbolta á sama tíma hefði ég klæðst bláu og sest fyrir framan sjónvarpið á sunnudaginn næstkomandi. 

Það var annars ótrúlegt að nokkur skyldi hafa reynt að keyra bíl niðri í bæ um fimm leytið. Fótboltaleikurinn var búinn um korteri í fimm og fimmtán mínútum síðar hófst hokkíleikurinn, hinum megin við götuna. Það voru því líklega um 70.000 manns úti á götu um þetta leyti, ýmist að reyna að komast heim eða inn í GM Place. 

Aðrir íþróttaviðburðir helgarinnar fóru þannig: Á föstudagskvöldið vann Vancouver Minnesota 6-2 í hokkíinu, á laugardaginn tapaði liðið mitt, Vancouver Presto, fyrir lélegu liði Vancouver Geckos (við vorum bara enn lélegri) 3-2 í knattspyrnu og núna í kvöld unnu Vancouver Canucks lið Calgary Flames 4-1 í hokkí. Þeir virðast því loksins komnir í gang og hafa nú unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum. Þá hafa þeir unnið átta leiki gegn liðum í eigin riðli og aðeins tapað einum leik í vítaspyrnukeppni. Þeir hafa því verið að skríða nær og nær efri hlutanum og allt lítur bjartara út nú en það gerði fyrir nokkrum vikum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þröstur Unnar

Skraut á tertuna?

Þröstur Unnar, 19.11.2007 kl. 08:49

2 Smámynd: Pétur Björgvin

Góður punktur þessi með klappstýrurnar, það hlýtur að fara að koma að því að einhver breyting verði á skildi maður ætla, amk að einstaklingar af báðum kynjum taki þátt í klappstjórninni. En auðvitað eins og einhver sagði ,,það sem aldrei hefur komið fyrir áður getur alltaf komið fyrir aftur."

Pétur Björgvin, 19.11.2007 kl. 13:06

3 identicon

hmm klappstýrur eru ekki til lengur orðið "cheerleader" má ekki nota lengur heldur eru þetta danslið aka dance team!!!

Hrabba (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 20:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband