Á skíðum í Blackcomb

Ég skellti mér á skíði í gær og er þetta líklega síðasta skíðaferð mín á vertíðinni. Enda eru búið að loka stórum hluta skíðasvæðisins. Whistler fjall var alveg lokað og allt komið á fullt í framkvæmdum, og hluti Blackcomb fjalls var líka lokaður - allur neðri hluti fjallsins og stór hluti framhliðarinnar. 7th heaven stólalyftan var opin, svo og Glacier Express og Jersey Cream, og ein t-lyfta. Það var allt og sumt.

Snjórinn var almennt fremur góður en reglulega skall á með þoku á tindunum og þá var erfitt að sjá hvernig snjórinn lá. En þegar sólin skein var þetta yndislegt. Ég náði mér meira að segja í smá brunku.

Það leit reyndar ekki vel út með ferðina niður. Búið var að loka neðsta hluta fjallsins sem þýddi að maður varð að taka gondólann niður. Nema hvað, þegar ég kem niður að efsta hluta gondólans er hann ekki í gangi og biðröðin eru ógurlega löng. Ég sá fram á að ég myndi ekki ná hálffimm rútunni til Vancouver og sú sem næst kemur á eftir er ekki fyrr en hálf sjö sem þýddi að ég yrði ekki komin heim til mín fyrr en laust fyrir tíu um kvöldið. Ég spjallaði aðeins við mann sem þarna stóð álengdar og hann sagði mér að það væri í raun hægt að renna sér niður þótt leiðin væri lokuð. Maður þyrfti hins vegar hugsanlega að taka af sér skíðin og labba yfir vegina sem búið var að ryðja út um allt fjall. Ég spurði líka starfsmann sem staðfesti þetta en sagðist ekki geta ráðlagt mér að skíða niður fyrst hún væri í vinnunni. Ég las út úr þessu að hún mætti ekki gefa mér leyfi til að renna mér niður en það væri vel hægt. Svo ég elti hina sem fóru undir girðinguna og renndi mér niðreftir. Það tók ekki nema um tíu mínútur og ég var fegin að vera á skíðum en ekki snjóbretti því á sumum stöðum var snjórinn orðinn svo blautur að maður varð að ýta sér vel til að komast yfir. Ekkert mál var að fara yfir vegina tvo sem skáru fjallið því búið var að hlaða snjó yfir á mikilvægum stöðum og ég renndi mér alla leið niður í þorp án teljandi vandræða. Gat því tekið mér tímann við að ná í skóna mína og skíðapokann í geymslu og gat meira að segja kíkt við í búð og fengið mér kaffi. Var ákaflega fegin að standa ekki í biðröð upp í miðju fjalli.

Ég set inn nokkrar myndir frá deginum. Þið getið séð hversu fallegt er hér og hversu mikill snjórinn er enn í fjöllunum. 

 Enjoying the view  The alpine

When the sun starts shining  Again and now in colour

Glacier Express  The walkway

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Síðbúnar sumarkveðjur og takk fyrir bloggskrif og lestur í vetur.  

Þetta eru flottar myndir Kristín en voðalega er mikill dumbungur að sjá.  Er alltaf skýjað? 

Marinó Már Marinósson, 27.4.2008 kl. 12:09

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Sumarkveðjur til þín líka Marinó minn. Já, hér er mikið skýjað. Ég á nokkra vini frá Winnipeg sem búa nú hér í Vancouver og þau eru beinlínis þunglynd oft á veturnar því það er svo dimmt yfir alltaf. Í Winnipeg er alltaf sól - vetur og sumar. Andskotanum kaldara en sól. Hér rignir stóran hluta vetrar og oft á vorin og haustin. Sumrin eru sem betur fer nokkuð þurr.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 27.4.2008 kl. 17:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband