Hinn vestur-íslenski Bond

Sagan um William Stephenson er mjög athyglisverð og ekki mjög þekkt á Íslandi.

Hann var fæddur 1897 í Winnipeg og skírður William Samuel Clouston Stanger. Móðir hans var íslensk en faðir hans frá Orkneyjum. Hann var ungur þegar faðir hans dó og móðir hans var of fátæk til þess að sjá um hann svo fjarskyldir ættingjar stigu fram og tóku drenginn að sér. Þetta var Stephenson fólkið en þau voru innflytjendur frá Íslandi. William tók upp nafn fósturfjölskyldu sinnar.

Hann vann ungur við að senda símskeyti því hann átti síðar eftir að finna upp aðferð til þess senda myndir með símskeytum. Árið 1916 gekk hann í herinn og hélt til Englands þar sem hann flaug orrustuvélum þar til vél hans var skotin niður yfir Þýskalandi og hann tekinn til fanga. Honum var sleppt í desember 1918. Í Þýskalandi komst hann yfir dósaupptakara og þegar stríðinu var lokið hélt hann til baka til Winnipeg, fékk einkaleyfi á upptakaranum og skellti sér út í viðskipti. Það gekk ekki nógu vel svo hann fór aftur til Englands og á skipinu hitti hann ameríska dóttur tóbaksframleiðanda, forríks, giftist henni og kom sér út í viðskipti á Englandi.

Hann fór snemma að veita Bretum leynilegar upplýsingar um ýmislegt sem var að gerast í Þýskalandi og var meðal þeirra sem snemma óttuðust uppbyggingu Adolfs Hitlers.

Þegar síðari heimstyrjöldin hófst var William sendur til Bandaríkjanna til þess að stýra bresku leyniþjónustunni þar í borg, British Security Coordination, sem síðar varð að regnhlífasamtökum yfir bresku leyniþjónustunum MI5, MI6, SIS, SOE og PWE. Meðal hlutverka Williams var að rannsaka óvinaverk, styrkja öryggisgæslu yfir breskum eignum og að koma bandarískum almenningi á band með enskum. Þegar Bandaríkin urðu þátttakendur að stríðinu bættist á verkefnalista Williams að tryggja hagsmuni Bandaríkjanna í samvinnu við Breta. 

William varð fljótt sérlegur ráðgjafi Franklin D. Roosevelt og lagði meðal annars til að góðvinur Williams, William J. Donovon yrði gerður yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar, Office of Stretegic Services, sem síðar breyttist í Central Intelligence Agency eða CIA. 

William fékk engin laun og hann réð til sín fjölda starfsmanna, aðallega kanadískar konur, og borgaði þeim laun úr eigin vasa. Meðal starfsmanna hans var Benjamin deForest Bayly sem hannaði Rockex, hratt samskiptakerfi sem bandamenn notuðu á stríðstímum. Þetta kerfi var meðal annars notað til að senda skilaboð um staðsetningu þýskra kafbáta og var eitt af því sem gerði sjóferðir bandamanna auðveldari.

Hans helsta afrek er kannski það að hann kom á fót hinum svokallaða Camp X sem var nokkurs konar njósnaraskóli. Þangað fór meðal annars Ian Fleming, höfundur James Bond bókanna og sagan segir að árásin á Fort Knox í myndinni Goldfinger, hafi verið byggð á plönum Williams Stepehnson um að stela $2,883,000,000 úr Vinchy French gullgeymslunni á frönsku eyjunni Martinique í Karabíahafinu. Sú árás var hins vegar aldrei gerð. Því er reyndar haldið fram að William sé einmitt fyrirmynd Flemings að James Bond. 

Sagan segir að leyninaf Williams hafi verið 'intrepit' en aðrar sögur segja að það hafi verið kallorð bresku leyniþjónustunnar í New York. 

Við þetta má bæta að eftir að William fór að vinna sem njósnari skar hann á öll bönd við fjölskyldu sína í Winnipeg. 

 


mbl.is Njósnarinn fær götu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Fróðleg færsla, ertu í Winnipeg? Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 11.9.2009 kl. 22:05

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Ég las svarið í höfundarlýsingu. Tók BA próf frá Manitoba háskóla á sínum tíma. Á frændfólk þarna í Vancouver.

Gunnlaugur B Ólafsson, 11.9.2009 kl. 22:09

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þakka fyrir þessa skemmtilega skrifuðu og fróðlegu grein.

kv,

Svanur Gísli Þorkelsson, 11.9.2009 kl. 23:29

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vilji fólk fá skemmtilega útgáfu af þessari sögu, þá er að heimsækja Inga Hans í Sögumiðstöðinni á Grundarfirði.  Sjáflur varð ég þess aðnjótandi í maí í vor og var það ógleymanleg upplífun.  Ingi Hans er algjör snillingur og útgáfan hans af ætt og uppruna Vilhjálms Stefánssonar (eins og hann vill kalla hann) mun áhugaverðari en okkar annars ágæta færsluhöfundar í þessu tilfelli.

Já, James Bond á "ættir" að rekja til norðanverðs Snæfellsness, þó svo að hann hafi fengið nafnið eftir einhverjum grasafræðingi.

Marinó G. Njálsson, 12.9.2009 kl. 00:24

5 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sæll Marinó

Ertu nokkuð að rugla persónum? Vilhjálmur Stefánsson landkönnuður er allt annar maður. Trúi því að Ingi hafi sagt sögur af honum, en hinn vestur-íslenski Bond er ekki eins þekktur hér á landi.

                                  Mbk,  G

Gunnlaugur B Ólafsson, 12.9.2009 kl. 00:38

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ingi Hans er greinilega afar fróður maður úr því hann þekkir ættir Williams út til Orkaneyja :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 12.9.2009 kl. 01:15

7 Smámynd: Sigurjón

Sæl frænka.  Skál fyrir Vilhjálmi...

Sigurjón, 12.9.2009 kl. 05:00

8 identicon

Mér finnst ekkert skemmtilegra en að lesa góða grein í morgunbítið.

Takk fyrir mig.

kveðja Raf.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 12.9.2009 kl. 07:05

9 identicon

Takk fyrir mig. Já vissi ég ekki, mér fannst ég vera líkur James Bond, ættaður af norðanverðu Snæfellsnesi líka, ekki langt Stykkishólmi ef ég veit rétt. Við James Bond.

Síðasti "Bondinn" meira að segja ljóshærður. Þegar maður hugsar þetta betur, passar allt, ein myndin gerð á Íslandi.

James bara einmana útrásarvíkingur, engin fjölskylda, engin börn, sjúkt viðhorf til kvenna, drykkjusvoli, teflir öllu a tæpasta vað.............Ja hérna.

Ingimundur Kjarval (IP-tala skráð) 12.9.2009 kl. 10:50

10 Smámynd: Iceguy

Fyrir mögum áratugum kom út á íslensku sagan, Dularfulli Kanadamaðurinn sem er æviðsaga hanns

Iceguy, 12.9.2009 kl. 11:02

11 Smámynd: Marinó Óskar Gíslason

Hann var aldrei skírður William Samuel Clouston Stanger, heldur var hann nefndur þessu nafni. Síðan var William Samuel Clouston Stanger væntalega skírður. Skírn og nafngift er ekki það sama. Vonandi lærir hin íslenska þjóð að gera greinarmun þarna á milli. Vildi bara koma þessu á framfæri.

Marinó Óskar Gíslason, 12.9.2009 kl. 13:32

12 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Marinó, hann var heldur aldrei nefndur William Samuel Clouston Stanger. Stanger er ættarnafn sem hann fær sjálfkrafa þannig að það er ekkert réttara að segja að hann hafi verið nefndur þetta fremur en skírður. Hann var augljóslega skírður William Samuel Clouston og síðan bætist við ættarnafnið Stanger. Þín orðanotkun er ekkert réttari hér. Og almennt er ekki um að ræða að Íslendingar geti ekki gert greinarmuninn - það er öllu fremur að þegar maður segir eða skrifar svona gerir maður ráð fyrir að þokkalega vel gefnir lesendur viti hvað það þýðir.

Vilhjálmur Stefánsson var landkönnuður eins og Gunnlaugur bendir á og skemmtilegur náungi eftir þeim sögum að dæma sem ég heyrði í Winnipeg. En það er svo sem alveg mögulegt að Íslendingar vísi einnig til Williams Stephenson með sama nafni. Hvor var ættaður af Snæfellsnesinu? Hef ekki tíma til að tékka á því.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 12.9.2009 kl. 17:50

13 Smámynd: Marinó Óskar Gíslason

Í svona nafnaröð veit ég ekkert hvað er ættarnafn og hvað ekki. En skírn og nafngift er ekki eitt og hið sama. Það er ekki hægt að skírar einhvern einhverju nafni. Skírn er athöfn þar sem einstaklingur er tekinn inn í kristinn söfnuð. Nafngift hefur ekkert með skírnina að gera. Og það er ekki hægt að skíra dauða hluti eins og fólk talar oft um. Þú ert til dæmis ekki skírð Kristín M. (veit ekki fyrir hvað M. stendur), heldur var Margrét M. skírð. Geri ráð fyrir að þú hafir verið skírð á sínum tíma. Það er merguri málsins. Fyrst gefur maður einstaklingi nafn og síðan er hann skírður, þar sem fólk er skírt. Börn eru líka fólk, eins og Stefán Jónsson skrifaði.

Marinó Óskar Gíslason, 12.9.2009 kl. 18:08

14 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Hmmmm. Það er sjálfsagt rétt hjáþér að svoleiðis á þetta að vera en ég þori að veðja við þig að flestir Íslendingar líta á skírnina sem nafngjöf en ekki sem vígslu til trúaar. Og ég er líka viss um að 90% landsmanna eru sammála mér í því að það sé rétt að segja að einhver sé skírður ákveðnu nafni, enda er ljóst að þegar presturinn gefur barninu nafn þá eys hann það vatni um leið og hann segir nafnið. Mér þykir nokkuð ljóst að það samtengi nafngjöf og skírn í eina vígslu og að þar af leiðandi sé rétt að segja að barnið hafi verið skírt ákveðnu nafni. Annars er mér þetta svo sem ekkert hagsmunamál svo ég er alveg til í að segja að William hafi verið nefndur svo en ekki skírður. En ég er hrædd um að þú sért að berjast við vindmyllur ef þú ert að reyna að breyta þessari hugsun hjá Íslendingum. Ég er löngu hætt að pirra mig á sumum ljótum málvillum. Það er hreinlega ekki til neins.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 12.9.2009 kl. 20:27

15 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Marinó: Var William ekki skírður?

Svanur Gísli Þorkelsson, 12.9.2009 kl. 22:40

16 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Endilega veðmál, legg til að þú veðjir 5000 kr. rauðvínsbokku og ferð með sjálfri þér á ströndina! Samþykkt?

Magnús Geir Guðmundsson, 13.9.2009 kl. 00:39

17 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Hehe.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 13.9.2009 kl. 01:32

18 Smámynd: Sigurjón

Þetta er mjög skírt hjá þér frænka...

Sigurjón, 13.9.2009 kl. 04:44

19 Smámynd: Marinó Óskar Gíslason

Mér finnst þetta sýna að það vantar verulega mikið á biblíufræðslu íslensku þjóðarinnar ef 90% hennar heldur svona vitleysu. Það kemur mjög skírt fram í Heilagri ritningu um hvað málið er. Vil ég því benda á versin í Matteusarguðspjalli 28. kafla, 19. og 20. vers. "Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðað yður.   Svanur: ég veit ekkert um það hvort þessi tiltekni maður var skírður. Ég held að íslendingar sem tilheyra kristnum söfnuði ætti að kynna sér málin eins og þau eru sett fram í Biblíunni og fara eftir þeim. Og hafið það hugfast að Jesús lifir og hann elskar ykkur öll, þrátt fyrir að þið séuð illa lesin í ritningunum.

Marinó Óskar Gíslason, 13.9.2009 kl. 13:50

20 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þá hefur þetta verið alveg eins og ég skildi Kristínu. Hann var skírður og gefið nafnið William Samuel Clouston.

ÞAð hefur verið alsiða að gefa börnum nafn við skírn og presturinn hefur jafnan fléttað nafni barnsins inn í sjálfa athöfnina. Rétt eins og Jesús tekur sér helgititilinn Kristur (hinn smurði)  eftir að hann lætur skírast af Jóhannesi  og heilagur andi stígur loks yfir hann, vilja prestar kannski minna á þessa umbreytingu sem þeir trúa að verði við skírnina og tengja hana nafngiftinni.

Svanur Gísli Þorkelsson, 13.9.2009 kl. 14:19

21 identicon

Frábær umræða í alla staði, líkt og pistillinn á sannarlega skilið, orðsnilldarsmíð!

Og til að víkka hana enn frekar út og glæða lífi, þá finnst mér Svanur Gísli frábær, verð bara að segja það!

Og svo hins vegar vil ég koma þeim bráðnauðsynlegu upplýsingum á framfæri, að föðurafi minn hét ÓSKAR GÍSLASON,skírður því nafni eða ekki. Sigvaldi líka að millinafni, en sannarlega ekki Marinó!

Magnús Geir, skírðurognafngefinnæstumkvænturenekkijarðsetturenn! (IP-tala skráð) 13.9.2009 kl. 22:33

22 Smámynd: Sigurpáll Ingibergsson

Fín og áhugaverð grein Kristín.

Ég tek undir með Marínó. Ingi Hans Jónsson í Sögusetrinu á Grundarfirði er stórskemmtilegur og hefur kannað heimildir vel. Hann sýndi m.a. afrit af fæðingarvottorði og skráningu Williams í herinn en fæðingardagurinn og árið er á reiki, rétt eins og hjá meistara Þórbergi. Sagan sem Ingi Hans segir er mjög samhljóða frasögn þinni.

Sigurpáll Ingibergsson, 20.9.2009 kl. 14:13

23 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Mér skilst að það sé margt misritað sem sagt hefur verið um William. Alla vega tvær bækur hafa verið skrifaðar um hann, svo og alla vega tveir heimildiaþættir, og ber þessum miðlum alls ekki saman um ýmis atriði.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.9.2009 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband