Rauðvínið sem fór til spillis - eða þannig

Ég kem oft seint heim úr vinnu og hef ekki oft tíma til að elda. Svo ég reyni að nota tækifærið þegar ég á frídaga. Í dag var verkalýðsdagurinn í Kanada og ég gerði svo til ekkert. Svaf frameftir, las um stund, fór út að labba með Akemi, ryksugaði (heilmikið afrek) og svo fór ég út í búð að kaupa inn fyrir svínakjötsrétt sem ég ákvað að búa til. Leit í uppskriftabókina, skrifaði upp það sem mig vantaði og lagði af stað.

Ég fann fljótlega flest sem mig vantaði þótt það hafi reyndar tekið tíma að finna nautakjötstenginga og kraminn shallot (ákveðin tegund af leik). Hélt ég fyndi krukku með lauknum eins og maður getur keypt kraminn hvítlauk, en það gekk ekki svo ég keypti bara ferskan shallot og varð að kremja hann sjálf. Já, mikil ósköp. En eitt var ég í vandræðum með, marsala. Ég hafði verið viss um að ég fyndi það annað hvort með kryddvörum eða með indverskum vörum. Fann ekkert í kryddhillunni svo ég fór að hillunni með indverskum og kínverskum vörum. Masala, ekki maRsala. Hmmm...bíddu, eru þetta tveir mismunandi hlutir? Eða bara mismunandi stafsetning? Marsala hlýtur að vera krydd, það á að fara út í sósuna. Ákvað að fletta þessu upp á netinu. Þetta væri ábyggilega kryddblanda og kannski ætti ég allt í hana.

Svo ég fór heim og fór á netið. Fletti upp á marsala. ÞETTA ER VÍN! Fjandinn sjálfur, það eru engar vínbúðir opnar í dag, eða ekki get ég ímyndað mér það. Þar að auki nenni ég ekki út aftur. Er svöng. Svo ég ákvað að rauðvín væri alveg eins gott. Var viss um að ég ætti rauðvínsflösku einhvers staðar. Hér er nefnilega venjan að koma með vín í matarboð. Ég er ekki mikil rauðvínsdrykkjumanneskja þannig að ég endurgef flöskurnar sem mér eru gefnar. En nú bar illa við. Eina rauðvínsflaskan sem ég átti var rúmlega þrjátíu dollara flaska sem ég hafði keypt í vetur handa manni sem ég var að deita. Ætlaði að færa honum á afmælinu hans en svo slitnaði upp úr sambandinu og ég á enn flöskuna. Íslendingum finnst kannski 30 dollarar ekki mikill peningur fyrir rauðvínsflösku (um 3500 krónur) en þegar hægt er að fá fínar flöskur á tíu dollara þá er þetta slatti. Og að opna 30 dollara flösku fyrir matargerð er eiginlega geðveiki. En ég gerði það nú samt. Sósan þurfti á víni að halda og ég var hvort eð er búin að eiga þessa flösku í einhverja mánuði án þess að gera nokkuð við hana svo það var alveg eins gott að nota hana í gourmet sósu. 

Maturinn heppnaðist vel enda ekki hægt að klikka á svínasteik með sveppum og góðri sósu. Ég hellti smá rauðvíni í glas - ákvað að drekka smá af þessu dýra vína fyrst flaskan var á annað borð opin. En nei, ég var ekki að grínast þegar ég sagðist ekki vera mikið fyrir rauðvín. Ég drakk nokkra sopa og náði mér svo í vatnsglas. Afgangurinn úr glasinu er enn frammi í stofu. Hef ekki fengið mig til að henda því ennþá en veit að það verður ekki drukkið. Verð líklega að fá einhvern í heimsókn til að drekka afganginn úr flöskunni svo hún fari ekki öll til einskis. Eða kannski ég eldi bara masúka. Þarf líka rauðvín í þann rétt.

Vona að engum vínáhugamönnum svelgist á við þennan lestur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Eldaðu bara einhverja góða enska kjötkássu. Það má sulla miklu rauðvini út í þær.

Eða -og enn betra- Coc Au Vin, franskan hana í rauðvíni.

Svo gufar vínandinn mestallur upp í eldamennskunni, þannig að þú þarft ekki að hafa áhyggjur af óþarfa áhrifum.

Bon appetit !

Hildur Helga Sigurðardóttir, 8.9.2009 kl. 09:14

2 identicon

Er ekki spurning um slaka aðeins á nískunni

andi (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 12:08

3 identicon

Ekkert mál að frysta rauðvín og nota í sósur og mat síðar, gott t.d. að frysta í klakapokum, þá eru rauvínsmolarnir fljótir að þyðna, smá kreppuráð frá Íslandi, annars hefði ég nú bara drukkið það. Kveðja frá Akureyri.

Agnes Eyfjörð (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 12:49

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ekki spurning um nísku andi. Spurning um að nota gæðarauðvín í eldamennsku þegar nota má gæðaminna (og þar á meðal ódýrara) rauðvín. Annars finnst mér dónalegt að fara á annarra manna síður með móðgandi athugasemdir. Þú veist ekkert um mín fjármál og hvort tuttugu dollarar skipta máli eða ekki.

Takk fyrir ábendingarnar Hildur og Agnes.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 8.9.2009 kl. 14:11

5 identicon

Nú er ég ekki sammála þér hérna norður í nætursvala,vona INNILEGA að einhverjum rauðvísröflaranum hafi svelgst rækilega á! Þetta var jú líka DÝRT rauðvín og með SÖGU!

Magnús Geir (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 00:35

6 Smámynd: Sigurjón

Sæl frænka.

Mundu bara að rauðvín endist ekki eftir að það hefur verið opnað.  Ef þú notar það ekki innan tveggja daga, þá þarftu að frysta það og nota það svo í matinn.

Sigurjón, 9.9.2009 kl. 12:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband