Sofandi síða

Ég stofnaði þetta blogg á sínum tíma til að halda við íslenskunni. Ég bjó í Kanada, hafði gert um áraraðir, og notaði tungumál mitt ákaflega sjaldan. Ég fann að ég var að stirðna í málinu og að ég skrifaði það nær aldrei. Svo ég fór að blogga. Um nóg var að spjalla því ég var alltaf að upplifa einhverja nýja og skemmtilega hluti sem kannski voru svolítið ólíkir ýmsu sem fólk þekkti heima á Íslandi. Þetta var býsna skemmtilegur tími þótt ég lenti stundum í því sama og flestir aðrir sem voru að blogga - að maður fengi einhverja leiðindagesti inn á síðuna sína sem töldu sig geta sýnt dónaskap, bara af því að þeir stóðu ekki augliti til auglitis við mann. Því fólki hefur reyndar fjölgað gífurlega eftir að samfélagsmiðlarnir urðu algengari og nú er vart þverfótað fyrir því. Neinei, það er ekki fleira en hinir - bara meira áberandi. En svona fyrir utan þau tröll þá var þetta býsna skemmtilegt og oft sköpuðust áhugaverðar umræður.

En nú er ég flutt heim og þótt íslenskan mín hafi ekki enn alveg náð sama stað og áður en ég flutti út þá er þetta auðvitað allt annað mál núna. Svo ég stend frammi fyrir því hvort ég eigi að taka þetta blogg niður - enda meira en ár síðan ég skrifaði eitthvað síðast - eða hvort ég eigi að leyfa því að standa. Kannski ég ætti bara að fara að skrifa meira. En þetta er ekki dagurinn sem ég tek þá ákvörðun. Þótt ég bloggi nær aldrei finnst mér ég loka ákveðnum kafla í ævinni þegar ég loka blogginu og ég er ekki alveg til í að loka strax. Svo ég ætla að leyfa þessari síðu að vera hér eitthvað áfram.

En hún mun sennilega sofa Þyrnirósasvefni eitthvað lengur.


Áskorun til fjölmiðla

Á þeim skoðanakönnunum sem við höfum séð á undanförnum dögum er ljóst að gríðarlegur fjöldi manns er enn óákveðinn. Alls ekki skrítið miðað við allt og alla. Það hefur sjaldan verið jafn erfitt að gera upp hug sinn. Ég er til dæmis óákveðin í fyrsta sinn í Alþingiskosningum. Sumir eru óákveðnir af því að fjöldi flokka er orðinn svo mikill, sumir eru óákveðnir af því að þeir eru ekki vissir um hvort þeir eigi að treysta þeim sem bjóða bestu gylliboðin og aðrir eru óákveðnir af því að þeir hafa misst trúna á stjórnmálamönnum. Ástæðurnar eru að sjálfsögðu fleiri, en þessar ættu að duga í bili.

Við sem höfum þó enn fulla trú á lýðræðinu erum alltaf dugleg að hvetja hina óákveðnu til að kjósa nú samt og bendum á að það sé betra að skila auðu en að kjósa alls ekki því með því geturðu alla vega sent þau skilaboð að enginn kostanna sé boðlegur. Þú sendir sem sagt þau skilaboð að þér standi ekki á sama um það hver stjórnar landinu - og þú sýnir það greinilega með því að hafa fyrir því að fara á kjörstað - en að þér líki bara ekki það sem er í boði. 

Mótrökin eru oft þau að svo lítið sé gert með auðu seðlana að skilaboðin komist í raun aldrei til réttra aðila. Og það er margt til í þessu. Hversu oft gerist það ekki að maður heyrir "auðir og ógildir seðlar, 20%", eða hvert sem hlutfallið nú er? 

Það má ekki blanda saman auðum seðlum og ógildum. Alls ekki. Því þótt sumir ógildi seðla sína að ásettu ráði til þess eins að mótmæla (t.d. með því að skrifa vísur á þá) þá eru aðrir sem ógilda þá heimsku sinnar vegna (kjósa t.d. Sjálfstæðisflokkinn en strika svo Steingrím J. út). Við vitum nefnilega ekki alltaf hvað liggur að baki ógildingu seðlanna en við vitum hvað auðu seðlarnir þýða.

Því er það gífurlega mikilvægt að allir fjölmiðlar sem fjalla um kosningarnar þegar þar að kemur haldi þessum seðlum aðskildum. Ef 30% ákveða að skila auðu þá verðum við að fá að vita það og við verðum að fá umfjöllun um það. Þetta er rödd þeirra sem hafna öllum kostum og þeirra rödd á rétt á því að fá að heyrast rétt eins og raddir þeirra sem kjósa ákveðna flokka.

 


Grúsk

Ég þarf að gera játningu. Ég er grúskari. Mér þykir ákaflega skemmtilegt að liggja á þjóðskjalasafninu og eltast við fortíðina. Ég hefði sennilega átt að gerast sagnfræðingur. En þá væri ég að grúska í vinnunni en ekki frítímanum og hver veit hvort að hefði verið eins skemmtilegt. Hvenær á maður að gera áhugamálið að vinnunni og hvenær halda því sem áhugamáli? Ég veit að besta mögulega vinnan hlýtur að vera sú sem maður hefur gífurlegan áhuga á en er sjálfgefið að öll áhugamál manns gætu hentað manni sem vinna? Kannski yrðu þau að kvöð og hættu að vera skemmtileg. Ég átti frænku sem elskaði að syngja. Söng daginn út og inn. Svo gerðist hún söngkona og hún hætti að syngja heima hjá sér. Söngurinn var orðin vinna. Svo ég er bara ánægð með að vera grúskari í frístundum og málfræðingur í vinnunni. Enda felur málfræðin svo sem í sér heilmikið grúsk þótt það krefjist ekki langrar setu yfir rykföllnum skræðum á þjóðskjalasafni.

Aðeins um bókasöfn

Sem barn kom það fyrir að ég fór nokkrum sinnum á viku á Amtið á Akureyri og fékk lánaðar bækur. Þessar ferðir voru sérstaklega tíðar þegar ég gekk í gegnum Nancybóka- og Frank og Jóa-tímabilið. Maður spændi upp bækurnar og kom alltaf til baka þyrstur í meira. Svo kom tímabil þar sem maður notaði safnið fyrst og fremst í heimildasöfnun fyrir menntaskólaritgerðir og er mér enn í minni sú frábæra aðstoð sem ég fékk alltaf frá starfsfólkinu þarna uppi. Sérstaklega Höllu sem allt vildi fyrir mann gera.

Ég fór ekki mikið á bókasafn þegar ég bjó í Reykjavík á háskólaárunum fyrri enda hafði maður aðallega tíma fyrir skólabækurnar og þær þurfti mér að kaupa. Þó fékk ég eitthvað af ítarefni lánað á Landsbókasafninu eftir að nýja byggingin kom á melunum.  

Eftir að ég lauk meistaraprófinu og áður en ég flutti til Kanada kom þó mikið lestrartímabil og þá fékk ég mér kort á Borgarbókasafn og tók margar bækur og las mikið.  Það var alltaf gaman að koma í gamla og fallega húsið í miðbænum sem þá hýsti bókakost aðalsafns Borgarbókasafnsins. Sorglegt annars að sjá húsið núna – eða alla vega síðast þegar ég gekk þar framhjá.

Eftir að ég kynntist Herði er ég alltaf á bókasöfnum. Oftast á Foldasafni en þó töluvert líka á Kringlusafni, auk örfárra skipta á Ársafni, Sólheimasafni og Aðalsafni. Held það sé bara safnið í Gerðubergi sem ég hef aldrei komið á. Það er svo mikil snilld að hægt sé að taka bækurnar hvar sem er og skila þeim hvar sem er. Ef maður er staddur í Kringlunni þá skýst maður bara á safnið þar og skilar svo bókinni á Foldasafn á leið heim úr vinnunni einhvern daginn. Ég held að þessi liðlegheit hljóti að auka notkunina á safninu. Ég myndi ábyggilega ekki nenna að grípa bók á Ársafni ef ég þyrfti svo að fara aftur þangað uppeftir til að skila henni.

Það er líka hægt að finna allan fjandann á þessum söfnum. Ég er búin að liggja yfir sögum úr Árnessýslu frá þarsíðustu öld og alveg ótrúlegt hversu mikið er til. Og það sem best er, allt er skráð í tölvur svo maður getur unnið heimavinnuna áður en maður mætir á safnið. Séð hvað hver á, hvort bókin er inni o.s.frv. Annars er það samt ekkert eins skemmtilegt og að mæta bara á staðinn og grúska. Í Kanada gat ég eytt svona tíma í risastórum bókabúðunum, hér koma söfnin í þess stað.

Og ég get ekki fjallað um bókasöfn án þess að nefna þá snilld að hægt sé að fá myndbönd lánuð. Nú þegar her myndbandaleigan lokar á fætur annarri er frábært að við sem ekki hlöðum niður ólöglegu efni getum fengið lánaða diska. Í vikunni tók ég fyrstu seríu af Deadwood og ligg núna yfir henni. Skemmtilegt, enda hef ég komið til Deadwood og sá meira að segja leikrit um réttarhöldin yfir Jack McCall.

Já, miklir snillingar voru þeir ágætu menn sem stofnuðu fyrstir bókasafn á Íslandi. Voru það ekki annars Þingeyingar? 

 


Heimavinnandi húsmóðir í mánuð

Allt í einu hef ég tíma til að blogga. Ég er heimavinnandi húsmóðir í einn mánuð. Kemur ekki til af góðu reyndar. Verkefninu sem ég var í lauk nú í lok janúar og ég fæ ekki nýja vinnu fyrir en í byrjun mars þannig að ég er atvinnulaus í febrúar. 

Og hvað gerir maður þegar maður er atvinnulaus? Ja, maður byrjar daginn á því að skoða atvinnuauglýsingarnar - en það er ekkert nýtt komið inn síðan í gær. Sá reyndar eina auglýsingu um prófarkalestur en það er bara 50% staða og væntanlega ekki verið að leita að starfsmanni í einn mánuð. Ég mun kenna í þrjá mánuði, mars til maí þannig að það er takmarkað sem ég gæti þegið. En ég les þetta samt því maður veit aldrei hvað býðst, og svo er auðvitað hugsanlegt að eitthvað bjóðist sem ég get þegið eftir að kennslu lýkur í vor.

Annars er ég með heilan lista um það sem ég ætla að gera í atvinnuleysinu þennan mánuðinn:

- Lesa yfir allt efnið sem ég þarf að kenna þegar ég byrja að vinna í mars. Sumt hef ég lesið en þarf að rifja upp, annað mun ég lesa í fyrsta sinn.

- Þrífa íbúðina. Svona almennilega vorhreingerningu þótt ekki sé komið vor.

- Fara í leikfimi og koma mér í form. Ókei, ég er í raun í mjög góðu formi enda stunda ég nú þegar íþróttir. En ég þarf að lyfta. Ég finna bara hversu mikinn styrk ég hef misst í efri hluta líkamans eftir að ég hætti að klifra. WorldClass er hérna rétt hjá svo ég hugsa að ég fari þangað þennan mánuð sem ég er heima.

- Skrifa málfræði. Ég þarf að skrifa eitthvað og helst fá birt svo ég verði talin hæf ef einhvern tímann verður auglýst málfræðistaða við HÍ. Maður má ekki dragast aftur úr.

- Grúska í fornum fræðum. Ég er heilluð af sögu langafa míns og systur hans  og nota oft frítímann í að stúdera líf þeirra. Þau voru ekki þekktar manneskjur og því lítið hægt að finna en hægt er að púsla ýmsu saman. Ég mun heimsækja Þjóðskjalasafnið aftur næstu daga. 

- Elda hollan mat. Ég hef meiri tíma núna til að virkilega pæla í því hvað ég borða og hvernig á að elda hollan en góðan mat. Oft þegar maður vinnur mikið eru ákvarðanir teknar í flýti og keypt inn á hlaupum. Það ætti ekki að vera vandamál í febrúar.

Já, nú skal miklu komið í verk.


Að heilsa á íslensku

Það er orðið langt síðan ég hef skrifað færslu en nú finnst mér þörf. Ég var að koma frá Bandaríkjunum þar sem ég var á ráðstefnu. Þetta var hin fínasta ferð, gagnleg og fræðandi og auk þess fékk ég tvo aukadaga í New York á leiðinni til baka og gat keypt jólagjafirnar ódýrt. En ráðstefnan og verslunin er ekki ástæða þess að ég skrifa heldur sú árátta Íslendinga að ávarpa alla á ensku.

Á flugvellinum á leið út var mér boðinn 'good morning' og það sama tók við þegar ég kom aftur heim í morgun. Í flugrútunni var mér einnig heilsað á ensku. Og það er ekki bara á flugvellinum sem þetta er svona. Síðsumars fór ég ásamt fleirum á veitingahús í Grindavík. Þar var mér heilsað á ensku og síðan var ég spurð 'Would you like to see the menu?' Aðeins fyrr í sumar var ég í Eymundsson í Austurstræti og keypti þar vídeóspólu - hún var á íslensku. Samt talaði starfsmaðurinn við mig á ensku. Ég svaraði honum á íslensku en hann hélt áfram að tala við mig á ensku. Ég hélt hann væri kannski útlendingur en nei, á milli þess sem hann afgreiddi mig - á ensku - spjallaði hann við samstarfskonu sína á íslensku. Enda drengurinn líklega alíslenskur.

Er það virkilega opinber stefna ferðaþjónustunnar á Íslandi að nota ensku þegar fólki er heilsað eða taka starfsmenn þetta upp hjá sjálfum sér? Hvað ef ég er Íslendingur sem ekki kann ensku? (Já þeir eru til.) Á ég þá ekki rétt á því að mér sé heilsað á mínu móðurmáli í mínu eigin landi? Er réttur útlendinganna - sem þó tala ekki allir ensku - meiri en Íslendingsins? Og hver er nákvæmlega ástæðan fyrir þessu? Nú er algjörlega ljóst að fólk veit nákvæmlega hvað þú ert að segja þegar þú býður því góðan dag, alveg sama hvaða tungumál þú notar. Ég prófaði þetta núna úti í Bandaríkjunum. Ég notaði íslensku til að heilsa og þakka fyrir mig og það skilaði sér alveg jafn vel og hefði ég sagt það sama á ensku. Ef þú gengur inn í rútu, bílstjórinn brosir, horfir í augun á þér og kinkar smávegis kolli um leið og hann segir eitthvað veistu að hann er að heilsa þér. Það er alveg sama hvernig orðin hljóma. Þess vegna myndi útlendingur á Íslandi skilja 'góðan daginn' jafnvel og hann skilur 'good morning'. Þar að auki er ekkert ólíklegt að útlendingur sem ferðast til Íslands hafi t.d. flett upp á netinu (eða í orðabók) hvernig á að heilsast á íslensku. Flestum útlendingum finnst meira að segja tilheyra ferðalaginu að nota kveðjur og jafnvel þakkarorð á máli þess lands sem þeir heimsækja. Og þetta virðast aðrar þjóðir skilja. Hvenær heyrið þið Frakka bjóða góðan daginn á ensku? Eða Spánverja? Alla vega hefur það verið mín reynsla þegar ég heimsæki þessi lönd að mér sé heilsað á þeirra máli. Ég heilsa meira að segja til baka á þeirra máli þótt ég kunni ekki spænsku og sé léleg í frönsku. Ég var líka í Kaupmannahöfn í vor og þar var mér alltaf heilsað á dönsku. Þetta gerir fólk þótt það kunni ensku og geti svo skipt yfir í hana þegar í ljós kemur að viðskiptavinurinn kann ekki meira í málinu en það að heilsa.

Mér finnst það notalegt þegar mér er heilsað á máli þess lands sem ég heimsæki. Ég held að flestum ferðamönnum finnist það líka. Ég held að þeir sem ósjálfrátt heilsa útlendingum á ensku (og þar með fjölmörgum Íslendingum líka) séu að ræna ferðamennina smá hluta af reynslu sinni og á sama tíma sýna þeir okkar fallega máli vanvirðingu.

Þetta er Ísland. Heilsum hvort öðru á íslensku.  


Hjólreiðamenn þurfa líka að taka tillit

Ég hjóla í vinnuna. Þetta eru sirka 14 kílómetrar báðar leiðir og mest hjóla ég á hjólreiðastígum. Fer þó út á götuna þegar stígum lýkur fremur en að hjóla á gangstéttinni - enda trúi ég því einlæglega að hjóla eigi fremur heima með akandi umferð en gangandi. Ég get sagt margt um tillitsleysi ökumanna gagnvart hjólreiðarmönnum og ég mun gera það - en í annarri færslu.

Ég ætla að byrja heima hjá mér; þ.e. hjá okkur hjólreiðarmönnunum sjálfum. Það er auðveldast að lýsa hjólferðinni í vinnuna í morgun. Ég hjólaði Laugarásveginn og svo Sundlaugarveg.Það gekk vel og ég lenti ekki í neinum vandræðum. Ég hjóla svo út á stíginn við Sæbrautina til móts við Kringlumýrarbraut. Stígurinn þar er greinilega afmarkaður með heilli línu sem skilur að gangandi og hjólandi. Með reglulegu millibili er málað hjól þeim megin sem ætlast er til að hjólreiðarmenn hjóli, og gangandi manneskja er máluð hinum megin. Þetta gæti nú varla verið einfaldara. Nema að þegar ég kem inn á stíginni hjóla ég mjög fljótlega uppi mann á hjóli sem hjólar hægra megin á stígnum, þeim sem er kirfilega merktur gangandi manneskju. Mig langaði að benda honum á að hann væri vitlausu megin en hann var með heyrnartól í eyrum og ég var á hraðleið. Ég tek fram úr (vinstra megin því ekki annað var hægt) og hjóla áfram. Ég verð þó að taka fram að það er ekki oft sem ég sé fólk hjóla þarna vitlausu megin. Það er margfalt algengara að gangandi labbi þar sem merkt er hjólreiðamönnum.

Stuttu síðar kemur annar hjólreiðamaður á móti mér. Þarna er mitt mál að víkja inn á stíginn þar sem hann á réttinn miðað við hinn íslenska hægri rétt, nema hvað áður en ég næ að víkja er hann búinn að víkja. Hann víkur þar með til vinstri og við mætumst vitlausu megin. Hefði ég vikið á sama tíma hefðum við hugsanlega lent saman. Ég skil ekki að hægri rétturinn geti verið svona flókinn. Þetta er ekki heldur algeng vandamál en þó mun algengara en það að hjóla að jafnaði á vitlausum helming. Einn daginn mætti ég tveim á sama stígnum sem viku til vinstri. Það hefur líka komið fyrir mig að vera að hjóla í austurátt á stígnum, þar sem ég á réttinn, og sá sem kom á móti vék ekki heldur þumbaðist áfram með frekju. Þar mátti litlu muna að um slæman árekstur yrði.

Á föstudaginn lenti ég í því að hjóla í austurátt - á þá réttinn á Sæbrautinni eins og fram kom. Hjólreiðarmaður kom úr gagnstæðri átt og hefði átt að víkja öllu jöfnu, nema að akkúrat þar sem við áttum að mætast voru þrjár manneskjur á gangi sem þar með tóku upp sinn hluta stígsins - eins og þær hafa fullan rétt til. Þar hefði hinn hjólreiðarmaðurinn átt að stoppa en hann var ekki á því og mætti mér á hjólreiðarpartinum þrátt fyrir að manneskjurnar þrjár væru þá akkúrat við hliðina. Ekkert hefði mátt útaf bregða til að annað hvort okkar flygi á hausinn. Og ef það hefði verið hann, þá hefði hann dottið á fólkið.

Algengasti dónaskapur hjólreiðamanna er þó sá að margir þeirra telja umferðarljósin ekki eiga við sig. Langstærstur hópur hjólreiðamanna fer yfir á rauðu ljósi ef engin er umferð. Hvað myndum við segja ef ökumenn höguðu sér þannig? Kíktu til hliðar og ef enginn bíll væri að koma þá færu þeir bara yfir? Ég er hrædd um að slysunum myndi fjölga í umferðinni ef allir færu að taka sénsa. Og af hverju halda hjólreiðamenn að umferðareglurnar taki ekki til sín? Af hverju halda þeir að rautt ljós eigi ekki við þá? Ég gerði könnun á þessu í fyrra. Í hvert sinn sem ég beið á rauðu ljósi taldi ég hversu margir fóru yfir og hversu margir biðu með mér. Niðurstaðan var sláandi - 75% fóru yfir. Ókei, úrtakið var kannski ekki stórt þar sem ég taldi bara í nokkra daga og ég var ekkert alltaf stopp á rauðu ljósi, en ætli ég sé ekki að tala um 12 sem fóru yfir á rauðu og 3 sem biðu.

Við sem ferðumst um á hjóli vitum hversu mikilvægt það er að tillit verði tekið til okkar og að við hljótum jafnan sess í umferðinni og aðrir. Ætti þá ekki fyrsta skref okkar að vera það að fylgja sjálf umferðarreglunum? Ættum við ekki að sýna gott fordæmi? Getum við ætlast til þess að tillit verið tekið til okkar ef við tökum ekki tillit til annarra?

 


Bestu bækurnar

Eftir að ritgerðarvinnu lauk hef ég haft miklu meiri tíma til að lesa. Reyndar ekki mikinn tíma því þótt mér þyki bókalestur skemmtilegur þykir mér enn skemmtilegra að vera útivið, helst í einhverri líkamsrækt. Og svo finnst mér oft gott að núllstilla mig með einföldu formúluefni í sjónvarpinu - og þá meina ég ekki formúlu eitt. En þrátt fyrir allt sem glepur hef ég lesið heilmikið frá því ritgerðin kláraðist í lok ágúst. Ég ætla ekki að segja ykkur frá því öllu en mig langar að segja ykkur frá svolitlu lestrarverkefni sem ég bjó mér til.

Ég fór á netið og fann hina ýmsu lista yfir 100 bestu bækurnar. Ég vildi ekki treysta bara einum lista svo í staðinn hlóð ég öllum listunum sjö inn í sama skjalið og raðaði svo bókunum eftir því hversu oft þær birtust á listunum. Þannig gat ég búið mér til minn eigin lista.

Aðeins tvær bækur voru á öllum listunum sjö. Þetta voru 1984 eftir George Orwill og Ulysses eftir James Joyce. Ég hef hvoruga lesið en nú eru báðar á listanum mínum. Ég ætla ekki að fara yfir allan listann en þær bækur sem nefndar voru á fimm listum (engin var nefnd á sex listum) voru:

Anna Karenina eftir Leo Tolostoy
Brave New World eftir Aldous Huxley 
Crime and Punishment eftir Fyodor Dostoevsky
Great Expectations eftir Charles Dickens
Invisible Man eftir Ralph Ellison
Lolita eftir Vladimir Nabokov
Lord of the Flies eftir William Golding
Love in the time of cholera eftir Gabriel Garcia Marques
Middlemarch eftir George Eliott
Midnight's Children eftir Salman Rushdie
One hundred years of solitude eftir Gabriel Garcia Marquez
Pride and Prejudice eftir Jane Austin
The Sound and the Fury eftir William Faulkner
To the Lighthouse eftir Virginia Woolf
War and Peace eftir Leo Tolstoy
Wuthering Heights eftir Emily Brontë

Ég er byrjuð að lesa bækur á listanum (ekki þó allar svona ofarlega) og ætla að skrifa um það fljótlega.  


 


Vantar betri upplýsingar um næringargildi

Ég keypti mér léttan ab drykk með epli og gulrótum frá Mjólkursamsölunni. Fínasti drykkur og fullur af ab gerlum. Eitt er það þó sem angrar mig. Í upplýsingum um næringargildi kemur fram að í 100 grömmum séu 46 kílókaloríur. Ekki slæmt. Hvað skyldu þá vera margar í þessum litla dalli sem ég keypti?

497

Ég leitaði á dollunni eftir upplýsingum um hversu mörg grömm af ab-drykknum væru í dollunni en þær var ekki að finna. Í staðinn var hægt að lesa að í dallinum væru 250 ml. En það eru engar upplýsingar um hversu margar kaloríur eru í hundrað millilítrum - bara í 100 grömmum, svo ég stóð frammi fyrir því að vita engan veginn hversu margra kaloría ég neytti þegar ég drakk úr dallinum. Ég veit að einn millilítri af vatni samsvarar einu grammi af vatni, en varla á það við um alla vökva, eða hvað? Fáviska mín á þessu sviði er mikil en varla þó minni en svona gengur og gerist. Og jafnvel ef svo er þá finnst mér ástæðulaust að gera ráð fyrir að fólk allt viti þetta.

Eðlilegast væri að hafa upplýsingar um næringargildi í sömu mælieiningu og gefin er upp fyrir magnið sem selt er. Oft sé ég í upplýsingum um næringargildi annars vegar hvað það er í 100 grömmum og hins vegar í ákveðnum skammti eða einingu. Hér hefði t.d. verið upplagt að gefa upp, auk næringargildis í 100 grömmum, næringargildið í þessum dalli. Þá hefði ég virkilega vitað hvað það var sem ég setti ofan í mig.


Fjallgöngur

Þegar ég bjó í Bresku Kólumbíu jókst áhugi minn á fjallgöngum til muna enda há og tígurfjöll víða í þessu fallega fylki. Fjallgöngur eru ákaflega heilbrigt áhugamál - maður kemst í gott form, fær nóg af tæru lofti, sér dásamlegt landslag og ef maður er í góðum félagsskap þá er þetta ákaflega góð leið til að styrkja vináttuböndin.

Eftir að ég flutti heim síðastliðið vor voru fjallgöngur eiginlega það eina sem ég leyfði mér um helgar því ég átti annars að vera að læra og klára ritgerðina mína. Sumarið fór því í það að skrifa en svo skaust ég í fjallgöngu af og til svo ég gæti haldið sönsum. En ég náði að ganga á nokkur fjöll þrátt fyrir að mikill tími færi í ritgerðina. Gekk t.d. á Þverfellshorn Esju tvisvar og Kerhólakambinn einu sinni. Fór á Keili, Helgafell í Hafnarfirði, Vörðuskeggja og svo fór ég í eina helgaferð yfir Heiðina háu, en þá var ég hvort sem var búin með ritgerðina og þurfti ekki lengur að hafa áhuga af tímaskorti.

Árið 2012 hefur byrjað af krafti í göngunum. Reyndar hef ég svo sem ekki farið á há fjöll en ég er hvort eð er að byggja upp þolið fyrir stærri afrek. Hef það sem af er þessum fyrstu þremur mánuðum farið á Esjuna, Helgafellin tvö í Hafnarfirði og í Mosó, Mosfellið, Úlfarsfellið, Þorbjörn og nú síðast Ingólfsfjall.

Þessa dagana ligg ég yfir kortin og bendi á fjöll sem mig langar að sigrast á. Og þegar vorar verða þetta vonandi stærri og meira krefjandi leiðir.Í sumar langar mig að ganga á Akrafjall, fara yfir Heljadalsheiði, Skjaldbreiður væri skemmtileg, Vífilsfellið er líka á listanum. Svo gæti ég vel hugsað mér að ganga Fimmvörðuháls í sólskini með útsýni en ekki í rigningu og þoku eins og ég gerði fyrir löngu. Og svo langar mig svakalega að ganga Laugaveginn. Og þetta er bara brot af því sem er á óskalistanum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband