Færsluflokkur: Tónlist

Chris Isaak - alltaf góður

Ég hafði hugsað mér að fara niður til Seattle á Bumbershoot tónlistarhátíðina, en til þess varð ég að vakna snemma. Þegar ég vaknaði klukkan ellefu var ljóst að ekkert yrði úr Bandaríkjaferð. Ég hefði auðvitað getað stillt vekjaraklukkuna en spáð var rigningu og það er ekkert sérlega skemmtilegt að þvælast um rennblautt tónleikasvæði.

Í staðinn fór ég í fertugsafmæli Gunnars og síðan á tónleika með Chris Isaak. Tónleikarnir voru hluti af sumartónleikaröð PNE skemmtunarinnar en þar er sambland af tívólíi, mörkuðum, hundasýningum o.s.frv. Miðinn kostaði sirka 1200 krónur sem er býsna gott verð fyrir topp músíkant eins og Chris Isaak.

Ég kynntist fyrst tónlist Chris þegar ég bjó á Gamla Garði fyrir mannsaldri. Bandarísk stelpa, Rachel, sem bjó a garði, var með kassettu með einni af plötum hans. Þar var meðal annars hið stórgóða lag Wicket Games en vídeóið við það lag var nýlega kosið annað kynþokkafyllsta tónlistarmyndband allra tíma. Ég hefði sett það í fyrsta sæti.

Chris er frábær á tónleikum. Hann er fyndinn og talar mikið. Sérstaklega hefur hann gaman af að stríða félögum sínum í hljómsveitinni Silvertones og þá sérlega Kenney Dale Johnson. Hann vann auðvitað Vancouverbú strax á sitt band í opnunarlaginu þar sem hann söng 'I'm the original Canadian boy'. Upphaflega lagið segir auðvitað 'american boy'. Hann sagðist líka vera ánægður með að vera kominn heim aftur, en hljómsveitarmeðlimir bjuggu í Vancouver í rúm þrjú ár á meðan á framleiðslu 'Chris Isaak Show' sjónvarpsþáttanna stóð. Bassaleikara hljómsveitarinnar, Rowland Salley, leið svo vel hér að hann fór aldrei til baka og bættist þar með í vaxandi hóp fræga fólksins sem býr í Vancouver.

Rowland Salley er líka virkilega góður lagasmiður. Fyrir býsna mörgum árum gerði hann sólóplötu og þar var meðal annars lagið 'Killing the blues'. Margir hafa gert eigin útgáfu af laginu en í fyrra voru það Robert Plant og Alicia Krauss sem endurgerðu lagið og sú útgáfa af laginu fékk Grammy verðlaunin...ég held sem besta kántrílag eða eitthvað svoleiðis. Þegar Chris sagði okkur frá þessu byrjaði hann:

Ein besta tilfinning sem tónlistamaður getur fundið er sú þegar hann vinnur Grammy....Eða það get ég ímyndað mér.

Rowland tók lagið fyrir okkur og þótt hann sé ekki endilega góður söngvari þá er lagið dásamlegt. Set það líka inn hér að neðan. Svo virðist sem hann fái að syngja þetta lag nú á tónleikum eftir að hann fékk Grammy verðlaunin. Chris grínaðist reyndar eftir lagið og sagði: Svona svona, slakið á. Þetta var ágætt en svo sem ekkert sérstakt. 

Spáð hafði verið rigningu og áður en tónleikarnir hófust var eins og hellt væri úr fötu. Chris spilaði í tæpa tvo tíma í dásamlegu veðri. Innan við hálftíma eftir að tónleikunum lauk byrjaði að rigna aftur. Held hann hljóti að hafa gert einhvern samning...

Ég er of þreytt til að telja upp lögin sem hann söng. Ég vil bara segja, ef þið hafið einhvern tímann möguleika á því að fara á tónleika með Chris Isaak and the Silvertones, ekki láta það framhjá ykkur fara. Hann er stórkostlegur á tónleikum. Og nú er ég farin að sofa.

P.S. Myndirnar á síðunni tók ég á tónleikunum í kvöld.

 

Tvennir tónleikar

Ég fór tvisvar sinnum á tónleika síðasta mánuðinn en hef ekki gefið mér tíma til að skrifa um þá.

Green Day - fjórða júlí, General Motors Place, Vancouver, Canada

Upphitunarhljómsveitin var The Bravery. Mér fannst þeir algjörlega hundleiðinlegir og ég gat ekki beðið eftir að þeir hættu að spila og að Green Day kæmu á sviðið. Biðin var löng en að lokum stigu Billie Joe og félagar á svið með Song of the Century og svo beint yfir í 21st Century Breakdown enda var þetta 21st Century Breakdown heimstúrinn. Byrjunin var frábær. Á eftir 21st century breakdown tóku þeir Kown your enemy, siðast East Jesus Nowhere og þar á eftir Holiday - meiriháttar lag. 

En svo kom kafli sem var ekki eins skemmtilegur. Ágætis lög en ekki á sama mælikvarða og fyrstu fimm lögin. Þetta voru lög eins og The Statis Age, Before the Lobotomy, St. Jimmy, Geek Stink Breath og fleiri.

En þeir náðu aftur flugi með Basket Case og fengu meðal annars strák upp á sviðið neðan af gólfi til að syngja lagið með sér. Heppinn strákur. Hann var reyndar ekki sá eini.Ég hef aldrei séð neina hljómsveit áður sem hefur eins mikil samskipti við aðdáendur eins og á þessum tónleikum. Fyrir utan þann sem söng Basket Case drógu þeir lítinn gutta upp á svið og hann dansaði með þeim við eitt lagið; stelpa fékk að koma upp á svið og faðmaði hún Billie Joe í sífellu og síðar fengu þeir strák upp á svið og fékk hann að spila á gítar í Jesus of Suburbia.

Það var alveg greinilegt að hljómsveitin skemmti sér vel. Í miðri American Eulogy tóku þeir lög eins og Shout sem Isley Brothers sungu upphaflega (held ég?) og Stand by me. Á meðan þeir fluttu þessi lög lágu þeir á gólfinu og spiluðu og sungu.

Eftir uppklappið tók við frábær hrina. Fyrst kom Billie Joe einn fram á sviðið með gítarinn og spilaði Good Riddance, eða Time of your Life eins og það er svo oft kallað. Eftir lagið komu hinir aftur út og þeir spiluðu í einni hrinu American Idiot, Jesus of Suburbia, Boulevard of Broken Dreams og Minoriy. Ég man ekki nákvæmlega röðin en ég er nokkuð viss um að þeir enduðu á Minority. Og undir lok lagsins helltust litaðir pappírsmiðar úr loftinu svo það var eins og snjóaði litum á hljómsveitin. 

Þvílíkur endasprettur. Þvílík hljómsveit.

Ég hef séð býsna margar hljómsveitir á sviði en sjaldan hef ég séð neinn skapa þvílíkt show og Billie Joe Armstrong gerði þarna. Hann er snillingur.

 

 

Death Cab for Cutie, 16, júlí, Pacific Coliseum, Vancouver, Canada

Upphitunarhljómsveitirnar voru tvær. Fyrst kom á sviðið Ra Ra Riot og var ég ekki sérlega hrifin. Þeir voru ekki slæmir en það var bara ekkert nýtt eða sérstakt við tónlistina. Ég hafði miklu meira gaman af Vancouver hljómsveitinni The New Pornographers. Þar er samankominn stór hópur tónlistarmanna frá Vancouversvæðinu og tónlistin er hrá, fersk og spennandi. Ég get vel hugsað mér að hlusta meira á þessa hljómsveit. Það er reyndar fyndið að ég hitti fólk sem ég þekki á tónleikunum og þau voru hrifin af Ra Ra Riot en fannst The New Pornographers leiðinlegt band. Sitt þykir hverjum...

 

 

 Mér fannst byrjunin ekki nógu góð hjá Death Cab. Þeir opnuðu tónleikana með The Employment Page sem er alls ekki nógu gott lag til að grípa mann. Skil ekki þessa ákvörðun. No Sunlight sem kom þar á eftir var betra en ekki alveg nógu gott heldur. Það var ekki fyrr en með þriðja lagi, Your heart is an empty room að maður vaknaði almennilega. Síðan tóku þeir Why you'd want to leave me, og þar á eftir kom röð af flottum lögum:  The new year, Photobooth og síðan hið frábæra Grapevine fires. Horfið endilega á vídeóið við það lag sem ég setti hér að neðan. Önnur mögnuð lög voru t.d. Crooked Teeth, Title and Registration og Marching Bands of Manhattan sem er eitt af þeirra betri lögum.

Eftir uppklappið kom Ben einn á svið og söng I'll follow you into the dark - uppáhaldslagið mitt með þeim, og svo tóku þeir Soul Meets Body og enduðu á Transatlanticism.  

Death Cab for Cutie er algjör andstæða við Green Day. Tónlistin er allt önnur auðvitað en sviðsframkoman er einnig ólík. Death Cab eru miklu rólegri og tónleikarnir ganga algjörlega út á tónlistina. Ekki er mikið gert úr ljósasjói eða samskiptum við áheyrendur. Ég var reyndar hissa á því hversu margir komu og hversu margir kunnu lögin. Hljómsveitin hefur verið að vinna sér áhangendur á undanförnum árum en ég hafði ekki gert mér grein fyrir að þeir væru orðnir þetta stórir. En ég skemmti mér alla vega vel. 

Ég myndi líklega gefa Green Day fleiri stjörnur en það myndi varla muna nema einni. Ætli Green Day fengi ekki fjórar af fimm en Death Cab þrjár eða þrjár og hálfa.


 
 
 
Við þetta má bæta að nokkrum dögum eftir Death Cab tónleikana sá ég The Weakerthans niðri á Jericho strönd. Þeir voru að spila á þjóðlagahátíð og þótt ég keypti mig ekki inn gat ég bæði séð og heyrt þar sem ég sat á ströndinni. Þeir voru góðir að venju. Ætli þetta hafi ekki verið fjórða skiptið sem ég sé þá. En ég fæ aldrei leið.

Elvis Perkins - frábær tónlistarmaður

Tónlistarhátíðir eru góður vettvangur til þess að kynnast nýrri tónlist og nýjum tónlistarmönnum. Þó maður uppgötvi ekki nema einn tónlistarmann á hverri hátíð þá er það vel þess virði.

2006 eyddi ég einum tólf dögum á Bluesfest í Ottawa. Þetta er næst stærsta blúshátíð í Norður Ameríku en einnig er töluverð áhersla lögð á popp og rokk. 2006 voru helstu stjörnurnar Mobile, Nelly Furtado, Metric, Sam Roberts, Gloria Gaynor, Blue Rodeo, Live, Etta James, Rihanna, Wilco, Great Big Sea, Bonnie Raitt, Michael Franti & Spearheads, The New Pornographers, Sister Sledge og KC's Boogie Blast sem er í raun KC and the Sunshine band ásamt nokkrum öðrum föllnum stjörnum. Þarna sá ég líka í fyrsta sinn Feist sem þá var orðin þekkt í Kanada en ekki enn orðin að stórstjörnu.

En það sem mér fannst í raun frábærast á þessum tónleikum var að uppgötva tónlist sem ég hafði ekki heyrt áður. Fyrstur þar á lista var Eric Lindell sem vann hjarta minn við fyrstu tóna. Ég hef áður skrifað um hann á þessum síðum svo í staðinn langar mig að tala um hinn tónlistarmanninn sem ég uppgötvaði þetta sumar í Ottawa - Elvis Perkins.

Elvis Perkins er sonur Anthony Perkins, sem frægastur var fyrir leik sinn sem Norman Bates í Hitchcock myndinni Psycho. Móðir hans, ljósmyndarinn Berry Berenson lést í árásinni 11. september 2001.

Tónlistin sem Perkins spilar er nokkurs konar þjóðlagarokkog honum hefur verið líkt við Leonard Cohen, Buddy Hully og The Band.

Þegar ég sá Perkins spila sumarið 2006 var hann ekki enn búinn að gefa út plötu og þótt ég hafi reynt mikið að finna eitthvað með honum á netinu þá gekk það ekkert. Að lokum gafst ég upp.

En um daginn var ég að skoða dagskrána fyrir Bumpershoot hátíðina í Seattle og þá sá ég nafn Perkins á lista yfir þá sem munu leika. Og nú er staða hans allt önnur. Hann er búinn að gefa út tvær plötur, Ash Wednesday 2007 og Elvis Perkins in Dearland 2009. Þó nokkur vídeó eru á YouTube. Ég set inn tvö, Chains Chains Chains og Shampoo af nýju plötunni.

Og já, Elvis heitir í höfuðið á Presley heitnum. Faðir hans var mikill aðdáandi. 


Travis í Vancouver

Ég fór á tónleika með Travis í gær. Þeir voru æðislegir. Ég hafði séð þá spila hér fyrir einum þremur eða fjórum árum en þá spiluðu þeir í nokkurs konar leikhúsi. Að þessu sinni spiluðu þeir á Commodore sem er frábær hljómleikasalur hér í Vancouver. Dansgólfið er risastór og maður getur staðið örfáa metra frá hljómsveitinni. Ég sá Muse spila hér tvisvar.

Ég fór með Lizu og Matthew og við skemmtum okkur konunglega.

Upphitunarhljómsveitin, The Republic Tigers, var virkilega góð og Travis voru hreint út magnaðir Það verður að segjast að Francis Healy er frábær á sviði. Hann kom nokkrum sinnum alveg að okkur (kom allt að hálfum metra í burtu frá mér) og í eitt skiptið stökk hann hreinlega út í þvöguna og söng á meðan hann labbaði í gegnum fólksfjöldann. Hann hélt því fram að það hafi aldrei verið káfað eins mikið á honum áður! Sagðist ætla aftur þarna út á meðal áhorfenda.

Toppurinn (fyrir mig) var þegar strákarnir söfnuðust allir í kringum Francis og á meðan hann spilaði einn á gítar, sungu saman Flowers in the window. Ég tók það upp (eins og allir aðrir á staðnum sennilega) og set það hér inn (sjá neðst á síðunni). Það er auðvitað svolítið hreyfing á bandinu af því að ég þurfti að halda vélinni hátt yfir höfði mínu til þess að hausar strákanna fyrir framan mig væru ekki inn á. Og svo var fólk alltaf að rekast á mann þegar það vaggaði sér.

Ef þið hafið einhvern tímann tök á því að sjá Travis á sviði - skellið ykkur!

 


Obama og Alanis

Hinn fjórði nóvember er mikill gleðidagur og það er notalegt að hafa aftur öðlast trú á nágrönnum mínum í suðri. Reyndar kusu 48% Repúblikana, sem er í sjálfu sér skelfilegt, en meiri hlutinn kaus samt sem áður Obama og loksins finnst mér ég geta treyst forseta Bandaríkjanna.

Ég horfði með aðdáun á þennan glæsilega og gáfaða mann flytja ræðu sína eftir að ljóst var að hann hefði borið sigurorð af McCain hinum aldraða, og gladdist ákaflega. Mikið vildi ég að hún Ellen frænka mín hefði lifað nógu lengi til að sjá Barak Obama kosinn næsta forseta landsins hennar en hún hataði Bush meir en nokkur önnur manneskja sem ég þekki. En það gekk ekki eftir því Ellen lést fyrir mánuði. En hún hefði alla vega orðið ánægð með að ríkið hennar, Oregon, kaus demókrata (held reyndar að Oregon kjósi alltaf demókrata).

img_0378.jpgÉg var á tónleikum með Alanis Morissette þegar ég heyrði af sigri Obama. Það var náunginn sem hitaði upp fyrir hana sem tilkynnti sigurinn og umsvifalaust fóru allir að texta vinum og vandamönnum og enginn hlustaði á strákinn. Það var líka allt í lagi, við komum öll til að hlusta á Alanis.

Tónleikarnir voru magnaðir. Um helmingur laganna voru af snilldarplötunni Jagged Little Pill sem mér finnst vera besta kanadíska plata allra tíma og ein bestu platna sem gerðar hafa verið. Ég hlustaði á hana daginn út og inn þegar ég var að skrifa mastersritgerðina mína og ég mun aldrei fá leið á þessum lögum. Platan er fullkomin. Það var því magnað að hlusta á lögin flutt á sviði hins dásamlega Orpheum leikhúss í Vancouver og Alanis var svo sannarlega í essinu sínu. Þvílík orka sem stúlkukindin hefur. Eini gallinn er að lögin sem hún samdi eftir Jagged Little Pill eru ekki nálægt því eins góð. 

Og til að fullkomna kvöldið frétti ég eftir tónleikana að Canucks hefðu unnið Nashville 4-0 þannig að það má segja að allt sé þá þrennt er: Canuckssigur, frábærir tónleikar og Barak Obama næsti forseti Bandaríkjanna. Ég get ekki beðið um betra kvöld. 


mbl.is Obama kjörinn forseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tónlistarlífið í Vancouverborg

Tónlistarlífið í Bresku Kólumbíu er blómlegt og héðan hafa komið ýmsar stórstjörnur svo sem Michael Bublé, Nelly Furtado, Gob, Matthew Good, Be Good Tanyas, Hot hot Heat, Diana Krall, 54-40, Swollen Members, og margir aðrir hafa sest hér að eins og Bryan Adams, Nickelback, Ringo Starr (að hluta til), Sarah McLachlan, Bif Naked, ofl.

Þá koma hingað flestar stórstjörnur og spila á tónleikum, ásamt aragrúa minna þekktra tónlistarmanna. Það er hægt að fara á nokkra spennandi tónleika í hverri viku.

En það sem er kannski mikilvægast og það sem myndar ræturnar fyrir allt hitt, er tónlistin sem spiluð er á börum og klúbbum á hverju einasta kvöldi.

Liza sem vinnur með mér á vinkonu sem heitir Monica Lee og er jazz/blús söngkona hér í borg. Hún spilar á hverju fimmtudagskvöldi á stað sem heitir The Libra Room. Þau eru bara þrjú í bandinu, Monica, gítarleikarinn og trommuleikarinn (sem er guðdómlegur). Hljómurinn er hreinn og fallegur og þau spila hreinlega í glugganum á staðnum og á sumarkvöldum er opið út svo fólkið á Commercial Drive (ein aðal hip-gatan í borginni) sem á leið fram hjá getur staldrað við og hlustað. Ég er búin að fara tvisvar með Lizu og hlusta á þau og á pottþétt eftir að fara aftur og aftur. Ég er meira að segja að hugsa um að plana Íslendingahitting á Libra Room einhvern tímann fljótlega en áður en að því kemur held ég að ég dragi þangað nöfnu Sigfúsar og Óla sem koma hingað í heimsókn í vikunni.

Hér fyrir neðan má heyra nokkur lög sem tekin voru upp á Libra Room í fyrra. Fyrsta lagið finnst mér sérstaklega magnað en þar má heyra sígunatóninn sem oft skýtur upp í tónlist Monica, sem er af sígunaættum. Trommarinn þarna er ekki sá sem spilar með henni núna (þessi er ekki eins guðdómlegur). Liza spurði annars Monicu út í trommarann (Liza er alltaf hrifin af tónlistarmönnum) og fékk svarið: "He's got a girlfriend but he's been swinging a lot lately". Hmmmm...er það gott eða ekki? Það fer væntanlega eftir því hvað Liza vill með hann.

 

 

 

 

 


Bumbershoot tónlistarhátíðin

Ég gerði góða ferð til Seattle í gær. Fór með Emmu sem vinnur með mér hjá Vanoc og Clint vini hennar á Bumbershoot tónlistarhátíðina. Þetta er risastór hátíð með fjölmörgum sviðum og stendur í þrjá daga. Aðalnúmer hátíðarinnar eru Beck, Stone Temple Pilots og Death Cab for Cutie. Beck spilaði í gær (hinar hljómsveitirnar í dag og á morgun) en við komum of seint til að fá miða. Við lögðum ekki af stað frá Vancouver fyrr en um hálfellefu og svo var að komast yfir landamærin o.s.frv., fá okkur hádegisverð...klukkan var orðin um fimm þegar við komum á svæðið og öll armböndin sem þurfti til að komast inn á stærsta leikvanginn þar sem Beck spilaði, voru búin. Okkur var eiginlega alveg sama. Beck er flottur en það var svo margt að sjá.

Það sem er skemmtilegast við svona hátíðir er einmitt að ráfa á milli sviða og hlusta á alls kyns tónlist sem maður myndi aldrei annars hlusta á.

Fyrst þegar við komum var Joe Bonamassa að spila á Starbuckssviðinu og hann var ótrúlegur. Rokkblúsari sem virtist geta spilað hvað sem var. Ég hafði aldrei heyrt í honum áður en varð yfir mig hrifin. Blús er æðislegur og þessi var magnaður. En okkur Emmu langaði báðar að fara með hann í klippingu og kaupa á hann ný föt. Áhorfendur þarna voru flottir. Flestir voru gamlir hippar sem höfðu ekkert breyst í fjörutíu ár en fílingurinn var flottur. Enda ansi margir á einhverju. Hlustið á þetta lag. Það er mjög langt gítarspil fyrst og svo hefst söngurinn. Magnað alveg.

 

Næst röltum við niður að Fisher Green sviðinu og hlustuðum á Estelle sem er hipp hoppari. Ég er ekki hrifin af svoleiðis tónlist en hún hafði áheyrendur (sem flestir voru á tvítugs- og þrítugsaldri) algjörlega í vösum sér.

 

Á eftir Estelle byrjaði Saul Williams að syngja en það var hræðileg tónlist (eitthvað á milli rapps og pönks) svo við flúðum yfir að Starbuckssviðinu aftur þar sem eitthvað undarlegt var í gangi, svo við héldum áfram niður að Rockstar sviðinu og hlustuðum á Man Man. Það var nú undarleg tónlist en við hrifumst með og hoppuðum af kæti. Ég veit ekki hvað það var við þessa náunga sem var svona magnað, kannski bara orkan í þeim, en allir voru í stuði.

 

Við fórum aftur að Starbuckssviðinu því Clint lofaði mikið næstu hjómsveit þar, Nada Surf. Komið var myrkur og við fundum okkur stað á grasinu, lögðum niður teppi og fengum okkur lúr. Nada Surf voru flottir en þeir náðu eiginlega ekki að hrífa áhorfendur með sér. Ég veit ekki af hverju. Kannski eru þeir of venjulegir. Þeir eru ekki að gera neitt sem fjöldi annarra hljómsveita er ekki að gera líka. En mér fannst þetta ákaflega notalegt. Ég lá þarna á jörðinni, hlustaði á góða tónlist og horfði á stjörnurnar og Geimnálina í Seattle (Space Needle - stór turn sem einkennir borgina) sem var böðuð ljósum. 

 

 Þegar okkur var orðið þokkalega kalt löbbuðum við yfir að vellinum þar sem Beck var að spila. Eins og fyrr segir komumst við ekki inn en við gátum hlustað. Svo við hlustuðum á nokkur lög og fórum svo heim. Vorum ekki komin heim fyrr en um hálfþrjú um nóttina - þreytt en ánægð. 

 


Kíkið endilega á þetta

Þegar ég var með Martin fyrir tveim árum eyddi hann stórum hluta frítíma síns í það að pródúsera og hljóðblanda plötu sem Bruno vinur hans var að búa vinna að. Ég kom nokkrum sinnum í hljóðverið og fylgdist með því sem hann var að gera. Ég hafði aldrei áður fylgst með vinnslu á plötu svo þetta var mjög áhugavert. Við Martin ásamt Neal vini hans ræddum mikið um sönginn hjá Bruno sem okkur fannst ekki nógu góður. Strákurinn hefur tónlistarhæfileika, það er ekki spurning, sérstaklega sem lagasmiður, en öll lögin voru eiginlega sungin eins og hann sæti á klósettinu með harðlífi. Martin hafði reynt að fara fínt í þetta og fá hann til að breyta og Neal hafði sungið nokkur lögin fyrir hann til að sýna honum hvað hann gæti prófað, en Bruno var greinilega ánægður með harðlífissönginn og hvorki Martin né Neal gátu sannfært hann um annað.

Ég man líka að Bruno var alveg ákveðinn í því að hann ætlaði að spila á öll hljóðfærin sjálfur en takturinn hjá honum var ekki alltaf upp á það besta. Það var sérlega í einu lagi sem trommuleikurinn hjá honum var aldrei í lagi. Martin var búinn að spila þetta fyrir hann upp aftur og aftur en Bruno náði þessu aldrei. Martin bauðst til að sjá um trommurnar á plötunni en það vildi hann ekki - þá spilaði hann ekki sjálfur á öll hljóðfærin.

Ástæða þess að ég minnist á þetta núna er sú að í kvöld sá ég vídeó við eitt laga Brunos. Söngurinn er enn sá sami og hann var fyrir tveim árum en það sem er merkilegast er að hann hefur leyft Martin að spila á trommurnar fyrir sig og gerir hann það býsna vel að mínu mati. Martin gerði líka myndbandið og mér finnst teikningar hans æðislegar. Hér getur maður sér hvernig minimalisminn getur stundum virkað flott.  

 



Ég bæti við öðru myndbandi sem Martin gerði fyrir nokkrum árum. Það er tekið við Belleveau Cove í Nova Scotia sem er við Bay of Fundy. Fundy flóinn er, eins og margir vita, þekktur fyrir ótrúlegan mun á flóði og fjöru. Það sem Martin gerði var að setja myndavél í gluggann á veitingahúsi við bryggjuna og lét myndavélina taka mynd á sirka þriggja mínútna fresti í 24 klukkutíma. Síðan skeytti hann þessu saman og setti tónlist við (eftir Mark DuCap). Útgáfan hér er stysta útgáfan sem hann gerði, spiluð hraðar og nær ekki alla 24 tímana heldur endar um nóttina. En það ætti að duga til þess að sjá hversu ótrúlega fjarar þarna. Bátarnir liggja bara í sandinum. Vona að þið njótið þessa. 


Mugison rúllaði yfir Queens of the Stone Age

Í gær fór ég í góðum hópi Íslendinga á Mugison tónleika hér á PNE Forum. Opinberlega voru þetta reyndar Queens of the Stone Age tónleikar og Mugison hitaði upp fyrir þá, en Mugison er bara miklu betri en QofSA og aðalástæðan fyrir því að ég fór þarna.

Mugison steig á svið sirka korter í átta og hóf tónleikana með krafti. Hann hreif með sér þá áhorfendur sem höfðu safnast saman fyrir framan sviðið og ég sá að margir þarna virtust ákaflega ánægðir með strákana frá Íslandi. Reyndar var aðeins um þriðjungur tónleikagesta inni í salnum á þessum tíma, afgangurinn var frammi  í anddyri að drekka bjór en liðið vissi ekki af hverju það missti. Þarna mátti heyra lög eins og The Pathetic Anthem, Jesis is a good name to moan, Two thumb sucking son of a boy og fleiri af nýju plötunni, og alla vega Murr murr af þeirri síðustu. Strákarnir voru vel rokkaðir og takturinn þungur. Ég þekkti varla Murr murr, svo ólíkt var það acoustic útgáfunni. Ég verð reyndar að viðurkenna að mér finnst Mugison án bands betri en Mugison með bandi, en það er kannski vegna þess að maður heyrir snilli hans betur þegar hann er einn með gítarinn, eða fær kannski hjálp frá Pétri Ben. En ég er líka enn í miðri hlustun á Mugiboogie. Ég er nýbúin að fá plötuna og þótt mér finnist hún ennþá ekki eins góð og This is mugimama þá eru þarna nokkur mögnuð lög. Ég þarf að hlusta meira áður en ég geri upp hug minn. 

Queens of the Stone Age voru ekki nálægt því eins góðir og á tímabili leiddist mér. Þeir hafa reyndar gert nokkur ágætis lög, svo sem Go with the Flow, The Lost Art of Keeping a Secret og að mínu mati besta lagið þeirra No one knows. Málið er bara að þeir eru bestir þegar þeir syngja svona mellow alternative tónlist. Upp á síðkastið hafa þeir verið að þyngja taktinn en það gleymdist bara að láta söngvarann vita af því. Hann heldur áfram að syngja með svona bljúgri melódískri rödd á meðan hljóðfærin eru hörð og þétt. Það passar hreinlega ekki saman og maður veit ekki hvernig á að taka þessari tónlist. 

Eftir tónleikana safnaðist Íslendingagengið saman eftir að hafa dreifst út um allan sal - nema Reynar sem komst víst baksviðs. Við hin skildum systkini hans eftir þar sem þau biðu eftir því að hann kæmi til baka, og héldum sjálf vestureftir til UBC.

 

 


Fullt af frábærum tónleikum í boði

Ég hef ekki farið á neina tónleika síðan ég sá Velvet Revolver/Alice in Chains í haust. Þetta er að hluta til vegna þess að ég hef verið að reyna að spara pening en einnig vegna þess að það hafa ekki komið hingað nein bönd sem mig langaði alveg ægilega að sjá. Reyndar var Brúsi Springsteen hér í gær en ég hef eiginlega ekkert hlustað á hann síðan á níunda áratugnum þannig að ég lét ekki freistast.

Núna á einni viku frétti ég hins vegar að því að á næstunni yrðu hér:
1. Oasis með Ryan Adams og The Cardinals
2. REM með Modest Mouse og The Nationals
3. Queens of the Stone Age með Mugison

Ég vildi gjarnan fara á alla þessa tónleika en er ekki viss um að ég hafi efni á því.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband