Chris Isaak - alltaf góður

Ég hafði hugsað mér að fara niður til Seattle á Bumbershoot tónlistarhátíðina, en til þess varð ég að vakna snemma. Þegar ég vaknaði klukkan ellefu var ljóst að ekkert yrði úr Bandaríkjaferð. Ég hefði auðvitað getað stillt vekjaraklukkuna en spáð var rigningu og það er ekkert sérlega skemmtilegt að þvælast um rennblautt tónleikasvæði.

Í staðinn fór ég í fertugsafmæli Gunnars og síðan á tónleika með Chris Isaak. Tónleikarnir voru hluti af sumartónleikaröð PNE skemmtunarinnar en þar er sambland af tívólíi, mörkuðum, hundasýningum o.s.frv. Miðinn kostaði sirka 1200 krónur sem er býsna gott verð fyrir topp músíkant eins og Chris Isaak.

Ég kynntist fyrst tónlist Chris þegar ég bjó á Gamla Garði fyrir mannsaldri. Bandarísk stelpa, Rachel, sem bjó a garði, var með kassettu með einni af plötum hans. Þar var meðal annars hið stórgóða lag Wicket Games en vídeóið við það lag var nýlega kosið annað kynþokkafyllsta tónlistarmyndband allra tíma. Ég hefði sett það í fyrsta sæti.

Chris er frábær á tónleikum. Hann er fyndinn og talar mikið. Sérstaklega hefur hann gaman af að stríða félögum sínum í hljómsveitinni Silvertones og þá sérlega Kenney Dale Johnson. Hann vann auðvitað Vancouverbú strax á sitt band í opnunarlaginu þar sem hann söng 'I'm the original Canadian boy'. Upphaflega lagið segir auðvitað 'american boy'. Hann sagðist líka vera ánægður með að vera kominn heim aftur, en hljómsveitarmeðlimir bjuggu í Vancouver í rúm þrjú ár á meðan á framleiðslu 'Chris Isaak Show' sjónvarpsþáttanna stóð. Bassaleikara hljómsveitarinnar, Rowland Salley, leið svo vel hér að hann fór aldrei til baka og bættist þar með í vaxandi hóp fræga fólksins sem býr í Vancouver.

Rowland Salley er líka virkilega góður lagasmiður. Fyrir býsna mörgum árum gerði hann sólóplötu og þar var meðal annars lagið 'Killing the blues'. Margir hafa gert eigin útgáfu af laginu en í fyrra voru það Robert Plant og Alicia Krauss sem endurgerðu lagið og sú útgáfa af laginu fékk Grammy verðlaunin...ég held sem besta kántrílag eða eitthvað svoleiðis. Þegar Chris sagði okkur frá þessu byrjaði hann:

Ein besta tilfinning sem tónlistamaður getur fundið er sú þegar hann vinnur Grammy....Eða það get ég ímyndað mér.

Rowland tók lagið fyrir okkur og þótt hann sé ekki endilega góður söngvari þá er lagið dásamlegt. Set það líka inn hér að neðan. Svo virðist sem hann fái að syngja þetta lag nú á tónleikum eftir að hann fékk Grammy verðlaunin. Chris grínaðist reyndar eftir lagið og sagði: Svona svona, slakið á. Þetta var ágætt en svo sem ekkert sérstakt. 

Spáð hafði verið rigningu og áður en tónleikarnir hófust var eins og hellt væri úr fötu. Chris spilaði í tæpa tvo tíma í dásamlegu veðri. Innan við hálftíma eftir að tónleikunum lauk byrjaði að rigna aftur. Held hann hljóti að hafa gert einhvern samning...

Ég er of þreytt til að telja upp lögin sem hann söng. Ég vil bara segja, ef þið hafið einhvern tímann möguleika á því að fara á tónleika með Chris Isaak and the Silvertones, ekki láta það framhjá ykkur fara. Hann er stórkostlegur á tónleikum. Og nú er ég farin að sofa.

P.S. Myndirnar á síðunni tók ég á tónleikunum í kvöld.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Takk Stína Tónlistargagnrýnandi!

Magnús Geir Guðmundsson, 6.9.2009 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband