Íslensk ungmenni í pólitík

Ég horfði á nýlegan þátt af Silfri Egils (takk fyrir hlekkinn Berglind) þar sem fram komu nokkrir unglingar frá stjórnmálaflokkunum. Hér er það sem fór í gegnum hugann á meðan ég horfði (ja hlustaði):

1. Egill er býsna góður þáttastjórnandi, og er sérlega góður í að stýra umræðum, en hann er hrikalegur þegar kemur að því að gera yfirlit yfir málefni. Í upphafi þáttarans var hann með nokkurs konar einræðu, sem hann meira og minna las af blaði, og það var hrikalega skrikkjótt. Hrynjandin var hræðilega óeðlileg því hann var með þagnir eftir svona fjórða hvert orð og alls ekki endilega á mikilvægum stöðum. Egill minn, reyndu nú endilega að tala í eðlilega samfelldu máli. Þetta gerist ekki þegar hann er að stýra umræðum enda talar hann þar blaðlaust. Ég held þetta sé lesstíll hjá honum.

2. Ég er búin að missa af heilu kynslóðunum í pólitík. Ég þekkti engan af þessum krökkum sem voru fulltrúar flokkanna í heimsókn hjá Agli. (Jón kom ekki fyrr en síðast og ég missti af mestu því sem hann sagði.)

3. Krakkarnir voru almennt séð býsna góðir og þolanlega málefnalegir en stundum vottaði fyrir svona hálfgerðum óþroska. Mér fannst líka oft vanta á samræðutæknina. Ein stelpan sagði t.d.: "Æi, þú skilur hvað ég meina." Svarið var: "Nei, ég skil það nú eiginlega ekki."

4. Ég man ekki nafnið á neinum en myndaði mér eftirfarandi skoðanir:

a. Strákurinn fyrir Samfylkinguna var býsna góður. Málefnalegur og fróður. Ég var samt alls ekki sammála honum í öllu, en það er nú alveg eðlilegt því ég er alls ekki sammála Samfylkingunni í öllu.

b.  Sjálfstæðisstelpan var undir orrahríð allan þáttinn og kom þolanlega út úr því. Fannst hún samt frekar veik. En það getur ekki verið auðvelt að verja gjörðir Sjálfstæðisflokksins.

c. VG stelpan. Mér fannst hún mjög skörugleg en hún gjammaði full mikið. Ég var farin að fá pínulítið leið á henni.

d. Íslandshreyfingsstelpan. Hún var svona upp og ofan. Stóð sig mjög vel í sumu en ekki svo vel í öðru. Mér fannst hræðilegt þegar hún sagði: "Við erum með skýrt agenda." Það er nú ekki nógu gott . Þetta lið verður að tala þokkalegt mál ef það kemur fram sem fulltrúar sinna flokka.

f. Bíddu...var enginn frá Framsókn? Eða var viðkomandi svo litlaus að ég er þegar búin að gleyma honum/henni? 

5. Það er orðið langt síðan ég hef horft á skemmtilegar rökræður um pólitík og ég hafði virkilega gaman af þessum þætti. Nú þegar ég veit að ég get horft á Silfur Egils á netinu þá mun ég gera meira af því. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Glöggt er "gests" augað! Sé að ég missti að Silfrinu síðast. Góð þessi tækni að geta horft á Netinu!

Kveðja yfir hafið!

Guðríður Haraldsdóttir, 28.3.2007 kl. 08:24

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Hahhhaha.

a) Ágúst Ólafur Ágústsson hefur verið á þingi heilt kjörtímabil og er varaformaður Samfylkingarinnar. b) Erla Ósk Ásgeirsdóttir sigraði Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur í formannskjöri til Heimdallar í vetur. c) Andrea Ólafsdóttir er í framboði fyrir Vinstri græna núna, man ekki í hvaða sæti en miðað við skoðanakannanir er hún áreiðanlega a.m.k. varaþingmannsefni. Þetta var í annað skipti sem ég sé hana í sjónvarpi. d) Ósk Vilhjálmsdóttir er leiðsögumaður, göngugarpur og aðstandandi Framtíðarlandsins sem raðar fólki í grátt eða grænt. Ómar Ragnarsson er formaður og Margrét Sverrisdóttir varaformaður í bráðabirgðastjórn Íslandshreyfingarinnar, Ósk og svo Jakob Frímann Magnússon meðstjórnendur.

Púff, ég veit ekki hvort ég get lagt meira á þig í bili en segi þó það að óvenjulega mikill kvenleiki sveif yfir þættinum og Agli Helgasyni tókst að sama skapi betur upp við stjórnina en yfirleitt.

Berglind Steinsdóttir, 28.3.2007 kl. 09:34

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk kærlega fyrir upplýsingarnar Berglind. Mér fannst þessi strákur svolítið kunnuglegur að sjá. Skil núna af hverju. Skil núna líka af hverju hann var heldur betri en stelpurnar. Hefur greinilega miklu meiri reynslu. 

En ertu sem sagt að segja að Egill hafi verið óvenju góður stjórnandi í þessum þætti? Þannig að hann er það vanalega ekki? Ég hef nefnilega séð mjög lítið af honum. Hann var eitthvað byrjaður að vera með þætti þegar ég bjó enn heima en ég sá þá sjaldan. Hef síðan fyrst og fremst heyrt af þessum Silfurþáttum. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 28.3.2007 kl. 15:47

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég er reyndar aðdáandi Egils en hann hefur oft leyft of mikinn kjaftagang sem bitnar á skilningi áhorfenda/áheyrenda.

Þú nefnir reyndar ekki þá sem komu síðar í þættinum, Svein Hannesson frá Samtökum iðnaðarins, Gunnar Svavarsson í Hafnarfirði (Samfylkingu) og Hjörleif Guttormsson. Svo var líka Eiríkur Bergmann Einarsson, Evrópuspesíalisti á Bifröst, í lokin. Þá er úthald mitt líka oft á undanhaldi.

Berglind Steinsdóttir, 28.3.2007 kl. 16:41

5 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Já, ég var orðin of syfjuð þegar þar að kom í þættinum til að skrifa um það. Asnaðist til að fara að horfa á þetta löngu eftir háttatíma og fór ekki í rúmið fyrr en að verða eitt um nóttina. Þátturinn er eiginlega of langur því þetta var allt mjög áhugavert efni. Ég þarf líklega að horfa á þetta fyrr á daginn svo ég endist.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 28.3.2007 kl. 17:05

6 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég skal bara rapportera á sunnudagskvöldum og láta þig vita hvort það er þess virði - hehe. Stundum tala sumir viðmælendur nefnilega svo hver ofan í annan að öll spekin kafnar í sjálfri sér. En ég get ekki látið þetta á móti mér ...

Berglind Steinsdóttir, 28.3.2007 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband