Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Obama og Alanis

Hinn fjórði nóvember er mikill gleðidagur og það er notalegt að hafa aftur öðlast trú á nágrönnum mínum í suðri. Reyndar kusu 48% Repúblikana, sem er í sjálfu sér skelfilegt, en meiri hlutinn kaus samt sem áður Obama og loksins finnst mér ég geta treyst forseta Bandaríkjanna.

Ég horfði með aðdáun á þennan glæsilega og gáfaða mann flytja ræðu sína eftir að ljóst var að hann hefði borið sigurorð af McCain hinum aldraða, og gladdist ákaflega. Mikið vildi ég að hún Ellen frænka mín hefði lifað nógu lengi til að sjá Barak Obama kosinn næsta forseta landsins hennar en hún hataði Bush meir en nokkur önnur manneskja sem ég þekki. En það gekk ekki eftir því Ellen lést fyrir mánuði. En hún hefði alla vega orðið ánægð með að ríkið hennar, Oregon, kaus demókrata (held reyndar að Oregon kjósi alltaf demókrata).

img_0378.jpgÉg var á tónleikum með Alanis Morissette þegar ég heyrði af sigri Obama. Það var náunginn sem hitaði upp fyrir hana sem tilkynnti sigurinn og umsvifalaust fóru allir að texta vinum og vandamönnum og enginn hlustaði á strákinn. Það var líka allt í lagi, við komum öll til að hlusta á Alanis.

Tónleikarnir voru magnaðir. Um helmingur laganna voru af snilldarplötunni Jagged Little Pill sem mér finnst vera besta kanadíska plata allra tíma og ein bestu platna sem gerðar hafa verið. Ég hlustaði á hana daginn út og inn þegar ég var að skrifa mastersritgerðina mína og ég mun aldrei fá leið á þessum lögum. Platan er fullkomin. Það var því magnað að hlusta á lögin flutt á sviði hins dásamlega Orpheum leikhúss í Vancouver og Alanis var svo sannarlega í essinu sínu. Þvílík orka sem stúlkukindin hefur. Eini gallinn er að lögin sem hún samdi eftir Jagged Little Pill eru ekki nálægt því eins góð. 

Og til að fullkomna kvöldið frétti ég eftir tónleikana að Canucks hefðu unnið Nashville 4-0 þannig að það má segja að allt sé þá þrennt er: Canuckssigur, frábærir tónleikar og Barak Obama næsti forseti Bandaríkjanna. Ég get ekki beðið um betra kvöld. 


mbl.is Obama kjörinn forseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð staða í forsetaslagnum

Repúblikanar hafa yfirleitt hlotið mun fleiri atkvæði en demókratar frá heitttrúuðu kristnu fólki og í undanförnum forsetakosningum hafa þeir t.d. fengið um sjötíu prósent atkvæða fólks úr evangelísku kirkjunni. Margir þessa, sérstaklega í hinu djúpa suðri myndu fremur sitja heima á kjördag en kjósa kandídat sem brýtur gegn lífsgildum evangelísku kirkjunnar. 

Nú eru Repúblikanar því komnir í vanda. Þeir tveir sem berjast um tilnefningu eru hinn þrígifti Rudi Giuliagni og hinn tvígifti Fred Thompson. Hvorugur þeirra fer reglulega í kirkju. Sá eini trúaði sem kemur til greina er mormóni og það myndi aldrei sitja vel í suðrinu.

Demókratar, hins vegar, munu annað hvort tefla fram Hillary Clinton eða Barak Obama, sem bæði eru enn gift æskuástinni sinni og bæði fara í kirkju á hverjum sunnudegi. 

Munu hinir heitttrúuðu kjósa trúlausa Repúblikana, trúaða Demókrata (sem þó eru hlynntir fóstureyðingum og giftingum samkynhneigðra) eða munu þeir sitja heima á kjördag? Að mínu mati er ljóst að ef þeir taka annan eða þriðja kostinn þá verður næsti forseti Bandaríkjanna Demókrati. 


Um innflytjendaraunir

Ég hef búið í Kanada í átta ár og alltaf verið hér á tímabundnu leyfi. Fyrst á tímabundnu atvinnuleyfi og nú á tímabundnu námsleyfi ('leyfi' í  merkingunni 'permit' ekki eins og í leyfi frá atvinnu eða námi).

Fyrir tæpum þremur árum sótti ég um ótakmarkað dvalarleyfi, svo kallað 'permanent residency'. Af því að ég bjó þá þegar í landinu byrjaði ég á því að senda umsókn mína til Calgary þangað sem maður sendir slíkar umsóknir ef maður er í landinu. Vinur minn hafði gert það tveimur árum áður og það tók sex mánuði áður en hann fékk leyfið í hendur. Fjórum mánuðum eftir að ég sendi inn mína umsókn fékk ég hana hins vegar í hausinn og var mér sagt að ég yrði að sækja um leyfið í sendiráði utan Kanada. Fjórum mánuðum var því eytt í vitleysu og nokkrum þar til viðbótar því ég þurfti að borga gjöldin á annan hátt og það tók tíma og svo var ég svo fúl að ég sendi umsóknina ekki inn strax.  

Ég sendi umsóknina svo loks til London í lok júní 2005 og samkvæmt bréfi frá Canada high commission í London fengu þeir hana í hendur 4. júlí sama ár. Síðan leið og beið og ekkert gerðist. Í lok febrúar fékk ég loks bréf frá London um að fjórum mánuðum síðar myndu þeir loks fara að skoða umsóknina mína, en af því að fjögur ár voru liðin frá upphaflegu umsókninni yrði ég að endursenda ýmis gögn, svo sem lögregluskýrslur, fjárhagsstöðu og fleiri. Það tók því tíma og peninga að fá þetta allt og senda á ný með öryggispósti til London. Samkvæmt bréfinu átti að taka umsókn mína fyrir í júní. Nú er kominn ágúst og ég hef ekkert heyrt frá þeim.

Nýlega vaknaði ég svo upp af vondum draumi vegna þess að ég mundi að námsleyfið mitt var einungis gefið til fjögurra ára. Það rennur því út í lok september (fyrst hélt ég í lok ágúst). Ég get beðið í tæpa tvo mánuði og vonað að hitt leyfið komi loks áður en september lýkur, eða ég get sótt um framlengingu á námsleyfinu. Það kostar auðvitað um 7500 plús kostnaðinn við að fá opinber gögn frá skólanum (um að ég sé enn í námi), opinber göng frá bankanum (um fjárhagsstöðu mína) og kostnaðinn við að senda umsóknina í ábyrgðarpósti. Þetta verður því alla vega tíu þúsund krónur. Mér finnst auðvitað eins og ég sé að kasta þeim peningum á eldinn því ef hin umsóknin kemst í gegn á næstu tveimur mánuðum þá þarf ég ekki einu sinni á framlengingu á námsleyfinu að halda. Ég talaði við konu hjá innflytjendaeftirlitinu í dag og hún sagði að ég þyrfti ekki að sækja um framlengingu á námsleyfinu fyrr en á síðustu stundu en ef ég vildi hafa lögleg gögn í höndum þá skyldi ég sækja um ekki síðar en í næstu viku.

Ég er alltaf að hugsa um að fara kannski til Íslands í heimsókn í haust en ég þori ekki einu sinni að kaupa miða fyrr en öll mín mál eru pottþétt. Þori ekki að fara úr landi ef ske kynni að mér yrði neitað inngöngu. 

Skriffinnskan í Kanada er með ólíkindum. 


Hvort þeirra vinnur?

Ég fæ ekki að kjósa í amerísku kosningunum, fremur en aðrir Íslendingar, en það stoppar mann ekki frá því að kynna sér málin og mynda sér skoðun. Að þessu sinni er það hins vegar óvenju erfitt. Hillary hefur sýnt það að hún er mikill kvenskörungur og hefur hjartað á réttum stað, og ef hún tæki við forsætaembættinu er næsta öruggt að meiri peningum yrði veitt til heilsugæslu og menntunarmála. Hins vegar hef ég mjög hrifist af Barak þegar ég hef séð viðtöl við hann og mér finnst hann mjög traustvekjandi. Og hann hefur einnig sýnt stuðning við þessi "mýkri" mál. Hann hefur mun minni reynslu í pólitík en Hillary en hefur samt sem áður staðið sig geysivel það sem af er þingsetu hans. Í raun held ég að bæði gætu orðið geysilega góðir forsetar. Og ef demókratar vinna með annað þeirra í fararbroddi (og vonandi hitt sem dyggan aðstoðarmann) þá mun landið loksins fá fyrstu konuna eða fyrsta blökkumanninn í forsetastólinn.

Í rauninni óttast ég ekki mikið hvað demókratar munu gera því ég held það sé orðið ljóst að annað hvort Hillary eða Obama verður næsti forsetaframbjóðandi þeirra. Spurningin er hvað sveiflukjósendurnir munu gera - þeir sem eru hvorki dyggir stuðningsmenn repúblikana né demókrata heldur sveiflast á milli þeirra. Er það fólk tilbúið til að kjósa blökkumann? Er það fólk tilbúið til að kjósa konu?

Ég held að margir suðurríkjamennirnir muni fyrr kjósa konu sem forseta en blökkumann, og að því leyti ættu demókratar að senda Hillary í slaginn. Hitt er annað mál að mér finnst almennt að það eigi að velja fólk eftir hæfileikum en ekki eftir kyni eða húðlit. Þannig að ég á svolítið erfitt með að hugsa þetta þannig.

Ég held við verðum að treysta því að þeir sem eru búnir að fá nóg af Bush (sem eru ansi margir) muni sveiflast yfir til demókrata. Alla vega má leggjast á bæn og biðja um það.

Eiginlega ætti öll veröldin að fá að kjósa í bandarísku forsetakosningunum því það skiptir okkur öll máli hver situr við völdin þar. Þetta er án efa valdamesta ríki heims og utanríkisákvarðanir þeirra snerta okkur öll. Það er því ekki furða þótt maður fylgist spenntur með og voni það besta. 


mbl.is Fyrstu netkappræður forsetaframbjóðenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sicko

Í dag fór ég að sjá Sicko, nýju myndina hans Michaels Moore. Þetta er býsna góð mynd en hafði þó ekki sömu áhrif á mig og Bowling for Columbine og Fahrenheit 9/11. Ég held það sé vegna þess að færra kom á óvart í þessari mynd en hinum tveimur. Ég vissi fyrirfram heilmikið um heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum og hvernig ótryggðu fólki er snúið í burtu frá spítölunum, og ég vissi líka að heilbrigðiskerfið var mun betra í hinum löndunum sem leitað var til. Það sem kom kannski mest á óvart var hversu hræðileg tryggingafélögin eru og hvernig þau ná að koma sér undan greiðslum. 

Dæmi 1: Kona með heilbrigðistryggingu verður veik og fer á spítala. Hún heldur að tryggingafélagið muni borga en þeir grafa þá upp gamlar skýrslur frá lækni þar sem segir að konan hafi einhvern tímann löngu áður fengið sveppasýkingu sem hún sagði ekki frá þegar hún sótti um trygginguna. Þeir segja því upp tryggingunni og hún fær engar bætur. Sveppasýking!!!!!!!!

Dæmi 2: Lítið barn veikist alvarlega og er í hasti flutt á nálægasta spítala. Spítalinn hefur samband við tryggingafélag konunnar en þar er þeim sagt að tryggingafélagið muni ekki greiða fyrir læknishjálpina nema á sínum eigin spítala. Það þarf því að flytja deyjandi barnið á annan spítala og ekkert má gera fyrir það á þeim fyrri. Á síðari spítalanum er reynt að bjarga barninu en það er orðið of seint.

Dæmi 3: Rúmlega tvítug kona fær legkrabbamein. Tryggingafélagið segir að hún sé of ung til að fá slíkt krabbamein og neitar að borga.

Dæmi 4: Karlmaður með krabba er deyjandi og læknarnir segja að hægt sé að bjarga lífi hans með því að gefa honum beinmerg úr bróður hans. Tryggingafélagið segir að þetta sé tilraunakennd meðferð, ekki sé búið að sanna að þetta hjálpi, neitar að borga og maðurinn deyr skömmu síðar.

Hugsið ykkur. Þetta er þjóðin sem telur sig betri en aðrar. Hugsið ykkur. Þetta fær maður með einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.

Atriðið þar sem Moore fer með sjálfboðaliða frá 9/11 til Kúbu er ótrúlegt. Þessi þjóð sem hefur verið ásótt af Bandaríkjamönnum í tugi ára, opnar faðminn og veitir fólkinu ókeypis læknisþjónustu. Þjónustu sem þessum bandarísku hetjum var meinað um heima hjá sér.  

Það veitir ekkert af að hafa með sér vasaklút þegar maður fer á þessa mynd því það má sjá mörg átakanleg atriði. Þessi mynd er hins vegar fyrst og fremst fyrir Bandaríkjamenn því það eru þeir sem þurfa að skilja að þeir hafa eitt versta heilbrigðskerfi í vestrænum heimi. Það er vonandi að demókrati setjist næst í stól forseta þarna syðra, og að sá eða sú snúi þessu við og taki upp það nýtt og mannúðlegra heilsugæslukerfi.


Frjáls verslun milli Íslands og Kanada

Ég les svo sjaldan viðskiptafréttirnar að ég hlýt að hafa alveg misst af þessu í fréttunum. En mér finnst auðvitað frábært að heyra að kominn sé samningur milli Kanada og EFTA um frjálsa verslun. Ég vona að það leiði til þess að meira af íslenskum mat verði selt í Kanada.

Hér kemur annars fréttin af heimasíðu kanadíska utanríkisráðuneytisins. Ég nenni ekki að þýða hana yfir á íslensku því ég kann lítið í viðskiptaensku og myndi ábyggilega klúðra einhverju og fá svo yfir mig hafsjó af athugasemdum frá viðskiptafræðingum. Með því að skella þessu beint á firra ég mig allri ábyrgð.

Regional and Bilateral Initiatives

Canada - European Free Trade Association (EFTA)

Free Trade Agreement Negotiations

On June 7, 2007, Canada and the EFTA countries announced the conclusion of free trade agreement negotiations (See the June 7, 2007 News Release and Backgrounders). For more information, see Canada-EFTA Fast Facts.

The purpose of Canada’s free trade agenda is to enhance its economic prosperity and provide the foundation for sustainable economic, social and cultural development. To remain internationally competitive, Canada must ensure that its exporters and investors have competitive terms of access to international markets. A free trade agreement (FTA) with the EFTA countries (Iceland, Norway, Switzerland and Liechtenstein) would further stimulate interest in doing business with Canada.

As Canada's first trans-Atlantic free trade agreement, an FTA with the EFTA countries will provide a strategic platform for expanding commercial ties with these countries in particular, and the European Union in general. It will offer advantages in key European markets ahead of competitors such as the United States, and will put Canada on an equal footing with competitors - such as Mexico, Chile, Korea and the European Union (EU) - who already have FTAs with EFTA.

The EFTA countries are developed, modern economies that offer significant potential markets for competitive Canadian exporters. If the combined EFTA nations were treated as one, this group would place as Canada's 8th largest merchandise export destination. Norway and Switzerland are ranked as Canada's 13th and 19th most important trading partners in terms of merchandise exports.

 


Pólitíkusar ræða málin

Ég var að horfa á Silfur Egils og hafði mjög gaman af. Merkilegastur fannst mér hlutinn þar sem Össur, Ögmundur, Bjarni og Þorgerður Katrín spjölluðu (rifust). Ég var býsna hrifin af Bjarna. Það má greinilega hafa gaman af honum. Og mér fannst skemmtilegt þegar hann benti á að Össur væri greinilega að daðra við Sjálfstæðisflokkinn, eftir að Össur var búinn að eyða öllum þættinum í að ásaka Ögmund um slíkt hið sama. Og svo þegar Ögmundur kvartaði yfir því sagði Össur alltaf: "Nei, bara að grínast í þér". En auðvitað var þetta ekkert grín hjá Össuri. Hann er skíthræddur við að VG fari í stjórn með Sjálfstæðisflokki og vill heldur fara sjálfur í stjórn með þeim. Ég skil það vel. Flestir stjórnmálamenn vilja frekar vera í stjórn en utan hennar. Og nú verður þetta samkeppni um hver býður best. Og mér fannst, satt að segja, Össur alveg gefa það jafnskýrt í skyn og Ögmundur að hann sé til í dans við sjallana. 

Mér finnst margt gott hjá Samfylkingunni og ég vil vinstri stjórn, en ég vil ekki stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Ég man vel eftir stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks á sínum tíma og fannst það vond stjórn. Minni meðal annars á að þeir eyðulögðu námslánin og sama stjórn lækkaði líka námslán til námsmanna utan Reykjavíkur til þess að koma í veg fyrir að Reykvíkingur misnotuðu kerfið. Ég lækkaði til dæmis úr 53.000 kr. á mánuði í 43.000 kr. á mánuði. Ég ég hef ekki trú á betra ef Samfylkingin fer í hægri stjórn.  

Þótt Framsókn eigi ekki skilið að fara í stjórn aftur þá held ég samt að besti kosturinn nú sé þriggja flokka stjórn VG, Samfylkingar og Framsóknar. 


Þurfum að losna við Stephen Harper

Ég hef akkúrat ekkert álit á Stephen Harper og ég vona að fljótlega þurfi að boða til nýrra kosninga. Reyndar er hinn svokallaði Frjálslyndi flokkur, sem líkastir eru framsóknarmönnum (miðju flokkur sem sveiflast í allar áttir), ekki sérlega trúverðugur heldur en stóð sig þó miklu betur en íhaldsmennirnir. Þegar ég flutti fyrst út til Kanada var Jean Chretien forsætisráðherra landsins og hann var býsna slunginn stjórnmálamaður. Hann var þolanlega vinstrisinnaður, gáfaður og sanngjarn. Ég átti reyndar erfitt með að hlæja ekki að honum en hann var að hluta lamaður í andliti og þegar það bættist við franska framburðinn hans (hann er frá Quebec) hljómaði hann einfaldlega svo hrikalega hlægilega. Ég veit að þetta var ljótt af mér, en þegar spilaðar voru upptökur með honum í morgunfréttunum, og ég nývöknuð, þá veltist ég um af hlátri. Ég skammast mín hrikalega. Á hinn bóginn hafði ég mikið álit á honum sem stjórnmálamanni. Paul Martin, sem tók við af honum, var allt annar handleggur, miklu hægrisinnaðri, mun meira í rassinum á Bush, og opnaði hann leið íhaldsins að valdastóli. Nú hefur flokkurinn kosið nýjan leiðtoga, Stephan Dion, annan frans-kanadískan, og það virðist einfaldlega hafa dugað betur fyrir frjálslynda að hafa leiðtoga frá Quebec. Trudeau, t.d. er enn tilbeðinn sem guð og er þar á stalli með hokkíleikurunum Maurice Richard og Wayne Gretsky. Dion er hins vegar umdeildur og ég veit ekki hvort hann nær að sameina kjósendur nóg til þess að velta Harper-stjórninni.

 Annars myndi ég kjósa NDP (New Democratic Party) ef ég hefði kosningarétt. Þeir stjórnuðu Manitoba þegar ég bjó þar og stóðu sig geysilega vel. Þeir hafa hins vegar ekki nægilegt fylgi á landsvísu til að ógna stóru flokkunum tveimur hægra megin við þá. Það veldur því að kjósendur  NDP kjósa vanalega Frjálslynda í ríkisstjórnarkosningum því þeir vilja að atkvæði sitt gildi. Sama á við sósíalista og græningja. Það þýðir að enginn þessa flokka nær verulegu flugi í ríkisstjórnarkosningum sem er ástæða þess að stóru flokkarnir tveir ná um sjötíu prósentum, sameiginlega.

Annars eru sjtórnmálin í Kanada mjög sérkennileg því hver flokkur er eins og margir flokkar þegar á heildina er litið. Frjálslyndi flokkurinn er til dæmis miðjuflokkur í landsmálapólitíkinni og er þar mótvægi við íhaldsflokkinn. Hér á Bresku Kólumbíu, hins vegar, er sami frjálslyndi flokkur hægra megin og berst þar við demókrata sem er vinstri flokkur. Íhaldsmenn mælast ekki hérna. Í Manitoba kusu flestir frjálslynda í ríkisstjórnarkosningum en í fylkiskosningum fékk frjálslyndi flokkurinn aðeins einn mann, en valdabaráttan stóð á mili demókrata og íhaldsmanna. 

Annað óþolandi atriði við kosningar hér eru einmenningskjördæmin. Það skapar ógurlegt ójafnvægi. Í síðustu kosningum fékk NDP t.d. 17.44% atkvæða á landsvísu en aðeins 29 sæti. Bloc Québécois, hins vegar, sem eingöngu býður fram í Quebec fékk aðeins 10.46% atkvæða á landsvísu (öll í Quebec) og 51 sæti. Þeir fá sem sagt næstum tvöfalt fleiri sæti en NDP þrátt fyrir að hafa aðeins 2/3 af fylginu. Það er vegna þess að í Quebec voru þeir svo oft stærsti flokkurinn og fengu því svo marga menn. Fylgi NDP dreifist svo mikið að aðeins tuttugu og níu sinnum fengu þeir mest fylgi. Ég er mun hlynntari kosningakerfinu á Íslandi.


mbl.is „Ríkisstjórn með hjálpardekk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrin ræða pólitík

Af því að kosningar nálgast vil ég minna á þessa snilld úr smiðju Nicks Parkers. Einhver hefur talsett myndina upp á nýtt til að gera grín að Bandaríkjamönnum.

 


Íslensk ungmenni í pólitík

Ég horfði á nýlegan þátt af Silfri Egils (takk fyrir hlekkinn Berglind) þar sem fram komu nokkrir unglingar frá stjórnmálaflokkunum. Hér er það sem fór í gegnum hugann á meðan ég horfði (ja hlustaði):

1. Egill er býsna góður þáttastjórnandi, og er sérlega góður í að stýra umræðum, en hann er hrikalegur þegar kemur að því að gera yfirlit yfir málefni. Í upphafi þáttarans var hann með nokkurs konar einræðu, sem hann meira og minna las af blaði, og það var hrikalega skrikkjótt. Hrynjandin var hræðilega óeðlileg því hann var með þagnir eftir svona fjórða hvert orð og alls ekki endilega á mikilvægum stöðum. Egill minn, reyndu nú endilega að tala í eðlilega samfelldu máli. Þetta gerist ekki þegar hann er að stýra umræðum enda talar hann þar blaðlaust. Ég held þetta sé lesstíll hjá honum.

2. Ég er búin að missa af heilu kynslóðunum í pólitík. Ég þekkti engan af þessum krökkum sem voru fulltrúar flokkanna í heimsókn hjá Agli. (Jón kom ekki fyrr en síðast og ég missti af mestu því sem hann sagði.)

3. Krakkarnir voru almennt séð býsna góðir og þolanlega málefnalegir en stundum vottaði fyrir svona hálfgerðum óþroska. Mér fannst líka oft vanta á samræðutæknina. Ein stelpan sagði t.d.: "Æi, þú skilur hvað ég meina." Svarið var: "Nei, ég skil það nú eiginlega ekki."

4. Ég man ekki nafnið á neinum en myndaði mér eftirfarandi skoðanir:

a. Strákurinn fyrir Samfylkinguna var býsna góður. Málefnalegur og fróður. Ég var samt alls ekki sammála honum í öllu, en það er nú alveg eðlilegt því ég er alls ekki sammála Samfylkingunni í öllu.

b.  Sjálfstæðisstelpan var undir orrahríð allan þáttinn og kom þolanlega út úr því. Fannst hún samt frekar veik. En það getur ekki verið auðvelt að verja gjörðir Sjálfstæðisflokksins.

c. VG stelpan. Mér fannst hún mjög skörugleg en hún gjammaði full mikið. Ég var farin að fá pínulítið leið á henni.

d. Íslandshreyfingsstelpan. Hún var svona upp og ofan. Stóð sig mjög vel í sumu en ekki svo vel í öðru. Mér fannst hræðilegt þegar hún sagði: "Við erum með skýrt agenda." Það er nú ekki nógu gott . Þetta lið verður að tala þokkalegt mál ef það kemur fram sem fulltrúar sinna flokka.

f. Bíddu...var enginn frá Framsókn? Eða var viðkomandi svo litlaus að ég er þegar búin að gleyma honum/henni? 

5. Það er orðið langt síðan ég hef horft á skemmtilegar rökræður um pólitík og ég hafði virkilega gaman af þessum þætti. Nú þegar ég veit að ég get horft á Silfur Egils á netinu þá mun ég gera meira af því. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband