Sicko

Í dag fór ég að sjá Sicko, nýju myndina hans Michaels Moore. Þetta er býsna góð mynd en hafði þó ekki sömu áhrif á mig og Bowling for Columbine og Fahrenheit 9/11. Ég held það sé vegna þess að færra kom á óvart í þessari mynd en hinum tveimur. Ég vissi fyrirfram heilmikið um heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum og hvernig ótryggðu fólki er snúið í burtu frá spítölunum, og ég vissi líka að heilbrigðiskerfið var mun betra í hinum löndunum sem leitað var til. Það sem kom kannski mest á óvart var hversu hræðileg tryggingafélögin eru og hvernig þau ná að koma sér undan greiðslum. 

Dæmi 1: Kona með heilbrigðistryggingu verður veik og fer á spítala. Hún heldur að tryggingafélagið muni borga en þeir grafa þá upp gamlar skýrslur frá lækni þar sem segir að konan hafi einhvern tímann löngu áður fengið sveppasýkingu sem hún sagði ekki frá þegar hún sótti um trygginguna. Þeir segja því upp tryggingunni og hún fær engar bætur. Sveppasýking!!!!!!!!

Dæmi 2: Lítið barn veikist alvarlega og er í hasti flutt á nálægasta spítala. Spítalinn hefur samband við tryggingafélag konunnar en þar er þeim sagt að tryggingafélagið muni ekki greiða fyrir læknishjálpina nema á sínum eigin spítala. Það þarf því að flytja deyjandi barnið á annan spítala og ekkert má gera fyrir það á þeim fyrri. Á síðari spítalanum er reynt að bjarga barninu en það er orðið of seint.

Dæmi 3: Rúmlega tvítug kona fær legkrabbamein. Tryggingafélagið segir að hún sé of ung til að fá slíkt krabbamein og neitar að borga.

Dæmi 4: Karlmaður með krabba er deyjandi og læknarnir segja að hægt sé að bjarga lífi hans með því að gefa honum beinmerg úr bróður hans. Tryggingafélagið segir að þetta sé tilraunakennd meðferð, ekki sé búið að sanna að þetta hjálpi, neitar að borga og maðurinn deyr skömmu síðar.

Hugsið ykkur. Þetta er þjóðin sem telur sig betri en aðrar. Hugsið ykkur. Þetta fær maður með einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.

Atriðið þar sem Moore fer með sjálfboðaliða frá 9/11 til Kúbu er ótrúlegt. Þessi þjóð sem hefur verið ásótt af Bandaríkjamönnum í tugi ára, opnar faðminn og veitir fólkinu ókeypis læknisþjónustu. Þjónustu sem þessum bandarísku hetjum var meinað um heima hjá sér.  

Það veitir ekkert af að hafa með sér vasaklút þegar maður fer á þessa mynd því það má sjá mörg átakanleg atriði. Þessi mynd er hins vegar fyrst og fremst fyrir Bandaríkjamenn því það eru þeir sem þurfa að skilja að þeir hafa eitt versta heilbrigðskerfi í vestrænum heimi. Það er vonandi að demókrati setjist næst í stól forseta þarna syðra, og að sá eða sú snúi þessu við og taki upp það nýtt og mannúðlegra heilsugæslukerfi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hlakka mikið til að sjá þessa mynd, því mér fannst þær fyrri alveg frábærar. Og þrátt fyrir að myndin sé kannski fyrst og fremst fyrir Bandaríkjamenn, þá held ég að aðrir hafi gott af því að sjá hana - t.d. einsog hér á Íslandi, þar sem einkavæðing heilbrigðiskerfisins hefur verið rædd, og með ákveðinn flokk við völd ... er mikil hætta á ferð, tel ég.

Þessi fjögur dæmi + ferðin til Kúbu eru nóg ástæða fyrir mig til að sjá myndina. En það er örugglega margt annað í henni sem mun fá mig til að blöskra og bölva, og já ... gráta eitthvað. 

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 2.7.2007 kl. 10:11

2 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Moore er nú sagður tvöfaldur í roðinu. Túlkar "sannleikann" eins og Skrsattinn túlkar Biblíuna. Þá er hann aðallega sagður laga sannleikann að þvcí sem fólk vill heyra og hann hagnast á sjálfur.

Lítið á "trailer" um Moore :

http://shootingmichaelmoore.com/_references/movies/Shooting_Michael_Moore_Promo.mp4

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 2.7.2007 kl. 10:30

3 Smámynd: Anna

Prédikari; það getur vel verið að hann snúi nokkrum hlutum sér í hag en hann spyr samt spurninga sem þarf að spyrja, það þarf einhver að taka að sér að gagnrýna svona hluti.  Þessi dæmi sem eru sett fram hér að ofan sýna að það ER eitthvað alvarlegt að núverandi kerfi, það hljóta allir að sjá og sjálfsagt að vekja athygli á því.  En auðvitað þurfa áhorfendur líka að hafa gagnrýna hugsun og mega ekki gleypa við öllu sem fyrir þá er borið, það er líka ljóst.

Ég tek það fram að ég er ekki búin að sjá umrædda mynd en ég ætla mér að sjá hana fyrr en síðar! 

Anna, 2.7.2007 kl. 11:53

4 identicon

Hver er tilgangurinn Prédikari með skrifum eins og "...sagður tvöfaldur í roðinu"??? Þú vitnar í eina mynd, sem hefur ekki haft eins mikil áhrif og höfundar hennar vildu eflaust, ... "aðallega sagður laga sannleikann ..." - ??

Eins og Anna minnist á hér að ofan ... þá getur vel verið að hann setji fram efnið á ákveðinn hátt, en hreinar og beinar lygar - eru þær þarna? 

Kristín kannast við heilbrigðiskerfið, þannig að myndin kom ekki þannig á óvart, en sem slík, telurðu virkilega að ekkert í myndinni sé marktækt vegna þess að kvikmyndagerðarmaðurinn er Michael Moore? 

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 2.7.2007 kl. 11:57

5 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Sammála, Moore klúðraði algjörlega sínu trúverðleika, með þáttunum sem hann gerði.  Þar notaði hann tækni og sögufærni til að túlka sannleikann eins og hann vildi.  Hann var fyrirfram búinn að ákveða niðurstöðu.  Fyrir utan það, féll hann í þá grifju sem hann hefur verið að gagnrína mest.  Nú er hann einn af þessum frægu stjörnum sem allir þekkja og fylgjast með, hann á nóg af penningum og fór að framleiða lélega þætti sem hann fékk að gera út frá frábærri mynd.  Þessi mynd er samt eflaust áhugaverð.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 2.7.2007 kl. 11:57

6 identicon

"Klúðraði algjörlega sínum trúverðugleika ..."??? Að mati hverra? Jú, einhverjir eru á móti honum, en þegar myndin hans er sýnd og verið að fjalla um hana - þá finnst mér hart að það sé strax skotið á hann fyrir að vera tvöfaldur í roðinu, sagður laga sannleikann og sé búinn að klúðra trúverðugleika sínum ... þegar viðkomandi aðilar hafa ekki einu sinni séð myndina. Ég horfi á myndir, sérstaklega heimildamyndir, með gagnrýnum augum, en hvorki Predikarinn eða Nanna virðast hafa þessi gagnrýnu augu ... þau hafa dæmt myndina fyrirfram og Michael Moore.

Hvað finnst ykkur til dæmis um þessi dæmi sem Kristín nefnir úr myndinni? Eru þetta lygar? Hvað um það að Kristín býr í Ameríku og þekkir / hefur kynnt sér bandaríska heilbrigðiskerfið ... hvað um þessar pælingar um tryggingafélögin?

Voru þættirnir ekki allt annars eðlis heldur en þessar kvikmyndir?

Ég er ekki fremsti stuðningsmaður Michael Moore og ég tek ekki öllu því sem hann segir sem heilögum sannleik. En í þessum myndum finnst mér það krafa að gagnrýnum hugsunarhætti sé beitt. "Hann var fyrirfram búinn að ákveða niðurstöðu..." segir Nanna - mér sýnist hún og Predikarinn vera nokkurn veginn búinn að ákveða það að það sem Moore segir í myndinni sé ekki marktækt. En "... samt eflaust áhugaverð" ... - að hvaða leyti þá?

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 2.7.2007 kl. 13:43

7 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Wow ég vissi ekki að ég myndi særa neinn með þessari athugasemd, það var nú alls ekki meiningin.  Var bara að velta mínum athugasemdum fram og til baka. Datt ekki í hug að einhver tæki mína gagnríni svona alvarlega.  Að mínu mati eyðilagði hann mikið fyrir sér með þessum þáttum, en eins og ég sagði áðan verður mynd hans örugglega áhugaverð og ég ætla að sjá hana.

Myndir hans eru langt um betri en þættirnir og fyrsta bókin hans var mjög góð.  Hann bara gekk að mínu mati of langt í frægðinni og fjöldaframleiðslu.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 2.7.2007 kl. 14:07

8 identicon

Ætli Nanna Katrín hafi eyðilagt fyrir sér með þessum athugasemdum?

Hinsvegar virðist gagnrýnendum Moores ætla að verða lítill matur úr þessari nýjustu mynd hans, enda hafa engin ósannindi ennþá komið fram.

Mig grunar að fólk misskilji Moore, haldi að hann sjálfur telji sig einhver Messías og að allir sem taka mark á því sem hann segir séu safnaðarsauðir. Þetta er nú ekki endilega tilfellið og mun gáfulegra er að ræða skilaboðinn frekar en sendiboðann, enda gildir það einu hver vekur mann til umhugsunar. Sjálfur tók ég einusinni mark á því sem Pétur Blöndal sagði... einu sinni bara samt.

Drengur (IP-tala skráð) 2.7.2007 kl. 14:41

9 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ég var að vakna og kem því seint í umræðuna. Það er rétt að Michael Moore hefur verið staðinn að því að sýna aðeins eina hlið á málunum en ég held að í þessari  mynd sé það ekki eins áberandi eins og í hinum, einfaldlega vegna þess að hann tekur dæmi úr heilbrigðiskerfinu sem eru skandall alveg sama á hvernig þau er litið. Þetta fólk sem hann talar við er ekki að ljúga. Það er þrjár eða fimm milljónir Bandaríkjamanna án sjúkratryggingar (man ekki töluna), það er fólk með sjúkratryggingu sem hefur ekki fengið þjónustu vegna þess að tryggingafélögin neita að borga. Þetta eru staðreyndir. Og í því máli skiptir ekki máli hver hin hliðin er því þetta eru nægar ástæður til þess að kvarta yfir kerfinu. Hitt er annað mál að í þessari mynd sem í hinum fyrri er ekki allt slétt og fellt. Þannig fer Moore t.d. yfir til Kanada, finnur fólk á slysadeild og kemt að  því að enginn þar hefur þurft að bíða meira en 45 mínútur áður en þeir fengu þjónustu. Af því dregur hann þá ályktun að þjónustan sé hraðari en í Bandaríkjunum. Þetta er auðvitað ekki alltaf svo. ég hef t.d. sjálf þurft að bíða lengur eftir þjónustu þegar ég sneri ökkla og þurfti á spítala. Frænka mín á vinkonu sem missti manninn sinn á meðan hann beið eftir hjartaþræðingu. Hann var búinn að bíða í eitt ár. Þannig að sagan sem Moore segir frá Kanada er fegruð. Predikarinn og Nanna hafa rétt fyrir sér í því að maður verður að taka verkum Michael's Moore með svolitlum fyrirvara, hann sýnir vanalega eina hlið mun betur en aðra, en það breytir ekki þeirri staðreynd að hann vekur fólk til umhugsunar og hann lýgur yfirleitt ekki. Þannig að allt það sem hann sýnir í þessari mynd er sannleikur. Spurningin er bara, hversu vel sýnir sannleikur þessa fólks kerfið eins og það raunverulega er. Ég held að í þessu tilfelli sé dregin upp mjög raunsönn mynd af heilsugæslunni í Bandaríkjunum, því hún er mjög í stíl við það sem ég hef alltaf heyrt um frá bandarískum vinum og kunningjum.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 2.7.2007 kl. 15:09

10 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Hvað sagði ekki þjóðskáldið : "hálfsannleikur oftast er , óhrekjandi lygi" . Eftir þessu mottói virðist Moore vinna að mörgu leyti því miður.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 3.7.2007 kl. 10:37

11 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Dæmdi ekki fyrirfram, bendi bara á að sporin hans Moore hræða svo sannarlega .

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 3.7.2007 kl. 10:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband