Hvort þeirra vinnur?

Ég fæ ekki að kjósa í amerísku kosningunum, fremur en aðrir Íslendingar, en það stoppar mann ekki frá því að kynna sér málin og mynda sér skoðun. Að þessu sinni er það hins vegar óvenju erfitt. Hillary hefur sýnt það að hún er mikill kvenskörungur og hefur hjartað á réttum stað, og ef hún tæki við forsætaembættinu er næsta öruggt að meiri peningum yrði veitt til heilsugæslu og menntunarmála. Hins vegar hef ég mjög hrifist af Barak þegar ég hef séð viðtöl við hann og mér finnst hann mjög traustvekjandi. Og hann hefur einnig sýnt stuðning við þessi "mýkri" mál. Hann hefur mun minni reynslu í pólitík en Hillary en hefur samt sem áður staðið sig geysivel það sem af er þingsetu hans. Í raun held ég að bæði gætu orðið geysilega góðir forsetar. Og ef demókratar vinna með annað þeirra í fararbroddi (og vonandi hitt sem dyggan aðstoðarmann) þá mun landið loksins fá fyrstu konuna eða fyrsta blökkumanninn í forsetastólinn.

Í rauninni óttast ég ekki mikið hvað demókratar munu gera því ég held það sé orðið ljóst að annað hvort Hillary eða Obama verður næsti forsetaframbjóðandi þeirra. Spurningin er hvað sveiflukjósendurnir munu gera - þeir sem eru hvorki dyggir stuðningsmenn repúblikana né demókrata heldur sveiflast á milli þeirra. Er það fólk tilbúið til að kjósa blökkumann? Er það fólk tilbúið til að kjósa konu?

Ég held að margir suðurríkjamennirnir muni fyrr kjósa konu sem forseta en blökkumann, og að því leyti ættu demókratar að senda Hillary í slaginn. Hitt er annað mál að mér finnst almennt að það eigi að velja fólk eftir hæfileikum en ekki eftir kyni eða húðlit. Þannig að ég á svolítið erfitt með að hugsa þetta þannig.

Ég held við verðum að treysta því að þeir sem eru búnir að fá nóg af Bush (sem eru ansi margir) muni sveiflast yfir til demókrata. Alla vega má leggjast á bæn og biðja um það.

Eiginlega ætti öll veröldin að fá að kjósa í bandarísku forsetakosningunum því það skiptir okkur öll máli hver situr við völdin þar. Þetta er án efa valdamesta ríki heims og utanríkisákvarðanir þeirra snerta okkur öll. Það er því ekki furða þótt maður fylgist spenntur með og voni það besta. 


mbl.is Fyrstu netkappræður forsetaframbjóðenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er sammála því að veröldin ætti að fá að kjósa bandarískan forseta, því núverandi forseta USA er að mínum dómi einn sá hættulegasti í heimi. En burtséð frá því þá hef ég verið meira Hillary-maður en það yrði virkilega flott samt ef Barak myndi vinna. Annaðhvort þessara í forsetastólinn og ég yrði ánægður!

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 24.7.2007 kl. 11:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband