Um innflytjendaraunir

Ég hef búið í Kanada í átta ár og alltaf verið hér á tímabundnu leyfi. Fyrst á tímabundnu atvinnuleyfi og nú á tímabundnu námsleyfi ('leyfi' í  merkingunni 'permit' ekki eins og í leyfi frá atvinnu eða námi).

Fyrir tæpum þremur árum sótti ég um ótakmarkað dvalarleyfi, svo kallað 'permanent residency'. Af því að ég bjó þá þegar í landinu byrjaði ég á því að senda umsókn mína til Calgary þangað sem maður sendir slíkar umsóknir ef maður er í landinu. Vinur minn hafði gert það tveimur árum áður og það tók sex mánuði áður en hann fékk leyfið í hendur. Fjórum mánuðum eftir að ég sendi inn mína umsókn fékk ég hana hins vegar í hausinn og var mér sagt að ég yrði að sækja um leyfið í sendiráði utan Kanada. Fjórum mánuðum var því eytt í vitleysu og nokkrum þar til viðbótar því ég þurfti að borga gjöldin á annan hátt og það tók tíma og svo var ég svo fúl að ég sendi umsóknina ekki inn strax.  

Ég sendi umsóknina svo loks til London í lok júní 2005 og samkvæmt bréfi frá Canada high commission í London fengu þeir hana í hendur 4. júlí sama ár. Síðan leið og beið og ekkert gerðist. Í lok febrúar fékk ég loks bréf frá London um að fjórum mánuðum síðar myndu þeir loks fara að skoða umsóknina mína, en af því að fjögur ár voru liðin frá upphaflegu umsókninni yrði ég að endursenda ýmis gögn, svo sem lögregluskýrslur, fjárhagsstöðu og fleiri. Það tók því tíma og peninga að fá þetta allt og senda á ný með öryggispósti til London. Samkvæmt bréfinu átti að taka umsókn mína fyrir í júní. Nú er kominn ágúst og ég hef ekkert heyrt frá þeim.

Nýlega vaknaði ég svo upp af vondum draumi vegna þess að ég mundi að námsleyfið mitt var einungis gefið til fjögurra ára. Það rennur því út í lok september (fyrst hélt ég í lok ágúst). Ég get beðið í tæpa tvo mánuði og vonað að hitt leyfið komi loks áður en september lýkur, eða ég get sótt um framlengingu á námsleyfinu. Það kostar auðvitað um 7500 plús kostnaðinn við að fá opinber gögn frá skólanum (um að ég sé enn í námi), opinber göng frá bankanum (um fjárhagsstöðu mína) og kostnaðinn við að senda umsóknina í ábyrgðarpósti. Þetta verður því alla vega tíu þúsund krónur. Mér finnst auðvitað eins og ég sé að kasta þeim peningum á eldinn því ef hin umsóknin kemst í gegn á næstu tveimur mánuðum þá þarf ég ekki einu sinni á framlengingu á námsleyfinu að halda. Ég talaði við konu hjá innflytjendaeftirlitinu í dag og hún sagði að ég þyrfti ekki að sækja um framlengingu á námsleyfinu fyrr en á síðustu stundu en ef ég vildi hafa lögleg gögn í höndum þá skyldi ég sækja um ekki síðar en í næstu viku.

Ég er alltaf að hugsa um að fara kannski til Íslands í heimsókn í haust en ég þori ekki einu sinni að kaupa miða fyrr en öll mín mál eru pottþétt. Þori ekki að fara úr landi ef ske kynni að mér yrði neitað inngöngu. 

Skriffinnskan í Kanada er með ólíkindum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þvílík og önnur eins kerfistregða og Byrókratía. Þetta er með ólíkindum, og svona er þetta víðast hvar.

Gangi þér vel.

Jenný Anna Baldursdóttir, 2.8.2007 kl. 00:54

2 Smámynd: Einar Indriðason

Þú ert amk ekki í USA.  Þeir ku vera allt annað en barnanna bestir....

En, gangi vel að fá rétt leyfi.

Einar Indriðason, 2.8.2007 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband