Loksins flott Batman mynd

Ég fór að sjá Dark Knight (Batman) í gær. Sem krakki þótti mér Batman ákaflega spennandi en myndirnar á níunda og tíunda áratugnum ollu mér vonbrigðum. Ég sá þær ekki einu sinni allar því allir voru sammála um að sú fyrsta hefði verið best og mér fannst hún leiðinleg. Það var allt of mikill teiknimyndabragur yfir þeim.

Ég fór bara á Batman í gær af því að Mark bað mig um að koma með sér og af því að ég hafði beðið hann um að koma með mér á Journey to the centre of the earth þá fannst mér ég skulda honum það að koma. Mark er mikill Batman aðdáandi.

Myndin var miklu betri en þær sem ég hafði séð áður. Miklu meiri bíómynd - ekki þessi teiknimyndabragur yfir henni. Myndin gerist heldur ekki öll að nóttu til (eins og mér fannst hinar gera) og Gotham er í raun bara venjuleg borg með þokkalega venjuleg vandamál. Ef frá er talinn Jokerinn eru glæpamennirnir nokkuð venjulegir glæpamenn.

Það gerist margt í myndinni og rauninni eru sagðar nokkrar sögur. Myndin útskýrir hvernig Batman verður eiginlega að útloka, uppruni Two Face er sýndur og ást Bruce Wayne á Rachel Dawson fær nokkurn sess - þó ekki of mikinn. Við fáum líka að sjá hvaðan Batman fær allar græjurnar sem hann hefur og karakterinn er útskýrður býsna vel. En þetta allt gerir það að verkum að myndin er býsna löng. Tveir og hálfur tími - aðeins of langt að mínu mati. Ég fór á tíu-sýninguna, myndin byrjaði ekki fyrr en klukkan hálfellefu og var búin um eitt leytið. Ég var þá orðin allt of þreytt og eina ástæða þess að ég sofnaði ekki var sú að Mark hefði orðið svo sár.

Heath Ledger var jafn frábær og dómar höfðu sagt og já það kæmi ekki á óvart þótt hann yrði tilnefndur til óskarverðlauna fyrir frammistöðuna - og ekki bara af því að hann er látinn. Christian Bale er býsna góður sem Batman en mér leiðist röddin í honum þegar hann er í Batman gervinu. Ég veit að sumum finnst röddin frábær en ég held að það séu aðallega unglingsstrákar. Ég verð líka að minnast á Gary Oldman sem er fantagóður þarna. Hann er reyndar farinn að eldast töluvert og lítið eftir af gamla sjarmörnum en hann er frábær í hlutverki lögreglustjórans. Morgan Freeman er líka góður í sínu hlutverki en það er of smátt svo hann fær svo sem ekki margt að leika með. 

Almennt séð, býsna góð mynd og ég er viss um þeir sem höfðu gaman af hinum Batman myndunum finnst þessi æðisleg. 


mbl.is Leðurblökumaðurinn sló aðsóknarmet
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott að fá umsögn frá einhverjum sem hefur séð, ekki bara þessar upphrópanir úr blöðum. Við vorum einmitt að tala um það við matarborðið hér í kvöld hvort myndin fengi þessa dóma vegna Ledger eða hvort hún væri bara svona góð. Ég held að ég verði ekki fyrir vonbrigðum eftir að hafa lesið pistilinn þinn  

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 21:33

2 identicon

Batman Beginning var mjög góð, besta Batman myndin hingað til (á eftir að horfa á Dark Knight), sami leikstjóri og gerir þessa nýjustu, þú ættir að kíkja á hana líka ef þú hefur ekki séð hana, held það sé svipaður stíll yfir þeim.

Steini (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 22:31

3 identicon

Okkur öllum hérna á heimilinu hlakkar svo til að sjá hana!!

alva (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 23:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband