Ég er í bíómynd með Brendan Fraser (Anita hvað!)

Ég fór í bíó í kvöld að sjá Journey to the centre of the Earth og hver haldiði að hafi verið flugfreyjan í Icelandair vélinni????? Jebb, moi! Ég varð ákaflega stolt að sjálfsögðu og gat ekki annað en montaði mig við Mark sem kom með mér. Hins vegar virðast hin hljóðbrotin sem tekin voru upp ekki hafa verið notuð. Það átti að heyrast í útvarpi í bílnum þegar þeir félagar Trevor og Sean keyra til Snæfellsness, og eins átti Hanna (Anita Briem) að vera að hlusta á útvarp þegar þeir banka uppá hjá henni, en hvorugt var notað. Því miður. Ég er því nokkuð viss um að ekki heyrist í Halli og Guðna. Reyndar virtist ógreinilega heyrast samtal sem við Hallur tókum upp og átti að vera samtal milli tveggja manneskja í flugvélinni, en það var svo ógreinilegt að ég get ekki einu sinni verið viss. En hey, ég er flugfreyja!!!!!

Ég var annars stolt af Anítu frænku minni. Ekki það að ég þekki hana neitt, en við erum nú samt þremenningar eða eitthvað svoleiðis. Hún stendur sig vel í myndinni og er auðvitað gullfalleg. Best finnst mér samt að karakterinn hennar er ekta íslenskur eðalkvenmaður - hún er eiturhörð eins og konurnar í Íslendingasögunum. (66 gráður norður fær annars góða auglýsingu í myndinni.)

Við urðum annars að fara í smá ferðalag til þess að sjá myndina því ekkert kvikmyndahús í Vancouver er búið 3D tækninni. Svo við tókum ferjuna yfir til Norður Vancouver og sáum myndina þar. Vorum ákaflega aulaleg með okkar 3D gleraugu. Og svo fékk ég líka kókið mitt í Batman glasi með Batman fígúru á toppnum. Hversu hallærislegur getur maður verið. Ætlum annars að sjá Batman annað kvöld eftir að ég spila fótbolta.

Á sunnudaginn er hugsanlegt að ég fari til Whistler á tónlistarhátíð sem þar stendur yfir alla helgina. Ég kemst hins vegar ekki á morgun útaf fótboltanum. Atriðin sem mig langar mest að sjá eru á sunnudaginn hvort eð er - Broken Social Scene og Elvis Costello. Annars er ég svo þreytt eftir þessa tólf daga vinnutörn að kannski enda ég á því að sofa bara, eða liggja í leti...eða þrífa íbúðina mína (þess er þörf).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Til hamingju með þetta.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 19.7.2008 kl. 07:28

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég þarf sem sagt aftur að fara í bíó á árinu. Mér sýnist myndin ekki vera komin í sýningu hér þannig að ég þarf að setja vaktarann í gang. Svo færðu frammistöðueinkunn ...

Berglind Steinsdóttir, 19.7.2008 kl. 09:20

3 identicon

Þetta er töff í ferilskrána ;-)

AuðurA (IP-tala skráð) 19.7.2008 kl. 13:07

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Til hamingju með þetta. Ég á vini í USA sem hafa séð myndina og langar mikið til að heimsækja klakann og skoða íslenska náttúru. Ekki slæm landkynning sem þú hefur tekið þátt í þarna. Ljóst að ég mun reyna sérstaklega að taka eftir íslenskri flugfreyju þegar mér gefst loks tækifæri til að kíkja á gripinn.

Hrannar Baldursson, 19.7.2008 kl. 14:28

5 identicon

Geisp :O

Eiríkur (IP-tala skráð) 19.7.2008 kl. 15:31

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Það er víst rétt að taka það fram að ég sést nú ekki í myndinni heldur heyrist bara röddin. Ég heyrist sem sagt í kallkerfi flugvélarinnar. En takk öll.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 19.7.2008 kl. 16:22

7 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Flott hjá þér.  Til hamingju með þetta.    :):):) ´Ætla að sjá þessa mynd við fyrsta tækifæri.

Marinó Már Marinósson, 19.7.2008 kl. 19:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband