Sá draumaprinsinn - leið næstum yfir mig

Þeir sem eru búnir að fylgjast með blogginu mínu lengi hljóta að vita hver draumaprinsinn minn er. Maðurinn sem er algjörlega fullkominn fyrir mig. Það eina sem hefur staðið í vegi fyrir giftingunni hingað til er sú staðreynd að hann hefur aldrei séð mig. Og mér skilst að það sé erfitt að verða ástfanginn af manneskju sem maður veit ekki einu sinni að er til. Eða það er mér sagt.

Það breyttist í dag. Fyrsta skref stigið.Heart

Ég fór niður í GM Place í dag, heimavöll Vancouver Canucks. Þar fer fram þessa dagana Kanadabikarinn í íshokkí kvenna með þátttöku fjögurra bestu landsliða í heimi, Kanada, Bandaríkjanna, Finnlands og Svíþjóðar. Þetta er æfingamót fyrir vetrarólympíuleikana og ég fór þangað til að hjálpa til. Við í minni deild vorum ekki opinberlega hluti af þessu móti enda engin þörf á túlkun fyrir þessi fjögur lönd. En þá vantaði hjálp við upplýsingamiðlun o.s.frv. og ég vildi endilega fara niður í GM Place. Mér líður alltaf vel þar.

Vaktin mín var búin og við vorum að ganga frá þegar maður gengur fram hjá mér. Hann lítur á mig og brosir. Svo hvarf hann í gegnum dyr á bakvið mig og stundin var liðin. Ég sagði ekki orð og ég veit ekki einu sinni hvort ég brosti. Stirðnaði algjörlega upp. Þetta var Alain Vigneault, yfirþjálfari Vancouver Canucks og eins og ég nefni hér í upphafi, draumaprinsinn minn. Hann var svartklæddur og glæsilegur. Ég held ég hafi hugsanlega dregið andann of djúpt því ég kom vart upp orði. Ég stundi eitthvað uppyfir mig um þjálfara og Canucks og hann hann hann, benti á lokaðar dyrnar og andvarpaði. Stelpan sem var með mér náði því loks að eitthvað merkilegt hafði gerst en henni var nokk sama. Ekki hokkíaðdáandi.

Ég sendi skilaboð á alla vini mína enda var ég í háuloftunum lengi á eftir. Akemi bannaði mér að keyra heim - það væri ekki ráðlagt. Hinir vildu vita hvað ég sagði við hann og hvort ég hafi ekki örugglega verið klædd í eitthvað æsandi. Ætli þeim hafi ekki þótt lítið til koma þegar ég sagði að hann hafi labbað fram hjá mér og verið farinn áður en ég náði áttum. En hann leit til mín og brosti!!!!! InLove

En hey, nú hefur hann alla vega séð mig. Það er fyrsta skrefið. Nú er bara að komast að því hvert næsta skref er og hvernig ég get tekið það. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ég er viss um að Alli hefur ekki sofið heldur. Nú er bara að skipuleggja næsta hitting þetta getur bara ekki hafa verið tilviljun, nú hafa forlögin loks leitt ykkur saman -ég sé fyrir mér barnmarga fjölskyldu í nánustu framtíð!

Rut (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 12:29

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Já já, forlögin, pottþétt. Það er annars best að byrja strax á börnunum ef þau eiga að verða mörg.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.9.2009 kl. 08:15

3 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Vertu bara með ræðuna á blaði svo þú klikkir ekki næst.  

Marinó Már Marinósson, 4.9.2009 kl. 12:06

4 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Hahaha, yndisleg lesning og þá ekki síst upphafið.

Og jájá, ljúft er að láta sig dreyma....!

Magnús Geir Guðmundsson, 4.9.2009 kl. 22:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband