Færsluflokkur: Bloggar
Hver skrifaði þetta?
9.7.2007 | 16:25
Ókei moggi, er þetta nú ekki að fara yfir strikið? Þið eruð ekki að reyna að selja nein blöð á netinu og þurfið því ekki að setja fyrirsögn sem dregur að slorlesendurnar. Þetta er eins og hjá Star og Enquire og þessum ritum sem setja slímugar fyrirsagnir á forsíður, sem síðar reynast svo ansi beygðar. Að kalla Lavigne hugsanlega þjófótta fyrir það að hafa hugsanlega (líklega?) hnuplað lagi er hreinlega fáránlegt. Í fyrsta lagi verðurðu ekki þjófóttur fyrir það að stela einu sinni. Þú verður kannski þjófur en ekki þjófóttur. Í öðru lagi, vitiði hversu margir tónlistarmenn hafa verið sakaðir um að stela lagi? Ekki það að ég geti nefnt tölu en ég man ekki betur en að Jóhann Helgason hafi verið að tala um það fyrr í vor að eitthvert lag með Josh Grobin væri ótrúlega líkt Söknuð, og svo í framhaldi af því var farið að tala um að Söknuður væri líkur Danny Boy. George Harrison varð að borga the Chiffons hellings pening því talið var að My sweet lord væri of líkt He's so fine. Michael Bolton var líka aðili að einhverju slíku máli. Þetta er kallað cryptomnesia og lýsir sér þannig að manneskja telur sig hafa búið til eitthvað sem hann/hún hefur í rauninni séð eða heyrt annars staðar. Því er ekki endilega um ásetning að ræða. Það að kalla Avril Lavigne þjófótta út af þessu máli er því svolítið langt gengið finnst mér, og þó hef ég enga ástæðu til að verja hana sérstaklega.
Hitt er annað mál að það gæti vel verið að hún sé þjófótt, ég er ekkert að segja að það sé útilokað. Og það er meira að segja vel hugsanlegt því eftir að Chantal Kreviatzuk, sem vann með Lavigne um tíma, var spurð álits á þessu Rubinoos máli þá gaf Kreviatzuk það sterklega í skyn að Lavigne hefði stolið lagi frá sér. Alla vega hafði Kreviatzuk sent Lavigne lag til hlustunar og á næstu plötu Lavigne var lag mjög svipað með sama nafni en enga Kreviatzuk sem höfund.
En mér finnst fyrirsögnin bara ekki við hæfi miðað við innihald fréttarinnar.
![]() |
Er Avril Lavigne þjófótt? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um kvenréttindi í nútíð og framtíð.
8.7.2007 | 19:52
Íhaldsflokkurinn kanadíski hefur nýlega tekið upp á þeirri iðju að biðja ákveðna þjóðernishópa afsökunar á ýmsu óréttlæti sem viðkomandi hópar voru beittir fyrir tugum ára en það virðist alveg undarlegt að hóparnir sem beðnir eru afsökunar eru yfirleitt þrýstihópar með þokkaleg áhrif. Ekki hefur bólað á afsökunarbeiðnum til indjána, svo ég nefni nú bara þann þjóðfélagshóp sem hefur verið beittur meira óréttlæti en nokkur annar hópur í landinu.
Í Vancouver Sun í dag skrifaði svo Daphne Bramham góða grein um það óréttlæti sem konur hafa verið beittar í þessu landi í gegnum tíðina og bendir á að ekki virðist neinum detta í hug að biðjast afsökunar á því. Hún bendir m.a. á að
·Konur fengu ekki að kjósa fyrr en 1921, 54 árum eftir að sambandsríkið var stofnað, og indjánakonur fengu ekki að kjósa fyrr en 1960.
·Konur voru ekki viðurkenndar sem manneskjur fyrr en 1929, þrátt fyrir að vera um 51% af mannfjöldanum.
·Lögin um ríkisborgararétt frá 1947, og sem giltu til 1974, sögðu svo til um að konur hefðu ríkisborgararétt eiginmanna sinna. Þannig að ef karlmaður gaf upp ríkisborgararétt sinn þá missti konan hans sinn rétt sjálfkrafa.
·Börn kanadískra kvenna og erlendra feðra áttu ekki rétt á kanadískum ríkisborgararétti, þótt börn kanadískra karlmanna og erlendra mæðra ættu það. Sama ríkti um indjánastöðu barna.
·Þar til 1975 áttu konur ekki rétt á helmingi eignanna ef til skilnaðar kom. Indjánakonur eru enn í þeirri stöðu.
Og þótt búið sé að laga flest af þessu er enn margt óunnið:
·Konur eru einungis um einn fimmti af þingmönnum landsins.
·Konur í fullri vinnu fá aðeins 71 cent fyrir hvern dollar sem karlmenn fá.
·Tveir þriðju vinnandi kvenna vinna enn í svokölluðum bleiku gettóum, kvennastörfum, þ.e. heilsugæslu og skrifstofustörfum.
·38% einstæðra mæðra lifa undir fátæktarmörkum en aðeins um 17% einstæðra feðra.
Bramham bendir á að ef einhver hópur eigi rétt á afsökunarbeiðni frá kanadískum yfirvöldum vegna misréttar í gegnum tíðina þá séu það konur.
En kvenréttindahópar hafa ekki haft efni á því að berjast fyrir afsökunarbeiðni eða fárshagslegum bótum eins og hinir ríkisstyrktu þjóðernishópar hafa getað gert. Þær eru of uppteknar við það að reyna að halda í þá sigra sem náðst hafa.
P.S. Konan á myndinni er Nelly McClung sem er einn helsti kvenskörungur Kanadamanna og sú sem helst barðist fyrir því að konur yrðu viðurkenndar sem manneskjur. Þið getið lesið um hana hér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Veðurspár
8.7.2007 | 18:29
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bréfahrúgan
8.7.2007 | 07:27
Ég stóð mig alveg geysilega vel í kvöld. Ég hef hreinlega setið við og skrifað bréf. Hrúgan af ósvöruðum tölvupósti var komin í yfir 70 bréf og sum orðin allt of gömul. Það er gallinn við það þegar maður bloggar, maður lætur bréfaskriftir sitja á hakanum af því að maður er búinn að segja allt. En það er auðvitað algjör vitleysa. Það má ekki missa persónulegu tengslin sem maður hefur við vini og kunningja. Þannig að ég tók mig til í andlitinu og skrifaði ógurlegan fjölda af bréfum, sinnti öðrum málefnum sem ég þurfti að sinna (í gegnum tölvupóst) o.s.frv. Nú eru bréfin í pósthólfinu mínu 14 og ég vona að ég geti svarað þeim á morgun. Og þetta kom allt eftir að ég spjallaði við Auði á msn í ábyggilega tvo tíma. Ég hafði ekki kveikt á msn svo lengi að við höfðum um nóg að spjalla.
Á morgun þarf ég reyndar að fara og kíkja á íbúð. Nei, ekki fyrir mig. Ég er rosalega ánægð í minni risíbúð með útsýni yfir hafið. Nei, ég ætla að kíkja á íbúð fyrir stelpu sem er að koma hingað sem post-doc. Það þarf einhver að kíkja á íbúðina svo hún viti hvað hún er að leigja og ég bauð mig fram. Hún er merkingarfræðingur og það er ágætt að hafa slíkt fólk vinveitt sér. Reyndar kom svo í ljós að við hittumst í fyrra á ráðstefnu á Spáni. Hún mundi eftir mér en ég hafði ekkert tengt nafnið hennar við þá ráðstefnu. Enda vildi ég helst gleyma þeirri ferð.
Í dag fór ég líka upp í skóla og prentaði út greinarnar sem ég þarf að lesa yfir fyrir Salish ritið af málfræðitímaritinu okkar. Ég og Martin Oberg, kunningi minn úr klifrinu, erum ritstjórar. Við erum búin að lesa allt yfir einu sinni, sendum greinar til baka með leiðréttingum og nú eiga höfundar að vera búnir að laga allt og senda okkur nýjar útgáfur. Því miður hafa ekki allir sent inn leiðréttar greinar. Veit ekki af hverju fólk sinnir ekki tímatakmörkum. En ég prentaði samt út það sem ég var búin að fá og á morgun ætla ég að setjast út í sólina, annað hvort úti í garði eða niðri á strönd, og lesa yfir bunkann. Þá kem ég einhverju í verk en næ mér í D vítamín í leiðinni.
En nú er ég farin að sofa. Klukkan er orðin allt of margt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Af og að
7.7.2007 | 21:37
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sænskt kartöflusalat
7.7.2007 | 19:25
Jenný bað um uppskriftina að sænsku kartöflusalati. Set hana (uppskriftina, ekki Jennýju) því hér inn svo sem flestir megi njóta. Þetta er alveg ótrúlega gott með grilluðu kjöti.
SÆNSKT KARTÖFLUSALAT
·10-12 meðalstórar kartöflur, soðnar og skornar í teninga
·1 harðsoðið egg, brytjað (það segir uppskriftin, ég nota nú alltaf tvö)
·1 geiri hvítlaukur (þið vitið að maður tvöfaldar alltaf hvítlauk í uppskriftum - að minnsta kosti)
·2 msk sítrónusafi (ég slurka nú bara venjulega einhverju og smakka það til)
·skorin púrra (það sagði aldrei í uppskriftinni hversu mikil og ég gleymi henni svona sirka í annað hvert skipti. Það er samt betra að hafa hana.)
·súr gúrka eftir smekk (algjört möst)
·1 dl matarolía (Ég nota nú alltaf minna en það. Finnst óþarfi að hafa þetta of fitandi og salatið er alveg eins gott með minna af olíu. Prófið ykkur bara áfram.)
·1/2 dl rifinn ostur
·salt
·pipar
1. Blandið saman eggjum, súru gúrkunni, púrru, hvítlauk, sítrónusafa, olíu, osti og kryddi.
2. Hellið yfir kartöflurnar og blandið vel saman við.
3. Kælið vel.
4. Berið fram.
Best með lærissneiðum en í raun gott með öllu. Mæli svo með grilluðum banönum á eftir (nema ef maður er í moskítólandi - þá er best að halda sig frá banönum).
P.S. Þið sjáið mynd af salatinu hér að ofan. Þetta er kvöldmaturinn minn frá því í gær. Og hér til hliðar eru teinarnir á grillinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Annar í giftingu
7.7.2007 | 17:32
Mér skilst að svo margir hafi viljað gifta sig 07.07.07 af því að þreföld sjö-talan sé lukkumerki. Þess vegna finnst mér svolítið fyndið að Longoria og beau skuli halda kirkjubrúðkaupið þennan dag en dómarabrúðkaupið í gær. Það er giftingin fyrir framan dómara sem gildir. Það er þann dag sem þau tvö urðu hjón. Kirkjubrúðkaupið er bara staðfesting á giftingunni fyrir guði (eins og hann hafi ekki verið við hitt brúðkaupið líka). Mér sýnist því að það sé 06.07.07 sem er raunverulegur giftingadagur þeirra. Kannski það þýði að lukkan verði ekki eins mikil
Velti því annars fyrir mér hvort ég verði heppin á einhvern hátt í dag. Ætti kannski að fara með límonaði út til smiðanna!!!!!!
![]() |
Longoria hunsaði aðdáendur sína á brúðkaupsdaginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hinir fínustu dagar
7.7.2007 | 06:49
Síðustu tveir dagar hafa verið fínir. Ég hef skrifað svolítið í merkingarfræði, ekki mikið en meir en undanfarið.
Í gær fór ég að klifra með Marion og náði að klára V2 sem ég hafði verið að vandræðast með en komst ekkert áfram með þessar þrjár V3 leiðir sem ég hef verið að vinna að. Um kvöldið fór ég svo í ultimate með manninum hennar Marion, Ryan. Þetta ultimate er ekkert smá erfitt. Ef þið viljið komast í gott form er ultimate fullkomið. Við spiluðum tvo leiki og maður er hlaupandi allan tímann. Fyrri leikurinn hófst um tuttugu mínútur yfir sex og síðari leiknum lauk laust fyrir tíu. Þetta voru sem sagt vel rúmir þrír tímar. Ég held svei mér þá að ég hafi misst heilt kíló. Því miður gleymdi ég moskítóspreyinu heima svo ég náði mér í nokkur bit. Þar af heitt á hálsinn. Þegar ég kom heim uppgötvaði ég að ég hafði skilið gluggana eftir opna svo ég var búin að ná mér í moskítur inn í herbergi. Ein þeirra byrjaði að suða í kringum höfuðið á mér þegar ég reyndi að sofna svo ég náði í flugnaspaðann og kom henni fyrir kattanef eftir ekki of langan eltingaleik. Endaði svo á því að sofa með flugnaspaðann við hliðina á koddanum ef ég þyrfti að drepa fleiri flugur.
Í dag hélt ég áfram að leysa vandamálið um endurtekið dvalarhorf og mér miðaði aðeins. Ekki mikið. Horfði aðeins á smiðina út um eldhúsgluggann og sprangaði svo fram hjá þeim í stuttu pilsi í von um að þeir tækju eftir mér (held þeir séu blindir). Bjó síðan til sænskt kartöflusalat. Fékk uppskriftina frá Guðrúnu Helgu fyrir mörgum árum. Fór svo og keypti grillolíu og grillteina, dró fram gamla kolagrillið hennar Alison í kjallaranum og grillaði þennan fína mat. Paprika, laukur, sveppir og nautakjöt (í fínu grillsósunni sem ég keypti á matarsýningunni); allt saman á teini. Mmmm, þetta var virkilega gott. Bauð Alison í mat með mér enda skemmtilegra að hafa félagsskap þegar maður borðar grillmat. En algjörlega var ég búin að gleyma því hversu lengi það tekur kolin að grána. Er virkilega að velta því fyrir mér að kaupa lítið gasgrill. Það er hægt að fá mjög ódýr svoleiðis. Alison kom út með flösku af hvítvíni - sætu með sterku ávaxtabragði. Ég drekk yfirleitt ekki áfengi en það getur verið gott að drekka glas af góðu víni. Og ég er svo mikill sælkeri, og svo lítill vín connaisseur, að mér þykir sætu vínin betri en þau þurru. Já já, hlæið bara að mér. Mér er alveg sama.
Við enduðum á því að sitja á kjaftatörn yfir þessum góða mat fram að níu eða svo. Þá var orðið aðeins of kalt úti svo ég fór inn og horfði á The Devil wears Prada. Kannski hefði verið gáfulegra að fara út á lífið en svei mér þá, ég nenni því ekki. Mér fannst það aldrei sérlega skemmtilegt þegar ég var yngri þannig að það er ekki við því að búast að mér finnist það svo spennandi núna. Og svo kóróna ég allt saman með því að vera að skrifa þennan pistil. En svei mér þá, mér þykir þetta hinn fínasti föstudagur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Loksins loksins
6.7.2007 | 19:27
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Prinsessusystur
6.7.2007 | 18:11
![]() |
Vilhjálmur sagður hafa beðið Kate um annað tækifæri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)