Aðeins um bókasöfn

Sem barn kom það fyrir að ég fór nokkrum sinnum á viku á Amtið á Akureyri og fékk lánaðar bækur. Þessar ferðir voru sérstaklega tíðar þegar ég gekk í gegnum Nancybóka- og Frank og Jóa-tímabilið. Maður spændi upp bækurnar og kom alltaf til baka þyrstur í meira. Svo kom tímabil þar sem maður notaði safnið fyrst og fremst í heimildasöfnun fyrir menntaskólaritgerðir og er mér enn í minni sú frábæra aðstoð sem ég fékk alltaf frá starfsfólkinu þarna uppi. Sérstaklega Höllu sem allt vildi fyrir mann gera.

Ég fór ekki mikið á bókasafn þegar ég bjó í Reykjavík á háskólaárunum fyrri enda hafði maður aðallega tíma fyrir skólabækurnar og þær þurfti mér að kaupa. Þó fékk ég eitthvað af ítarefni lánað á Landsbókasafninu eftir að nýja byggingin kom á melunum.  

Eftir að ég lauk meistaraprófinu og áður en ég flutti til Kanada kom þó mikið lestrartímabil og þá fékk ég mér kort á Borgarbókasafn og tók margar bækur og las mikið.  Það var alltaf gaman að koma í gamla og fallega húsið í miðbænum sem þá hýsti bókakost aðalsafns Borgarbókasafnsins. Sorglegt annars að sjá húsið núna – eða alla vega síðast þegar ég gekk þar framhjá.

Eftir að ég kynntist Herði er ég alltaf á bókasöfnum. Oftast á Foldasafni en þó töluvert líka á Kringlusafni, auk örfárra skipta á Ársafni, Sólheimasafni og Aðalsafni. Held það sé bara safnið í Gerðubergi sem ég hef aldrei komið á. Það er svo mikil snilld að hægt sé að taka bækurnar hvar sem er og skila þeim hvar sem er. Ef maður er staddur í Kringlunni þá skýst maður bara á safnið þar og skilar svo bókinni á Foldasafn á leið heim úr vinnunni einhvern daginn. Ég held að þessi liðlegheit hljóti að auka notkunina á safninu. Ég myndi ábyggilega ekki nenna að grípa bók á Ársafni ef ég þyrfti svo að fara aftur þangað uppeftir til að skila henni.

Það er líka hægt að finna allan fjandann á þessum söfnum. Ég er búin að liggja yfir sögum úr Árnessýslu frá þarsíðustu öld og alveg ótrúlegt hversu mikið er til. Og það sem best er, allt er skráð í tölvur svo maður getur unnið heimavinnuna áður en maður mætir á safnið. Séð hvað hver á, hvort bókin er inni o.s.frv. Annars er það samt ekkert eins skemmtilegt og að mæta bara á staðinn og grúska. Í Kanada gat ég eytt svona tíma í risastórum bókabúðunum, hér koma söfnin í þess stað.

Og ég get ekki fjallað um bókasöfn án þess að nefna þá snilld að hægt sé að fá myndbönd lánuð. Nú þegar her myndbandaleigan lokar á fætur annarri er frábært að við sem ekki hlöðum niður ólöglegu efni getum fengið lánaða diska. Í vikunni tók ég fyrstu seríu af Deadwood og ligg núna yfir henni. Skemmtilegt, enda hef ég komið til Deadwood og sá meira að segja leikrit um réttarhöldin yfir Jack McCall.

Já, miklir snillingar voru þeir ágætu menn sem stofnuðu fyrstir bókasafn á Íslandi. Voru það ekki annars Þingeyingar? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég sem þingeyingur,verð að komast að þessu,er þú ritar þarna neðst í pistlinum. Þessu trúi ég alveg.

Númi (IP-tala skráð) 8.2.2013 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband