Færsluflokkur: Trúmál

Stjörnum prýddir tónleikar - Ringo í essinu sínu

Það eru liðin rúm tuttugu ár síðan Ringo Starr kom í fyrsta sinn fram með sinni breytanlegu hljómsveit, 'The All Star Band'. Þá voru í hljómsveitinni m.a. Billy Preston og Joe Walsh. Síðan hefur hann reglulega farið í tónleikaferð með hljómsveitinni, en hljómsveitarmeðlimir koma og fara eftir því sem hentar í hvert sinn. Það virðist aldrei vera vandamál fyrir Ringo að fá menn til að spila með sér. Bæði er að hann er léttur og skemmtilegur og virðist koma vel saman við alla, en einnig er hann auðvitað goðsögn í lifanda lífi sem fyrrum Bítill. Þeir Burton Cummings og Randy Bachman (úr Guess Who og Bachman líka úr BTO) hafa líka spilað með honum, svo og Peter Framton, sonur Ringos Zak Starkey, og fleiri og fleiri. Þegar ég keypti miða á Ringo og All Star Band 2010 vissi ég því að ég mætti eiga von á að sjá fleiri stjörnur en Ringo. En ég vissi ekki hverjar.

Tónleikarnir voru haldnir á túni við víngerð í Woodinville, Washington ríki, rétt norðaustan við Seattle. Þar er búið að koma fyrir stóru tjaldi og á hverju sumri eru haldnir þar fjölmargir tónleikar. Tónleikagestir mæta með kex og osta og kaupa svo vín á staðnum. Síðan er setið á dúkum og teppum og matur snæddur á meðan beðið er eftir að tónleikar hefjist. Ég kom fremur seint, stuttu áður en tónleikarnir hófust, en af því að ég var bara ein var miklu auðveldara að finna auðan blett á lóðinni, en ef ég hefði verið með öðrum. Ég fékk því magnað stæði, beint fyrir framan sviðið, fyrir aftan dýrasta svæðið þar sem fólk sat á stólum. En af því að við sátum í brekku sá maður yfir þá sem voru fyrir framan. Þetta var frábært útsýni þegar miðað er við að ég keypti ódýrasta miða. Ætti kannski að útskýra að ódýrustu miðarnir voru sæti á grasinu en ekki í stólum eins og dýrari miðarnir. En það er líka langbest. Það er þannig sem fólk nýtur nestisins og þess sem svæðið hefur uppá að bjóða. 

Ringo var ótrúlega tímanlegur. Á miðanum stóð að tónleikar hæfust klukkan sjö og ég held hún hafi ekki verið mikið yfir það þegar maður heyrði allt í einu fyrstu tónana af 'It don't come easy'. Ég skimaði eftir trommaranum snjalla en hann kom ekki á svið fyrr en rétt áður en kom að hans hluta í laginu: Got to pay your dues if you want to sing the blues, but you know it don't come easy...

Karlinn er orðinn sjötugur en hann hreyfði sig eins og unglingur og reitti af sér brandarana þar að auki.

Eftir upphafslagið skellti Ringo sér í gamla Bítlalagið 'Honey don't en síðan kom að nýrra lagi sem ég þekkti ekki en kallast 'Choose love'. Það hljómaði fallega og Ringo gerði þetta vel.

En nú kom að stjörnunum. Fyrstur var kynntur til sögunnar Rick Derringar sem eitt sinn spilaði með hljómsveitinn The McCoys og þeirra stærsti smellur var án efa lagið 'Hang on Sloopy' sem sat í einu viku á toppi breska vinsældarlistans þar til því var skellt um koll af Bítlunum með 'Yesterday'. Það var alla vega nógu vinsælt til þess að ég hafi heyrt það.

Á eftir Rick Derringer tók við snillingurinn Edgar Winter með næststærsta smell sinnar hljómsveitar (The Edgar Winter Group): 'Free Ride'. Ótrúleg tilviljun að fyrir ferðina niðureftir setti ég saman disk með eintómum þjóðvegalögum og þar á meðal var einmitt við Free Ride með Edgar Winter Group. Winter var fyrsti maðurinn (að eigin sögn) að setja ól á hljómborð og spila á það eins og gítar.

Þegar þriðja stjarnan var kynnt til sögunnar, Wally Palmer úr hljómsveitinni The Romantics, stóð ég loks á gati...þar til fyrstu tónar lagsins hófust: 'Talking in her sleep'. Þekkti það undireins. "When you close your eyes and go to sleep/And it's down to the sound of a heartbeat/I can hear the things that you're dreaming about/When you open up your heart and the truth comes out. You tell me that you want me/You tell me that you need me... Ah, níundi áratugurinn!!! Ringo sagði eftir lagið: Einu sinni talaði ég í svefni!

Ringo söng 'I wanna be your man' en síðan kynnti hann næstu tvær stjörnur. Fyrst var það Gary Wright sem þekktastur er fyrir smellinn 'Dreamweaver' sem hann samdi eftir að George Harrison gaf honum bók um hindúisma.

Á eftir Wright var röðin komin að bassaleikaranum Richard Page úr hljómsveitinni Mr. Mister. Sú hljómsveit var einnig mjög vinsæl á níunda áratugnum og lögin þeirra eru nátengd unglingsárum mínum. Page klikkaði ekki heldur fór beint í lagið Kyrie sem var ótrúlega vinsælt á Íslandi í kringum áramótin 1985/86. Þetta var ágætis uppbót fyrir það að ég fór aldrei á tónleika á unglingsárunum. 

Aftur var komið að Ringo og hann söng fyrst nýja lagið sitt 'The other side of Liverpool' sem fjallar um æskuárin, og svo skellti hann sér beint í Yellow Submarine og allir sungu með.

Nú var komið að öðrum umgangi hjá stjörnunum og Winter hóf seinni umferð með aðalsmelli sínum, laginu 'Franskenstein' þar sem hann spilaði bæði á hljómborð og saxafón. Ég las einhvers staðar að hann hafi átt einn stærsta þátt í að gera syntheziserinn að vinsælu hljóðfæri og að 'Frankenstein' hafi verið fyrsta lagið þar sem svuntuþeysir var í aðalhlutverki. Ég var annars hissa á því að 'Frankenstein' hafi verið vinsælla lag en 'Free Ride' því ég þekkti aðeins það síðara.

Ringo söng lagið Peace Dreamer, einnig af nýju plötunni en það var ekki eins gott og 'The other side of Liverpool'. En kannski var það bara vegna þess að ég hafði aldrei heyrt það en var búin að heyra Liverpool lagið. Síðan hófst lagið Back Off Boogaloo sem mér finnst alltaf jafn skemmtilegt. Ég hlustaði á Ringo í bílnum á leiðinni niðureftir og hækkaði alltaf í þegar kom að þessu lagi.

Nú var komið að Palmer sem söng lagið 'What I like about you' sem var fyrsti smellur The Romantics. Virkilega gott lag þótt það veki ekki hjá mér eins miklar minningar og 'Talking in her sleep'.  Á eftir Palmer söng Derringer annan af sínum smellum, Rock and Roll Hoochie Koo, og skellti sér svo bein yfir í Eruption með svakalegu gítarsólói. Gítarinn hreinlega hljóðaði í næturkyrrðinni.

Ringo tók því næst gamla Bítlalagið 'Boys'. Ókei, það var ekki upphaflega Bítlalag. Það var fyrst sungið af The Shirelles, en Bítlarnir tóku það síðan upp og það kom út á fyrstu plötu þeirra, Please Please me. Áður en hann byrjaði með Bítlunum söng Ringo þetta lag með Rory Storm and the Hurricane og honum þykir greinilega enn vænt um lagið. Þegar hann kynnti það sagðist hann ætla að syngja lagið því honum þætti það gaman. 

Komið var að tveim síðustu lögum stjarnanna. Fyrst söng Wright 'Love is alive'  og síðan söng Ricard Page hitt Mr. Mister lagið sem varð vinsælt, 'Broken Wings'. Það var greinilegt að yngri mennirnir tveir Richard Page og Wally Palmer voru ekki eins þekktir og hinir því undirtektirnar við þeirra lögum voru ekki eins miklar og hjá hinum eldri. En kannski ekki skrítið. Tónleikagestir voru flestir komnir yfir fimmtugt og margir hverjir á sjötugsaldri. Þetta var að miklu leyti fólkið sem hefur fylgt Ringo frá upphafi. En þegar Romantics og Mr. Mister voru vinsæl þá voru þau væntanlega upptekin við að ala upp börn og hlusta á gamlar plötur frá sjöunda og áttunda áratugnum. 

Ringo sá um að ljúka tónleikunum og við tók syrpa af frábærum lögum. Fyrst 'Photograph', síðan 'Act Naturally', þá 'With a little help from my friends' og að lokum 'Give peace a chance'. 

Mér fannst vanta nokkur lög sem ég hefði gjarnan viljað heyra. Þar situr á toppnum lagið 'Goodnight Vienna' af samnefndri plötu. En ég hefði líka viljað heyra 'You're sixteen', 'Oh my my' og 'No no song'.  Og að sjálfsögðu hefði ég viljað heyra 'Octopus' garden' og 'Don't Pass me by'. Ó hvað gaman hefði verið að syngja með.

Almennt séð voru tónleikarnir frábærir og sá gamli hefur engu glatað. Hann spjallaði við tónleikagesti á milli laga og þóttist meira að segja gleyma sér á spjallinu. Eitt sinn sagði hann: "Ég veit ekki hverjir hafa meira gaman af þessu, þið eða ég." Stjörnurnar hans voru fjölbreyttar svona hver úr sinni áttinni og allt saman frábærir tónlistarmenn. Það kryddaði tónleikana að heyra svona margt skemmtilegt. Ég viðurkenni reyndar að ef ég hefði farið á Paul McCartney tónleika þá hefði ég ekki verið ánægð með að aðrir væru eitthvað að frekjast til að syngja, en á Ringo tónleikum er það allt í lagi því það var bara svo gaman að vera þarna. Þar að auki er ég vön því að hlusta á Ringo tromma á meðan aðrir syngja. 

Og það að tónleikarnir fóru fram undir beru lofti í fallegu umhverfi vínekrunnar sakaði ekki.

Ég get sagt með sanni að brosið í andliti mér fór ekki af mér allt kvöldið, nema að sjálfsögðu til að syngja með. 

Hér er myndband sem einhver tók upp á tónleikum fyrr í sumar. Eitthvað er reyndar að hljóðblöndun þarna í upphafi. En þetta er gott sambland af því sem þarna var boðið uppá:

 
P.S. Ég tók ekki myndirnar á síðunni. Myndavélar voru ekki leyfðar á svæðinu og ég vildi ekki taka sénsinn. Svo myndirnar á síðunni eru af netinu, teknar hér og þar, og engin þeirra á All Star tónleikum.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband