Færsluflokkur: Dægurmál

Að hitta fólk

Alveg hrikalega fer í taugarnar á mér þessi nýja lenska að tala um að fólk sé að 'hitta' hinn og þennan. 

"Amanda var hætt að hitta Pete og var aftur farinn að hitta gaurinn úr vondu fjölskyldunni..."

Hvaðan kemur þetta eiginlega? Ekki úr ensku því sögnin 'meet' er ekki notuð þannig. Hér er talað um að 'date someone' eða 'see someone' sem ætti því að vera að 'stefnumóta einhvern' eða 'sjá einhvern' (reyndar hef ég séð Íslendinga segja 'deita einhvern'). Er ekki  meira að segja annað hvort slorritanna (Séð og heyrt eða Hér og nú) farið að nota svona mál?

Það furðulega er að ég get ekki séð að það hafi verið nauðsyn á að koma með svona orðalag. Við höfum alltaf  getað talað um sambandsmáls fólks án þess að nota sögnina 'hitta'. Sagði maður ekki bara: Amanda var hætt að vera með Pete og farin að vera aftur með gaurnum úr vondu fjölskyldunni"?

Þar að auki finnst mér ég oft hitta fólk án þess að nokkuð liggi að baki. Þegar ég var á Akureyri um jólin hitti ég til dæmis alveg fullt af fólki, og ætti því kannski að hafa áhyggjur af lauslæti mínu. Reyndar hitti ég flest þetta fólk af tilviljun, annað hvort niðri í bæ eða á Glerártorgi, og fannst það nú allt fremur saklaust. 

Æ, ég ætlaði nú ekki að fara að röfla of mikið yfir tungumálinu enda hefur það aldrei breytt neinu hvort eð er. En ég er að vinna verkefni sem krefst þess að ég lesi geysilega mikið af því sem skrifað er á íslenskar vefsíður og stundum verður mér bara alveg nóg um. 


Um öryggi pósta

Í gær fór fram jarðaför hér á stór Vancouver svæðinu. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema að sá sem jarðaður var er póstur sem fyrir nokkrum dögum datt á svelli þegar hann var að bera út póstinn. Tveimur dögum síðar lést hann úr heilablæðingu. Þetta hefur auðvitað skapað heilmikla umræðu hér ytra um skyldu fólks til þess að hreinsa hjá sér gangstéttirnar svo pósturinn og blaðaburðarfólkið geti gengt sinni vinnu án þess að þurfa að vera í hættu. Hér í Vancouver eru það eingöngu fyrirtæki og fjölbýlishús sem eru skyldug til þess að hreinsa fyrir utan hjá sér en fólk í einbýli eða tvíbýli þarf þess ekki. Í mörgum nágrannasveitafélögunum er öllum skylt að moka hjá sér og hreinsa stéttina, mismörgum tímum eftir snjókomu. Á sumum stöðum er það innan sólarhrings, á öðrum innan tíu klukkutíma. En þrátt fyrir að hér í Vancouver sé það ekki skylda að hreinsa þá er það að sjálfsögðu talin almenn kurteisi við fólkið sem þjónustar manni. Og póstþjónustan hefur sagt að þeir styðji póstana sína hundrað prósent í því að bera ekki út póstinn til þeirra sem ekki hreinsa hjá sér. Ég verð að segja að ég skil það vel. 

Ég man eftir að það var einhver umræða um þetta á Akureyri fyrir mörgum árum þar sem póstur neitaði að bera út til fólks sem mokaði ekki hjá sér stéttina. Pósturinn sagðist ekki myndu leggja líf sitt í hættu með því að klöngrast þetta að dyrunum.

Ef ég man rétt þá er það ekki skylda á Íslandi að moka hjá sér leiðina að dyrunum en ég vil samt sem áður eindregið hvetja fólk til þess að hugsa um það fólk sem þarf að leggja leið sína þangað hvort sem það vill það eða ekki og moka nú vel. 


Rigning

Íslendingum finnst alltaf gaman að tala um veðrið. Það breytist ekkert þótt maður flytji í burtu. Hér kemur t.d. mynd af veðrinu eins og það er í Vancouver í dag:

Cloudy with showers Og hér kemur veðurspáin.

Laugardagur:  Cloudy with showers

Sunnudagur:  Cloudy with showers

Mánudagur:Cloudy with showers

Þriðjudagur:  Cloudy with showers

Miðvikudagur:  Rain

Fimmtudagur:  Rain

Föstudagur:  Rain

Á slíkum tímum saknar maður hins breytilega veðurs á Íslandi. Miklu betra en endalaus rigning.

Og þetta hefur líka sín aukaáhrif. Á miðvikudaginn fengum við hrikalegan storm með allri rigningunni og vatnsból borgarinnar urðu fyrir áföllum sem þýðir að nú er fólki ráðlagt að drekka ekki vatnið úr krönunum. Við þurfum því að sjóða allt vatn sem drukkið er. Lítið þýðir að fara og kaupa vatn því það kláraðist víst allt í morgun. Kaffihús voru meira og minna auð því vatn kláraðist og fæstir kaffistaðir hafa aðstöðu til að sjóða mikið magn af kaffi. Þannig að ekkert hreint vatn var til reiðu til kaffigerðar. Ég er viss um að það voru fleiri árekstrar í umferðinni út af skapvondu kaffifólki sem fékk ekki skammtinn sinn. Ég vona að Íslendingar fari vel með vatnsbólin. Vatnið okkar er eitt það mikilvægasta sem við eigum og ég held að við hugsum ekki nógu miið um það.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband