Færsluflokkur: Ferðalög
Annar ferðadagur - strandirnar
17.8.2009 | 06:39
Ég byrjaði á því að keyra niður eftir suðurströnd Washington til Long Beach á suðvestur horninu. Fyrsti hlutinn er ótrúlega fallegur en ferlega skrykkjóttur. Minnti mig á Ísland.
Á Long Beach, eða Lönguströnd, fer árlega fram flugdrekakeppni og fylltist þá loftið af alls konar flugdrekum. Keppnin á að hefjast á morgun. Ég var því miður degi of snemma á ferðinni en náði þá nokkrum við æfingar.
Það var dásamlegt að labba berfætt eftir ströndinni og láta goluna leika um sig.
Frá Long Beach keyrði ég yfir löngu brúna við Astoria yfir í Oregon og ætlaði mér upphaflega að fara og sjá skipsflakkið við Warrington. Stoppaði á Dairy Queen til að fá leiðbeingingar (og keypti ís í leiðinni). Stelpurnar sem þar voru að vinna voru mjög almennilegar og sögðu mér ekki bara hvernig ég ætti að komast þangað heldur einnig að ég yrði að fara þangað á háfjöru því annars sæi ég ekki mikið. Aftur var ég aðeins of snemma á ferðinni en ég var stelpunum þakklát fyrir að vara mig við.
Svo ég keyrði niður að Cannon Beach. Ég hafði komið þangað einu sinni áður, með Ellen og Peter, frændfólki mínu, en þá stoppuðum við mjög stutt svo ég ákvað að fara þangað aftur og stoppa lengur.
Ég labbaði um ströndina í alla vega klukkutíma. Ströndin við Cannon Beach er alveg dásamlega falleg þar sem Heysátuklettur ber af. Ég labbaði þar til mig var farið að verkja í fæturnar, og þá labbaði ég um bæinn í staðinn. Bætti ekki úr þessu með fæturnar auðvitað.
Frá Cannon Beach keyrði ég niður til Tillamook þar sem ostur er búinn til. Um leið og ég steig út úr bílnum lyktaði allt af kúm. Þekki alltaf kúaskítslyktina úr fjósinu á Einarsstöðum í gamla daga. Ég sleppti því að skoða ostagerðina og fór þess í stað í leit að tjaldstæði.
Fann að lokum eitt álitlegt við Licoln og var næstum því búin að leigja mér tjaldstæði þegar ég komst að því að það var bara um 20 dollurum dýrara að leigja kofa. Svo ég gerði það í staðinn. Hlýrra og almennileg dýna. Miklu betri kostur. Þar að auki var svona sætisróla á veröndinni og ég er alltaf svag fyrir svoleiðis. Jáááá.
Ég eldaði mér mat og kynntist nágrönnunum í leiðinni. (Þurfti nefnilega að fá lánaðan dósaupptakara. Minn virkaði ekki.) Þetta voru hjón frá Nevada með þrjú börn. Karlinn var ákaflega almennilegur og vildi endilega gefa mér bjór. Ég er nú ekki mikil bjórdrykkjumanneskja. Hann spjallaði heilmikið og bauð mér í heimsókn til þeirra í Nevada. Ég hef auðvitað ekki tíma til að keyra þangað og þar að auki fannst mér kerlingunni ekkert vel við það hvað karlinn talaði mikið við mig. Ég held að hann hafi ekkert meint með því en ég ákvað að stoppa ekki of lengi við til að ergja ekki kellu.
Eftir að lesa um stund í rólunni, vafinn í teppi, og eftir að hafa dáðst um stund að stjörnubjörtum himninum, ákvað ég að koma mér í kojs. Nei reyndar ekki kojs, kojs standa ónotaðar og ég nota hjónarúmið svo ég geti notað eins mikið pláss og ég get. Kojs er geymsla fyrir fötin mín.
Ég ákvað að hlaða inn myndum dagsins og komst þá að því að hér er internet tenging. Hugsið ykkur. Á tjaldstæði. Svei mér þá. En hei, ekki kvarta ég. Ég er satt að segja himinlifandi yfir þessu því nú get ég sett þessa færslu inn.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 06:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um jólaköttinn, Kurt Wallander og manninn sem brosti
14.11.2007 | 08:19
Ég er öll að skríða saman. Enda eins gott. Ég þurfti út í Íslendingahús í dag að kenna. Þetta var næstsíðasti íslenskutími vetrarins. Í næstu viku ætlum við að hafa jólatíma og þá mun ég segja þeim frá íslensku jólasveinunum. Kannski ég kenni þeim vísuna um jólasveinana eða kannski Grýlukvæði. Annars er ég alltaf fremur hrifin af laginu um jólaköttinn. Sérstaklega þegar Björk söng það. Kannski ég taki með mér geislaspilara og spili það.
Eftir að hálsbólgan breyttist í kvef var eins og allur máttur væri úr mér dreginn. Ég veit ekki af hverju ég held þokkalegum kröftum á meðan ég er með verk í hálsinum en er eins og drusla þegar bakterían fer í nefið. Í gær og í fyrradag lá ég mest uppi í rúmi og svaf eða las, eða þá ég skreið fram í stofu og horfði á sjónvarp. Sem betur fer var ég nýbúin að fá mér bókina The man who smiled eftir Henning Mankell þannig að það var bara notalegt að skríða upp í rúm. Ég elska Wallander. Ég er svo sorgmædd yfir því að Mankell er hættur að skrifa um hann. Skrítið annars með ensku þýðinguna á bókunum hans. The man who smiled er held ég fimmta bókin í röðinni en var bara þýdd núna í ár og er nýkomin út í kilju. Það er töluvert síðan bækurnar þar á eftir komu. Ég las í vor t.d. bókina þar sem Linda dóttir Kurts er orðin lögreglukona. Hef ekki hugmynd um af hverju þessi bók var ekki þýdd á réttum stað í röðinni.
Hefur annars einhver annar tekið eftir því hversu Erlendur hans Arnalds er líkur honum Kurt Wallander?
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um hættuleg villidýr
3.8.2007 | 17:14
Það er margt gott hér í Kanada og sumt jafnvel betra en heima á Íslandi, en það er líka ýmislegt sem Íslendingar geta verið þakklátir fyrir að vera lausir við. Eitt af því er auðvitað skordýrafánan sem ég hef bloggað um reglulega, en við það má líka bæta stærri kvikindum úr dýraríkinu. Stóru dýrin eru yfirleitt falleg og það er ofsalega spennandi að sjá björn eða úlf í sínu náttúrulega umhverfi en því má aldrei gleyma að þetta eru rándýr og þótt árásir á menn séu ekki algengar þá gerist það samt sem áður allt of oft.
Í dag var grein í blaðinu um mann sem bjargaði 12 ára dreng úr kjafti fjallaljóns, rétt hjá Clinton, BC. Drengurinn hafði verið á leið á kamarinn þegar ljónið stökk á hann aftanfrá og henti honum til og frá. Þegar maðurinn kom að hafði ljónið bitið í höfuð drengsins og hafði báðar framloppurnar á kinnum hans. Maðurinn réðst á ljónið, greip það hálstaki og náði að losa um grip þess á drengnum. Þeir veltust svo um og þegar báðir voru komnir á fætur þá urraði maðurinn og gargaði að ljóninu sem taldi það vissara að aðhafast ekkert frekar. Stuttu seinna var ljónið skotið til dauða.
Þetta gerist aðeins nokkrum dögum eftir að úlfur réðst á mann uppi í Bella Bella, ekkert ógurlega langt frá þorpinu þar sem ég hef dvalið við rannsóknir tvö síðustu ár. Það er enn sjaldgæfara að úlfar ráðist á menn og hér eru víst sjö ár síðan það gerðist síðast. Það hefur reyndar eitthvað verið um að úlfar bíti menn en ekki hefur verið um alvarlegar árásir að ræða. Í þessu tilfelli fyrir nokkrum dögum var um að ræða 31 árs gamlan kajakræðara sem var sem betur fer sterkur og í góðu líkamlegu ástandi þannig að hann náði að yfirbuga úlfinn með því að draga hann með sér að kajak sínum þar sem hann gat gripið hníf og drepið úlfinn. Úlfar eru með fallegustu skepnum sem ég hef nokkurn tímann séð og mér hefur alltaf verið sagt að maður þyrfti ekki að óttast þá því þeir réðust yfirleitt ekki á menn. Ég veit ekki hvað var að hjá þessum úlfi en við krufningu kom í ljós að hann hafði ekki borðað mikið í langan tíma. Hann var líklega svona hrikalega svangur.
Birnir eru önnur falleg dýr og ég hef alltaf orðið mjög spennt í hvert sinn sem ég hef séð björn í sínu náttúrulega umhverfi. En ég hef alltaf verið annað hvort í öruggri fjarlægð eða inni í bíl. Ég hef aldrei staðið augliti til auglits við björn, sem betur fer. Á hverju ári koma upp nokkur tilfelli um árásar bjarna á menn í Kanada og stundum valda þær dauða.
Ég hef í raun aldrei verið í hættu því ég hef aldrei verið ein á ferð á þeim slóðum sem þessi dýr halda sig. Ég fer aldrei í fjallgöngur ein, ekki í útilegu og er almennt ekkert ein á ferðinni nema í öryggi borgarinnar. En hversu öruggur getur maður verið. Í tilfelli litla tólf ára gamla drengsins var hann með fólki en brá sér frá þeim til þess að fara á klósettið. Maður hefur nú gert annað eins.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um innflytjendaraunir
1.8.2007 | 18:51
Ég hef búið í Kanada í átta ár og alltaf verið hér á tímabundnu leyfi. Fyrst á tímabundnu atvinnuleyfi og nú á tímabundnu námsleyfi ('leyfi' í merkingunni 'permit' ekki eins og í leyfi frá atvinnu eða námi).
Fyrir tæpum þremur árum sótti ég um ótakmarkað dvalarleyfi, svo kallað 'permanent residency'. Af því að ég bjó þá þegar í landinu byrjaði ég á því að senda umsókn mína til Calgary þangað sem maður sendir slíkar umsóknir ef maður er í landinu. Vinur minn hafði gert það tveimur árum áður og það tók sex mánuði áður en hann fékk leyfið í hendur. Fjórum mánuðum eftir að ég sendi inn mína umsókn fékk ég hana hins vegar í hausinn og var mér sagt að ég yrði að sækja um leyfið í sendiráði utan Kanada. Fjórum mánuðum var því eytt í vitleysu og nokkrum þar til viðbótar því ég þurfti að borga gjöldin á annan hátt og það tók tíma og svo var ég svo fúl að ég sendi umsóknina ekki inn strax.
Ég sendi umsóknina svo loks til London í lok júní 2005 og samkvæmt bréfi frá Canada high commission í London fengu þeir hana í hendur 4. júlí sama ár. Síðan leið og beið og ekkert gerðist. Í lok febrúar fékk ég loks bréf frá London um að fjórum mánuðum síðar myndu þeir loks fara að skoða umsóknina mína, en af því að fjögur ár voru liðin frá upphaflegu umsókninni yrði ég að endursenda ýmis gögn, svo sem lögregluskýrslur, fjárhagsstöðu og fleiri. Það tók því tíma og peninga að fá þetta allt og senda á ný með öryggispósti til London. Samkvæmt bréfinu átti að taka umsókn mína fyrir í júní. Nú er kominn ágúst og ég hef ekkert heyrt frá þeim.
Nýlega vaknaði ég svo upp af vondum draumi vegna þess að ég mundi að námsleyfið mitt var einungis gefið til fjögurra ára. Það rennur því út í lok september (fyrst hélt ég í lok ágúst). Ég get beðið í tæpa tvo mánuði og vonað að hitt leyfið komi loks áður en september lýkur, eða ég get sótt um framlengingu á námsleyfinu. Það kostar auðvitað um 7500 plús kostnaðinn við að fá opinber gögn frá skólanum (um að ég sé enn í námi), opinber göng frá bankanum (um fjárhagsstöðu mína) og kostnaðinn við að senda umsóknina í ábyrgðarpósti. Þetta verður því alla vega tíu þúsund krónur. Mér finnst auðvitað eins og ég sé að kasta þeim peningum á eldinn því ef hin umsóknin kemst í gegn á næstu tveimur mánuðum þá þarf ég ekki einu sinni á framlengingu á námsleyfinu að halda. Ég talaði við konu hjá innflytjendaeftirlitinu í dag og hún sagði að ég þyrfti ekki að sækja um framlengingu á námsleyfinu fyrr en á síðustu stundu en ef ég vildi hafa lögleg gögn í höndum þá skyldi ég sækja um ekki síðar en í næstu viku.
Ég er alltaf að hugsa um að fara kannski til Íslands í heimsókn í haust en ég þori ekki einu sinni að kaupa miða fyrr en öll mín mál eru pottþétt. Þori ekki að fara úr landi ef ske kynni að mér yrði neitað inngöngu.
Skriffinnskan í Kanada er með ólíkindum.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Einn af fallegustu stöðum landsins
23.7.2007 | 22:43
Það er eitthvað ákaflega töfrandi við Jökulsárlón. Ég veit ekki hvað það er en mér finnst ég sjaldan hafa séð neitt jafn fallegt.
Reyndar var ég óvenju viðkvæm í þetta eina skipti sem ég hef komið þangað. Ég var að keyra hringveginn og á söndunum keyrði ég fram á dauðaslys. Frakkar á ferð um landið höfðu sveigt jeppanum til hliðar til að forðast að keyra á kind, með þeim afleiðingum að jeppinn valt og eiginkonan lést. Þegar ég kom þarna að var jeppinn á hvolfi og eigur þeirra hjóna lá tvístraðar á sandinum. Mikil röð hafði myndast og eftir um hálftíma bið tóku einhverjir að sér að beina umferðinni út af veginum og framhjá slysstaðnum. sandurinn var nógu þéttur þarna til þess að fólk á venjulegum bílum gæti keyrt það án þess að festa sig. Þegar ég sá jeppann og dótið út um allt, vitandi það að kona var dáin, gat ég ekki annað en farið að gráta. Ég grét alla leiðina að Jökulsárlóni og þá grét ég yfir fegurð lónsins. Ég þarf að koma þarna aftur á gleðilegri stund og helst á sólardegi.
Aðsókn að Jökulsárlóni alltaf að aukast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frábærar flugfréttir
19.7.2007 | 20:37
Var að frétt að Icelandair væri búinn að gera samning um að fljúga 5 sinnum í viku til Toronto frá og með næsta vori. Þetta mun víst verða heilsársflug, ekki bara eitthvað sem takmarkast við sumartímann. Þeir mun halda áfram að fljúga til Halifax, og jafnvel oftar en nú er og þeir eru víst einnig að athuga með flug til Winnipeg, Montreal, Ottawa og St. John's. Ég vildi reyndar sjá Vancouver á dagskrá eða jafnvel Calgary, en það munar samt ótrúlega miklu ef þeir fara að fljúga til Toronto. Þá þarf maður ekki lengur að fljúga í gegnum Bandaríkin til að komast heim, og það er yfirleitt hægt að fá flug til Toronto á þokkalegu verði. Halifax hefur aldrei nýst mér sérlega vel því það kostar of mikið að fljúga þangað frá Vancouver.
Ég vona að þeir nái að halda verði niðri því þá geta Íslendingar almennilega farið að kynnast þessu stórkostlega landi, og Kanadamenn geta farið að fljúga til Íslands í auknum mæli. Þótt ég sé ekki alltaf hrifin af öllu sem Icelandair viðkemur þá standa þeir sig nú yfirleitt frekar vel og bara það að geta sloppið við bandaríska tollinn og innflytjendaeftirlitið er stórkostlegt.
Nú getið þið öll komið í heimsókn til mín. Ég er með svefnsófa inni í stofu.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)