Færsluflokkur: Kvikmyndir

Frábært hjá Jóni

Til hamingju Jón. Flott hjá þér!

Jón hefur verið að gera mjög skemmtilega hluti og gaman að sjá hann fá viðurkenningu fyrir verk sín. 

Ég mæli annars með því að Íslendingar kíki á mynd Jóns The Importance of Being Icelandic. Þetta er heimildarmynd um þrjá Vestur Íslendinga sem fara í nám við háskóla Íslands til þess að kynnast landi og þjóð og um leið sjálfum sér. Tveir þessa nemenda urðu síðar ritstjórar Lögbergs Heimskringlu í Winnipeg, Lilliane, sem lést fyrir tveimur árum, og David, sem er núverandi ritstjóri. Bæði alveg frábærar manneskjur og góðir pennar. Þriðji nemandinn Kristine Good var svo í tímum hjá mér í íslensku fyrir elrenda stúdenta þegar ég kenndi stundakennslu við HÍ.

Þessi mynd vakti mikla reiði meðal Vestur Íslendinga. Þeir töldu að Jón væri að gera grín að sér og sumir urðu svo fullir heiftar að þeir voru farnir að tala um landráð. Ég var orðin mjög spennt að sjá þessa mynd eftir að hafa heyrt svo mikið um hana, og eftir að hafa heyrt hversu reiðir sumir urðu, en þegar ég svo loks sá hana skildi ég aldrei af hverju fólk hafði reiðst svona. Mér fannst þetta mjög áhugaverð heimildamynd og ég gat ekki séð neitt sem ætti að pirra fólk, hvað þá að reita það til reiði. Það er reyndar eitt atriði í myndinni þar sem Davíð Þór (held ég) er með uppistand og gerir grín að vestur-íslensku, en það var það eina. Öðrum Íslendingum sem sáu myndina fannst hún jafnsaklaus og mér. Kannski er það sem pirrar fólk mest að í lokin komast öll þrjú að þeirri niðurstöðu að þau séu ekki Íslendingar heldur Kanadamenn með íslenskar rætur.  

En Jón hefur gert mjög spennandi hluti í Kanada og er meðal annars einn aðalmaðurinn í Gimli kvikmyndahátíðinni sem haldin er um Íslendingadagshelgina á hverju ári. Þar eru sýndar íslenskar og vestur-íslenskar bíómyndir auk nokkurra fleiri.

Hef ekki séð Jón í nokkur ár núna. Við hittumst alltaf reglulega í Winnipeg, sérstaklega þegar Svavar og Guðrún voru sendiherrahjón því þá tóku þau okkur krakkana (við bæði í kringum þrítugt) að sér og buðu okkur reglulega í mat. Eftir að Jón flutti til Toronto hef ég aðeins séð hann einu sinni á Íslendingadeginum. Jón, skreppa til Vancouver!!!!  


mbl.is Jón Gústafsson hlýtur verðlaun í New York
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harry Potter

Í kvöld fór ég að sjá Harry Potter. Ég myndi segja að þessi mynd sé betri en sú síðasta en lélegri en fyrstu þrjár myndirnar. Það er hreinlega úr of miklu að moða og handritahöfundum tókst ekki að búa til eina heild úr myndinni. Reyndar sagði Ryan, maður Marion, að honum hafi fundist myndin býsna góð og heildstæð, og af því að hann var sá eini í hópnum sem ekki var búinn að lesa bókina þá verður maður að taka mark á honum. En það var einhvern veginn ekkert nýtt og spennandi þarna. Það er eins og maður sé búinn að sjá þetta allt. Verð reyndar að segja að það var mikið hlegið í bíó. Eitt af því fyndnasta var þegar mátti heyra blýant detta.

Hitt er annað mál að það er sjaldgæft að maður sjái eins marga frábæra leikara á sama stað. Lítið á þennan lista: Ralph Fiennes, Gary Oldman, Alan Rickman, Emma Thompson, Imelda Staunton, Michael Gambon, David Thewlis, Maggie Smith, Julie Walters, Jason Isaacs, Helena Bonham Carter og Robbie Coltrane. Þetta er eins og who's who in British cinema. Ég verð nú líka að segja að mynd sem hefur Ralph Fiennes, Gary Oldman, Alan Rickman og James Isaacs þarf ekki að vera neitt sérstaklega góð. Maður horfir bara á þá.

Mér finnst reyndar að í næstu mynd verði þeir að láta nef á Ralph Fiennes. Hann er svo fallegur með nef.   

P.S. Hér var 29 stiga hiti í dag og nú er hitinn í íbúðinni minni yfir 30 gráður. Við getum gert ráð fyrir því að ég sofi ekki með sæng í nótt. 


Sicko

Í dag fór ég að sjá Sicko, nýju myndina hans Michaels Moore. Þetta er býsna góð mynd en hafði þó ekki sömu áhrif á mig og Bowling for Columbine og Fahrenheit 9/11. Ég held það sé vegna þess að færra kom á óvart í þessari mynd en hinum tveimur. Ég vissi fyrirfram heilmikið um heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum og hvernig ótryggðu fólki er snúið í burtu frá spítölunum, og ég vissi líka að heilbrigðiskerfið var mun betra í hinum löndunum sem leitað var til. Það sem kom kannski mest á óvart var hversu hræðileg tryggingafélögin eru og hvernig þau ná að koma sér undan greiðslum. 

Dæmi 1: Kona með heilbrigðistryggingu verður veik og fer á spítala. Hún heldur að tryggingafélagið muni borga en þeir grafa þá upp gamlar skýrslur frá lækni þar sem segir að konan hafi einhvern tímann löngu áður fengið sveppasýkingu sem hún sagði ekki frá þegar hún sótti um trygginguna. Þeir segja því upp tryggingunni og hún fær engar bætur. Sveppasýking!!!!!!!!

Dæmi 2: Lítið barn veikist alvarlega og er í hasti flutt á nálægasta spítala. Spítalinn hefur samband við tryggingafélag konunnar en þar er þeim sagt að tryggingafélagið muni ekki greiða fyrir læknishjálpina nema á sínum eigin spítala. Það þarf því að flytja deyjandi barnið á annan spítala og ekkert má gera fyrir það á þeim fyrri. Á síðari spítalanum er reynt að bjarga barninu en það er orðið of seint.

Dæmi 3: Rúmlega tvítug kona fær legkrabbamein. Tryggingafélagið segir að hún sé of ung til að fá slíkt krabbamein og neitar að borga.

Dæmi 4: Karlmaður með krabba er deyjandi og læknarnir segja að hægt sé að bjarga lífi hans með því að gefa honum beinmerg úr bróður hans. Tryggingafélagið segir að þetta sé tilraunakennd meðferð, ekki sé búið að sanna að þetta hjálpi, neitar að borga og maðurinn deyr skömmu síðar.

Hugsið ykkur. Þetta er þjóðin sem telur sig betri en aðrar. Hugsið ykkur. Þetta fær maður með einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.

Atriðið þar sem Moore fer með sjálfboðaliða frá 9/11 til Kúbu er ótrúlegt. Þessi þjóð sem hefur verið ásótt af Bandaríkjamönnum í tugi ára, opnar faðminn og veitir fólkinu ókeypis læknisþjónustu. Þjónustu sem þessum bandarísku hetjum var meinað um heima hjá sér.  

Það veitir ekkert af að hafa með sér vasaklút þegar maður fer á þessa mynd því það má sjá mörg átakanleg atriði. Þessi mynd er hins vegar fyrst og fremst fyrir Bandaríkjamenn því það eru þeir sem þurfa að skilja að þeir hafa eitt versta heilbrigðskerfi í vestrænum heimi. Það er vonandi að demókrati setjist næst í stól forseta þarna syðra, og að sá eða sú snúi þessu við og taki upp það nýtt og mannúðlegra heilsugæslukerfi.


Nýja Michael Moore myndin - Sicko

Ég var að enda við að horfa á viðtal við Michael Moore um nýju heimildamyndina hans, Sicko, sem fjallar um heilsugæslukerfið í Bandaríkjunum. Bandaríkin eru í 37. sæti yfir bestu heilsugæslu í heimi, sem er all lélegt miðað við að þetta er ríkasta land í heimi. Margt af því sem Michael Moore sagði er sláandi. Hann tók t.d. sem dæmi að þegar árásin var á tvíburaturnana, 11. september 2001, tók fjöldi sjálfboðaliða þátt í að hreinsa svæðið, hjálpa sjúkum og látnum, o.s.frv. Stór fjöldi þessa fólks varð fyrir alvarlegum skaða af völdum eiturefnanna á svæðinu og eiga nú við alvarlega öndunarsjúkdóma að etja. Bandaríkjastjórn hefur ekkert gert til þess að hjálpa þessu fólki og harðneitar þeim um nokkra aðstoð, nema að það sé vel tryggt. Þetta fólk hætti lífi sínu til þess að bjarga samferðarmönnum sínum og nú er margt þeirra deyjandi.

Hryðjuverkamennirnir sem voru handteknir í kjölfar árásanna voru sendir til Guantanamo Bay á Kúbu þar sem þeir fá topp heilsugæslu. Michael Moore fannst það ósanngjarnt svo hann fór með nokkra sjálfboðaliða út að Guantanamo Bay (á bát) og kallaði svo yfir að fangelsinu að hann hefði með sér fólk sem væri veikt eftir að hafa hjálpað til 11. september og að það eina sem hann bæði um væri að það fengi sömu heilsugæslu og glæpamennirnir sem ollu árásinni. Þessu var ekki svarað og í stað þess að fara með fólkið til baka fór Michael með það til Kúbu þar sem það fékk toppþjónustu - ókeypis - frá kúbönsku læknunum.

Nú er Bandaríkjastjórn búin að kæra Michael Moore fyrir að fara til Kúbu, en Bandaríkjamönnum er ekki heimilt að koma þar. Og það eina sem hann gerði var að leita hjálpar fyrir fólk sem Bandaríkjastjórn hefur yfirgefið.

Þarna var líka sýnt frá yfirheyrslum yfir lækni sem lýsti því hvernig hún neitaði manni um aðgerð sem hefði bjargað lífi hans. Hann var ekki með sjúkratryggingu og átti ekki fyrir aðgerðinni. Hann dó stuttu síðar. Þetta voru tilmæli hennar frá yfirmönnum. Ef þú getur ekki borgað þá færðu ekki hjálp. Á hverju ári deyja þúsundir Bandaríkjamanna vegna þess að þeir geta ekki borgað fyrir læknaþjónustu. Og þetta á að vera besta land í heimi? Ég held að Íslendingar ættu að hugsa málið áður en þeir reyna að einkavæða heilsugæsluna. Eitt af því sem Moore sagði í viðtalinu var að Bandaríkjamenn ættu að taka önnur vestræn fyrirtæki sér til fyrirmyndar þar sem heilsugæslan er á ábyrgð stjórnvalda. Við ætlumst ekki til þess að slökkviliðið skili hagnaði af því að þeirra vinna er spurning um líf og dauða. Af hverju ættum við að ætlast til þess af heilsugæslunni.

Ég hlakka til að sjá myndina. 


Tvær frábærar bíómyndir

Ég fer ekki oft á vídeóleigu enda vanalega nóg að horf á í sjónvarpinu þegar mann langar að eyða kvöldi fyrir framan imbann. En í dag tók ég þrjár myndir á leigu (af því ég þarf ekki að skila þeim fyrr en á mánudag). Ég er búin að horfa á tvær og fannst þær báðar alveg magnaðar.

Fyrri myndin sem ég horfði á er finnska myndin FC Venus. Það er vel hugsanlegt að hún hafi komist í íslensk kvikmyndahús þar sem myndin fjallar um fótbolta, en ég vissi ekki af henni fyrr en í kvöld. Ég vissi ekki einu sinni að hún væri finnsk fyrr en ég fór að horfa á myndina. Þetta er mynd um eiginkonur karla í sjöundu deildar knattspyrnuliði og veðmál sem þær gera við karlana sína. Konunum finnst líf karlanna snúast of mikið um knattspyrnu og þær fá alveg nóg þegar þær komast að því að karlarnir eru búnir að kaupa miða á leiki í Heimsmeistaramótinu í Þýskalandi og ætla að vera þar í þrjár vikur. Þar með er sumarfríið upptekið, fyrir utan nú peninginn sem þetta kostar. Konurnar stofna því sitt eigið fótboltalið með það að markmiði að spila gegn körlunum síðar það sumar. Veðmálið er að ef konurnar vinna leikinn þá mega karlarnir ekki horfa á eða spila fótbolta framar. Auk þess verða þeir að láta konurnar fá miðana sína. Ef karlarnir vinna verða konurnar að hætta að kvarta yfir fótboltanum og verða þar að auki að borga undir karlana. Karlarnir halda að þetta verði létt verk og löðurmannlegt en þeir vita ekki að ein kvennanna æfði knattspyrnu í mörg ár, besta vinkona hennar er atvinnumanneskja í knattspyrnu (og þarf bara að sofa hjá einum karlanna til að komast í liðið) og þar að auki er pabbi hennar atvinnuþjálfari. Með þetta að vopni, og heilt sumar til að æfa, ná konurnar að komast í býsna gott form. Þetta er ofsalega skemmtileg mynd sem tekur sig ekki of alvarlega. Þarna eru margir góðir brandarar en þess á milli er tekist á við alvarlegri mál. Ég held ég hafi aldrei áður séð finnska mynd sem er ekki eftir Kaurismäki.

Seinni myndin er jafnvel enn betri. Það er kanadíska myndin Bon Cop, Bad Cop. Söguefnið hefur verið margtuggið í bandarískum bíómyndum. Tvær löggur eru látnar vinna saman að máli þrátt fyrir að líka illa hvor við annan. Þá hafa þeir mjög ólíkar vinnuaðferðir. Málið er hins vegar að þessi mynd tekur á þessu allt öðruvísi og ég hreinlega engdist um af hlátri yfir mörgum atriðunum. Í byrjun myndarinnar, t.d. finnst lík sem hangir á skilti sem skiptir Ontario og Quebec. Löggurnar tvær vilja báðar losna við málið (önnur er frá Toronto og hin frá Montreal) og rífast um hvor hluti líkamans eigi að gilda. Þetta leiðir til mjög athyglisverðra atburða sem enda á að líkið rifnar í tvennt. Og nei, þetta er ekki slapstick fyndni, þótt kannski megi lesa það út úr því sem ég skrifa hér. Mikið er gert úr tungumálamuninum þótt báðar löggurnar séu tvítyngdar og skipti stöðugt á milli mála (það kallast CodeSwitching og er mjög spennandi fyrirbæri). Til dæmis er þarna atriði þar sem frankofón löggan er að útskýra blótsyrði fyrir anglófón löggunni og byrjar á flóknum útskýringum um hvað gerist þegar orðið er sett í karlkyn, o.s.frv. Málfræðingurinn í mér hafði hina bestu skemmtun af.

Þessi mynd fékk nær öll kanadísk kvikmyndaverðlaun sem hægt er að fá nú í vetur og margir eru sammála um að þetta sé besta  kanadíska mynd sem gerð hafi verið (betri en Porky's hehe). Ég hef auðvitað ekki séð það margar kanadískar myndir, en ég get trúað því að þetta sé rétt. Eina myndin sem kannski kemst nálægt þessari er Rauða Fiðlan sem gerð var fyrir sirka tíu árum. 


Skrekkur þriðji

Í gær fór ég að sjá Shrek 3 og hafði bara gaman af. Ég er reyndar sammála því sem ég las í einhverjum dómi að þessa mynd vanti hjartað og standi þannig að baki hinum tveim fyrstu, en ég held það hafi verið alveg jafnmargir brandarar í þessari. Ég hló hjartanlega í fjölmörg skipti.

Það hefur einkennt Shrek myndirnar frá upphafi að þær eru jafnmikið gerðar fyrir fullorðna og fyrir börnin. Ekki á sama hátt og myndir eins og ToyStory sem setti inn fullorðinsbrandara hér og þar til að halda hinum fullorðnu ánægðum, heldur eru brandararnir fyrir þá fullorðnu líklega enn fleiri en þeir eru fyrir börnin. Það er eins og börnin fái að njóta sögunnar og teiknimyndanna og við hin fáum grínið og glensið. Alla vega hlógu þeir fullorðnu mun oftar í bíóinu en börnin. Stundum var þetta mjög hulið grín, eins og þegar Shrek og Artie eru um það bil að ná saman á viðkvæmu nótunum, þá byrjar galdrakarlinn Merlin að spila upphafstónana úr "That's what friends are for" með Diane Warwick. Maður þarf að þekkja lagið og muna textann til þess að njóta þessa fullkomlega. Þetta er auðvitað langt fyrir ofan þekkingu og skilning þeirra sex ára. En þau fengu líka nokkra piss og kúk-brandara handa sér. 

Ég myndi segja að sagan í heild sé ekki eins góð og sú úr fyrstu myndinni (og líklega ekki heldur eins góð og sagan í mynd tvö sem þó stóð að baki þeirri fyrstu), og nýjabrumið er auðvitað farið, en myndin er alveg jafnfyndin og mér fannst þetta hin besta skemmtun. 


Rotnir tómatar

Ef ske kynni að það væri einhver sem ekki þekkir kvikmyndasíðuna Rotnir tómatar (Rottentomatoes) þá ákvað ég að setja hér inn tengingu á síðuna: http://www.rottentomatoes.com/

Þessi síða er að mínu mati gagnlegasta kvikmyndasíðan á netinu því þarna er safnað á einn stað ótrúlegum fjölda kvikmyndadóma. Maður þarf því ekki að treysta á smekk eins gagnrýnanda heldur fær maður gott yfirlit yfir hvað gagnrýnendum almennt finnst um myndina, auk þess að fá upplýsingar um leikara o.s.frv. Þá er líka hægt að lesa dómana sjálfa.

Mynd sem fær jákvæðan dóm í 60% tilfella fær tómat en myndirnar þar fyrir neðan fá tómatklessu.  Þannig er hægt að fá í fljótu bragði að sjá hvort það er þess virði að fara og sjá myndina. Ég hef reyndar haft gaman af mynd sem fer jafnneðarlega og í 40% en ég held ég hafi aldrei séð neitt gott fyrir neðan það, þá sjaldan ég hef farið á þannig mynd. Nútildags hef ég ekki efni á að fara of oft í bíó þannig að það er gott að fara og kíkja á hvaða dóma myndirnar fá. Stundum fer ég þótt dómar séu lélegur. T.d. fær Shrek aðeins 42% en ég ætla samt að sjá myndin. Bara af því að fyrstu tvær voru svo skemmtilegar.

Áðan skrapp ég út að sækja smá kínverskan mat. Það er orðið svo langt síðan ég hef fengið uppáhaldið mitt, mongolian beef og Seszhuan beans. Á bakaleiðinni stoppaði ég á vídeóleigu því nú eru allir sjónvarpsþættir komnir í sumarfrí. Rakst þar á A little trip to heaven. Finnst ég verð að sjá allar myndir frá Íslandi. Þar að auki eru Peter Coyote og Forrest Whittaker í myndinni. Á Rottentomatoes eru of fáir dómar um myndina til þess að hún fái prósentutölu en hún hefur fengið þrjá ferska tómata og einn rotinn (tómatklessu). Það lofar þokkalegu.

 

 


Hilmar Örn tilnefndur til Genie verðlauna

Ég var að kíkja á tilnefningarnar til kanadísku Genie verðlaunanna, sem eru óskarsverðlaunin hérna hjá Kanadamönnum. Kvikmynd Sturlu Gunnarssonar Bjólfskviða fékk þrjár tilnefningar, og þar á meðal var Hilmar Örn Hilmarsson tilnefndur fyrir tónlistina í myndinni. Þetta var sjálfsagt í íslenskum fréttum fyrir löngu en ég vissi ekki af þessu fyrr. Gleymdi alveg að fylgjast með að þessu sinni.

Því miður fékk Hilmar ekki verðlaunin heldur Jean Robitaille

Hinar tilnefningar myndarinnar voru  þessar: Jan Kisser er tilnefndur fyrir það sem á ensku kallast cinematography og Jane Tattersall, Barry GIlmore, David McCallum, Donna Powell og Dave Rose eru tilnefnd fyrir hljóðblöndun. Þessir aðiljar töpuðu líka.

Í öðrum fréttum af Genie tilnefningum ber að nefna að Stephen McHattie var tilnefndur fyrir bestan leik í aukahlutverki. Það veit ábyggilega enginn Íslendingur hver Stephan McHattie er nema ég, en ef einhverjir muna eftir þáttunum um Emily of New Moon þá get ég nefnt að hann var frændinn. Hann var líka Frank Coscarella í Cold Squad þáttunum sem ég hef áður minnst á á þessu bloggi. Ég byrjaði að horfa á Cold Squad út af McHattie. Hann er virkilega góður leikari.

Og góðu fréttirnar.....Hann VANN.  

Miðað við tilnefningar eru helstu kanadísku kvikmyndirnar þessar

Maurice Richard/The Rocket = 13
og
Bon Cop, Bad cop = 11

Bon Cop, Bad cop var hins vegar valin besta myndin. 

Ég hef hvoruga séð enda fer lítið fyrir kanadískum myndum í bíóhúsum. Vanalega komast þær á kvikmyndahátíðar en sjaldan í almenna sýningu. Kanadamenn vantar hreykni Íslendinga þegar kemur að heimilisiðnaði. Heima fara allir á íslenskar bíómyndir. Ég er ánægð með það. 


Köld slóð

Ég fór að sjá Kalda slóð í dag og hafði bara gaman af. Skemmtilegt að sjá hversu íslenskri kvikmyndagerð hefur fleytt fram. Ég var sérstaklega hrifin af Briem stelpunni. Hef aldrei séð hana leika áður en finnst hún mjög efnileg og svo er þetta bráðhugguleg stelpa. Mér fannst hún líka eitthvað svo eðlileg. Það var reyndar nokkur munur á yngri og eldri leikurunum. Þótt eldri leikararnir séu færir þá var greinilegt á nokkrum þeirra að þeir ólust upp í leikhúsinu en ekki í kvikmyndum og því fannst mér framburðurinn eins og gerður fyrir leikhúsið. Þið vitið hvernig leikarar tala svo mál þeirra berist sem best. Ekki vottaði fyrir þessu hjá yngstu leikurunum. Þessi svona á fimmtudagsaldri voru svo einhvers staðar í miðjunni.

Mér fannst sögusviðið bæði undurfallegt og óhugnalegt, sagan var spennandi og áhugaverð og fléttan kom mér á óvart. Ég fór með mömmu og pabba sem ég hef ekki farið með í bíó í áraraðir og mamma sofnaði næstum því í byrjun en um miðjan fyrri helming var hún orðin glaðvakandi og fylgdist með af áhuga.

Mér fannst tónlistin flott og var sérlega hrifin af lokalaginu. Ambo eitthvað...eða nei, ég man það ekki.  Hvað hét þessi hljómsveit?  Verð að athuga með plötur frá þeim.

Það versta við þessa bíóferð var að hljóðið í auglýsingunni sem kom á undan var að æra mann. Ég var mjög fegin þegar í ljós kom að myndin sjálf var ekki eins ógurlega hátt stillt.

Ó já, eitt annað. 'A tíma fóru tal og mynd alls ekki saman. Veit ekki hvort það voru mistök í sýningu eða klippingu.

En ég mæli eindregið með þessari mynd.

Nú verð ég að fara og sjá Mýrina. Það var hætt að sýna hana á Akureyri þegar ég kom til Íslands en ég fer suður síðar í vikunni og mér skilst að hún sé enn í kvikmyndahúsum þar. 

 

 


Nýjar kvikmyndir

Ég er búin að fara þrisvar sinnum í bíó á síðustu tveimur vikum eða svo, sem er órúlegt miðað við að bíómyndirnar þrjár sem ég sá þar á undan dreifðust á eina fimm mánuði. Það var aðallega vegna þess að það var ekkert áhugavert í kvikmyndahúsunum í langan tíma. Ég ætla að segja ykkur frá þessum þremur myndum, svo og einni sem ég sá ekki fyrir löngu.

Stranger than fiction
Í gær sá ég 'Stranger than fiction' sem var allt sem ég hafði búist við. Will Ferrel í sínu allra besta formi. Þótt mér hafi alltaf fundist hann frábær sem gamanleikari þá var hann enn betri í þessari mynd. Að því leyti stendur þessi mynd við hlið Eternal Sunshine of the spotless mind (önnur frábær mynd) þar sem Jim Carey sýndi að hann getur gert meira en að glenna sig. Reyndar minnir STF á þá mynd að mörgu öðru leyti, rétt eins og aðrar Kaufmann myndir, því það sem gerir myndina sérstaka er fyrst og fremst söguformið. Það að sköpunarverk höfundar skuli ekki aðeins vera lifandi heldur og einnig heyra rödd sögumanns er auðvitað frábært, og það að höfundur hefur ekki hugmynd um þetta gerir þetta enn skemmtilegra. Mig langar mikið að ræða einstaka þætti en það er eiginlega ekki hægt nema segja of mikið frá og ég held að það sé betra fyrir fólk að vita ekki of mikið. 

Auk Will Farrel eru þarna Emma Thompson, sem alltaf hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér, og hún er frábær í myndinni (ekta keðjureykjandi rithöfundur með ritstíflu) og Dustin Hoffmann sem klikkar ekki. Jú, og við þetta má bæta Tony Hale sem var Buster í þáttunum Arrested Development. Frábærir þættir, veit ekki hvort þeir voru sýndir á Íslandi.

En sem sagt, frábær myndir. Farið endilega að sjá hana. Fjórar stjörnur.

Borat
Fyrst þegar ég sá brot úr Borat sýndist mér þetta of ósmekklegt til að nenna að sjá myndina. En þegar ég frétti að það væru aðeins tveir leikarar í myndinni, aðrir væru venjulegir Bandaríkjamenn sem Borat hitti á ferðum sínum var ljóst að ég mætti ekki missa af þessu. Það er alltaf svo skemmtilegt að hlæja að Bandaríkjamönnum. Og það fór svo. Je minn góður. Það sem sumt fólk sagði. Og þetta lið skrifaði undir samning um að það mætti sýna þetta. Nú segir það auðvitað að það hafi verið blekkt. Kannski sýnir það bara enn og aftur að maður á aldrei að skrifa undir neitt án þess að lesa það yfir vel og vandlega.

Ég hló heilmikið en auðvitað er myndin ósmekkleg.  Þrjár stjörnur.

Flushed away
Teiknimynd framleidd af Ardman films sem gerðu Wallace and Gromit en er samt ekki Nick Parker mynd. Þessi mynd er gerð með töluvtækni en ekki úr leir eins og fyrri Ardman myndir en karakterar eru gerðir í sömu mynd. Sömu tennurnar og sami munnsvipurinn almennt. Og svei mér þá ef hún er ekki bara jafn fyndin og Wallace and Gromit. Myndin er um rottu (eða mús - var aldrei viss) sem eru gæludýr lítillar stúlku en er einn daginn sturtað niður um klósettið og lendir í rottuheimum undir Lúndúnaborg. Þar kynnist gæludýrsrottan alvöru rottum og þar á meðal sætri stelpurottu sem er 'one tough cookie'. Þetta er svona nokkurs konar James Bond rottuheima.

Ég skemmti mér konunglega. Þrjár og hálf stjarna.

Little miss sunshine
Verð að minnast á þessa mynd sem ég sá einhvern tímann í haust. Myndin er um litla stelpu sem tekur þátt í fegurðasamkeppni barna, og um hennar ófullkomnu fjölskyldu. Bróðirinn er í þagnabindindi, faðirinn (Greg Kinnear) er með einhvers konar fullkomnunaráráttu á heilanum og er búinn að hanna einhvers konar tólf þrepa prógram um það hvernig maður eigi að fá það sem maður vill. Móðurbróðirinn (Steve Carell) þarf að vera undir eftirliti vegna sjálfmorðsáráttu og mamman (Toni Collette) á erfitt með að gera öllum til geðs. Að lokum er það afinn (frábærlega leikinn af Alan Arkin) sem er létt klikkaður. Saman keyrir þetta lið frá Arizona til Californiu (sem er svo sem ekkert ógurlega langt) og margt gerist á þeirri ferð.

Frábær mynd. Mæli eindregið með henni. Fimm stjörnur.

 Little Miss Sunshine pic


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband