Ólympíuþorpið og öryggisleit

Í dag var tækniæfing í Ólympíuþorpinu. Verið var að prófa hljóð og mynd fyrir Chefs de mission fundina sem þar verða haldnir annan hvern dag. Chef de mission er fulltrúi keppnisþjóðar á Ólympíuleikum. Hann mætir á svæðið á undan keppendum og sér til þess að allt sé tilbúið, og situr síðan sem fulltrúi landsins á þessum upplýsingafundum sem haldnir eru á morgnana. Fundirnir fara fram á bæði ensku og frönsku og það er mitt lið sem sér um að túlka. Þannig að við fórum í þorpið til þess að sjá til þess að allt væri tilbúið frá okkur séð.

Ólympíuþorpið er svakalega flott og útsýnið er ótrúlegt. Á besta stað í borginni. Bráðum flytja þangað íþróttamenn alls staðar að úr heiminum (ja, ekki svo margir frá Afríku eða Suður Ameríku), hengja upp sína fána, og svæðið breytist í alþjóðlegar búðir.

Fjör er líka að færast í blaðamannahöllina. Á morgun er lokað hjá okkur því öryggisgæslan sem saman er sett af Vancouverlögreglunni, riddaralögreglunni og kanadíska hernum, mun þá fara um allt svæðið og leita að vopnum, sprengjuefni og öðru þvíumlíku. Að því loknu er svæðið talið öruggt, og eftir það þurfum við í gegnum öryggisleit eins og á flugvöllum, í hvert sinn sem við mætum til vinnu. Stuðið hefst sem sagt fyrir alvöru á sunnudaginn.

Og ef einhver vissi það ekki, þá eru núna aðeins tvær vikur í setningarathöfnina (þrettán dagar á Íslandi þar sem komið er fram yfir miðnætti hjá ykkur). Lokahnykkurinn nálgast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það vantaði bara trommusláttinn til að undirstrika spennuna við þennan póst.

Rut (IP-tala skráð) 30.1.2010 kl. 14:18

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Já. Við höfum innbyggðan trommuslátt núna.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 30.1.2010 kl. 18:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband