Verðlaunasókn Kanadamanna og hokkí

Nú eru liðnir tólf dagar af þessum Ólympíuleikum og Kanadamenn eru töluvert óánægðir með árangur sinna manna, þrátt fyrir sex gullverðlaun, fjögur silfur og eitt brons, samanlagt 11 verðlaun þegar keppnin er rúmlega hálfnuð. Töluverðum fjármunum var veitt í íþróttaiðkun og búist var við betri árangri á heimavelli. Þetta er reyndar langt frá því að vera slæmt. Í Salt Lake City fengust sautján verðlaun (7-3-7) og í Torino fengust 27 (7-10-7). Það ætti því að vera hægt að jafna Salt Lake árangurinn en Torino árangurinn verður erfiðari. Hins vegar má benda á að kanadísku stelpurnar í hokkí eru komnar í úrslit og fá því að minnsta kosti silfur þar; nokkuð öruggt er að Kanadamenn fá verðlaun í krullu karla og kvenna, og eins og er, standa kanadískar stelpur bestar að vígi eftir fyrri keppnisdag í bobsleðakeppni með lið í fyrsta og fjórða sæti. Þá eru eftir keppnir í skautaboðhlaupi þar sem Kanadamenn eru sterkir í báðum kynjum. Kannski var þrýstingurinn of mikill á keppendur.

Ég fór á minn fjórða hokkíleik í kvöld - sá Kanada rúlla yfir Þýskaland 8-2. Þeir hefðu reyndar aldrei átt að þurfa að spila þennan leik því leikurinn var umspil um sæti í fjórðungsúrslitum. Eftir að hafa tapað fyrir Bandaríkjunum hafa Kanadamenn gert leiðin að gullinu þyrnum stráða. Á morgun þurfa þeir að spila við Rússa, eitt af bestu landsliðum í heimi, og ef þeir vinna þá, þá tekur við leikur gegn Svíþjóð, sem einnig hefur frábært lið í ár. Þessi þrjú lið eru að mínu mati best og við hefðum átt að fá gullleik milli tveggja þeirra. Í staðinn er líklegt að annað liðið sem leikur til úrslita verði annað hvort Finnland eða Tékkland. Það gerir úrslitaleikinn alls ekki eins spennandi og hann hefði getað verið. Undarlegt hvernig úr þessu spilaðist.

Hinir leikirnir sem ég hef séð á þessum Ólympíuleikum voru Kanada-Sviss, Rússland-Slóvakía og Svíþjóð-Finnland. Allt magnaðir leikir.

Leikurinn á morgun á eftir að verða ótrúlegur. Hugsið ykkur hverjir verða á vellinum:
Fyrir Rússland menn eins og Ovechkin, Malkin, Datsyuk, Kovalchuck, Nabokov, Gonchar, Markov, Semin, Federov...
Fyrir Kanada: Crosby, Iginla, Luongo, Brodeur (þó ég efist um að hann leiki á morgun, held að Luongo haldi sætinu), Niedermayer, Getzlaf, Heatley, Marlow, Thornton...

Vá, ótrúlegt.

Of ef Kanada kemst framhjá Rússlandi, þá taka Svíarnir við með Sedin bræður, Lidström, Lundquist, Öhlund, Alfredson, Backström, Ericson, Pahlson, Zetterberg...

---

Fyrir utan hokkí hef ég aðeins séð pínulítið af krullu. Kíkti á völlinn í gær og heimsótti kollega minn á krulluvellinum, og nokkra af sjálfboðaliðunum sem ég þjálfaði. Einn þeirra hafði rétt tíma til að segja hæ og svo þurfti hann að hlaupa til að hjálpa kínverskum keppandi í lyfjaprófi. Stuðið í krullunni hefur verið ótrúlegt og aldrei nokkurn tímann hefur stuðningur verið eins mikill. Áhangendur öskra og syngja og berja bumbur og krulluspilarar eiga í erfiðleikum með að heyra skipanir fyrirliðans fyrir látunum. Reglulega brýst út söngur, þá vanalega þjóðsöngurinn, og sumir eru víst vel fullir. Uppselt er á hverjum degi. Hverjum hefði dottið í hug að svona mikið stuð væri á krulluleik.

Ég hef líka farið tvisvar út í UBC þar sem fram fer hokkí kvenna. Þar hefur verið góð stemning líka en kannski ekki eins og í krullunni, sem er undarlegt þar sem Kanada er hokkíþjóð. En aðal spennan er í kringum karlaliðið. Kanadamenn eru enn býsna miklir þursar þegar kemur að íþróttum - sérlega hokkí.

Farin að hátta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Úps, gleymdi Bandaríkjamönnum. Þeir gætu að sjálfsögðu spilað um gullið rétt eins og Finnar eða Tékkar. Þeir hafa ekki spilað neitt ógurlega vel en samt fengið mikilvæg stig og sitja efstir í keppninni. Þeir hafa ungt lið sem gæti farið alla leið, en ég tel samt hæpið að það gerist.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 24.2.2010 kl. 19:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband