Allt búið
26.3.2010 | 06:49
Ólympíuleikarnir eru að baki og ég er atvinnulaus. Reyndar er það aðeins tæknilega svo því ég hef doktorsritgerð sem ég þarf að klára þannig að í raun er ég aftur nemandi. En þar sem ég mun ekki skrá mig opinberlega í háskólann fyrr en næsta önn byrjar í júní þá ætla ég að þiggja atvinnuleysisbætur í fyrsta sinn á ævinni. Ég veit hreinlega ekki almennilega hvernig það er. Hef aldrei verið í þeirri stöðu áður.
Ég er ekki almennilega búin að ná því ennþá að þetta skuli vera búið og að líf mitt hafi enn og aftur tekið stakkaskiptum. Kannski ekki skrítið. Síðasti vinnudagurinn var á mánudaginn og í gær var svo lokapartý starfsmanna og þar virtust hreinlega allir vera mættir að fagna lokunum (eða syrgja þau?). Þar hitti ég hérum bil alla vinina sem ég hef eignast á síðastliðnum tveim árum. En margir þeirra eru á leið í burtu og suma sé ég örugglega aldrei aftur. Aðrir eru héðan og enn aðrir urðu ástfangnir að Vancouver og ætla að reyna að fá aðra vinnu hér á svæðinu. Þannig að ólíkt fyrstu fimm árunum hér í Vancouver þar sem ég þekkti sama og engan nema fólkið í skólanum, þá á ég nú hóp vina sem ég get hringt í þegar mig langar að gera eitthvað. Og það er mikill munur og á eftir að gera skrifin auðveldari. En það breytir því ekki að sumra á ég eftir að sakna mikið.
Í dag svaf ég fram að hádegi og fékk mér svo lúr um fimm leytið. Á morgun verð ég að borga reikna, þrífa íbúðina, sinna öðru smálegu sem ég hef ekki sinnt í tvo mánuði. Og svo verð ég að endurnærast nægilega til að ég geti tekið til við skriftir. Flestir hinna sem unnu með mér eru á leið á sólarströnd eða til fjarlægra landa. Og ég skrifa doktorsritgerð. Hmmmm...einhvern veginn verð ég að finna ljósa punktinn í því. Ef ég get bara einbeitt mér að húfunni sem ég fæ á hausinn þegar ég útskrifast, og titlinum...
Set að lokum inn nokkrar myndir af mér frá Ólympíuleikum fatlaðra.
Athugasemdir
Sæl fröken S.!
Vona að "fráhvarfseinkennin" verði ekki slæm, þú lifir af næstu mánuði og náir nú einhverjum "glaðningi" svona mitt í skrifunum.Það varla neinn heimsendir eða smámn þótt þú brúir bilið með að fá bæturnar, ef maður hefur einu sinni tekið ákvörðun, þá þýðir ekkert annað en horfa bara fram á vegin og ekki með neinni eftirsjá.
Þröstur Guðjóns hefur já verið ötull blessaður sl. árin í störfum fyrir fatlaða, en upphaflega kom hann norður, vestfirðingurinn, að þjálfa í fótboltanum og þá bráðungur held ég.
bk. yfir hafið.
Magnús Geir Guðmundsson, 27.3.2010 kl. 14:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.