Á Whistlermóti unglinga

Eins og ég nefndi hér á blogginu fyrir nokkrum dögum þá fór fram alþjóðlegt skíðamót unglinga hér í Whistler. Tveir fjórtán ára gamli Íslendingar kepptu á mótinu; þau Jakob Helgi Bjarnason og Helga Vilhjálmsdóttir.

Pabbi Jakobs er Bjarni Bjarnason sem æfði skíði með mér á Akureyri fyrir, ja, örfáum árum. Svo mér var boðið að koma uppeftir og eyða helginni með Íslendingunum. Þarna voru líka Vilhjálmur pabbi Helgu og Óli Harðar sem einnig æfði skíði á Akureyri þarna um árið. Þeir Bjarni og Óli eru reyndar aðeins eldri en ég þannig að við æfðum aldrei saman en þeir voru í fullorðinsflokki þegar ég var í unglingaflokki þannig að maður vissi auðvitað hverjir þeir voru enda skíðaklúbburinn ekki svo stór. 

Ég keyrði uppeftir á föstudagskvöldinu og var fram á sunnudagskvöld. Fékk herbergi útaf fyrir mig í íbúð Villa og Helgu og það var ekki bara séð um að redda mér húsnæði heldur fæði líka. Og ég þurfti ótrúlega lítið að gera til að vinna fyrir þessu öllu saman. Stóð við marklínu og lét vita tímana sem aðrir keppendur komu niður á.

Krakkarnir stóðu sig ótrúlega vel. Jakob varð í fyrsta sæti í svigi og öðru sæti í stórsviginu, og Helga, sem er byrjandi í þessum alþjóðamótum varð í kringum tuttugasta sæti í sínum greinum. Ótrúlega frábært hjá þeim báðum þegar miðað við að það voru í kringum hundrað keppendur í hvorum flokki.

Það er alveg ljóst að ef góður árangur á að nást á erlendum stórmótum þá verða krakkarnir að byrja að æfa og keppa erlendis. Snjórinn kemur allt of seint á Íslandi og brekkurnar eru yfirleitt ekki nógu langar. Þegar þau koma svo upp í fullorðins flokk og fara að keppa á alþjóðlegum mótum þá er undirbúningurinn ekki nógu góður. Þess vegna tel ég að þessir krakkar sem eru að fara erlendis nú eigi meiri möguleika á góðum árangri í framtíðinni en nokkur Íslendingur hefur náð áður. Hingað til er Kristinn Björnsson líklega sá besti sem við höfum átt. Ég held að Jakob eigi eftir að ná lengra en hann. Og þá verður virkilega gaman að fylgjast með Ólympíuleikum.

Það var annars alveg geysilega skemmtilegt fyrir mig að eyða þessari helgi með Íslendingunum og að komast aftur í snertingu við skíðaíþróttina. Ég hef ekkert haft með hana að gera síðan ég hætti sjálf að æfa, nema þá aðeins að fara á skíði af og til. Það voru því margar góðar minningar sem komu fram þegar ég tók þátt í þessu með þeim núna. En ég sakna þess ekki að bræða undir skíðin og skafa. Sá þáttur var aldrei mjög skemmtilegur.

Nú verð ég bara að eignast mína eigin gríslinga svo ég geti orðið skíðamamma.    

    

   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ Stína

Góður og skemmtilegur pistill hjá þér.  Flott að þú gast komist uppeftir og verið með þeim.  Það var stutt stopp hjá þeim feðgum á Íslandi, því þeir hoppuðu beint uppí næstu vél þegar þeir lentu í Keflavík á miðvikudagsmorgunn og flugu á Stokkhólm og þaðan fóru þeir til Tärnaby í N-Svíþjóð. Jakob, og fleiri íslenskir krakkar, eru að keppa þar á Ingemar Trophy. Hann keppir í stórsvigi í dag, svigi á morgunn og paralell á sunnudag. Síðan er Andrés í næstu viku, en óvíst hvort krakkarnir komist heim í tæka tíð útaf náttúrhamförum með tilheyrandi öskufalli.

En allt verður reynt til að koma þeim heim í tæka tíð.

bkv.

Elli 

Elli Bjarna (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 09:27

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk kærlega Elli. Láttu  mig endilega vita hvernig þeim gengur nú um helgina.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 17.4.2010 kl. 22:26

3 identicon

Hæ Stína
Þeir komust heim í gær með flugi frá Trondheim. Keyrðu með rútu frá Tärnaby í rúma 10 tíma. Tóku ekki sénsin á því að flogið yrði frá Stokkhólmi eða Osló. Jakob varð 3 í stórsviginu, hlekktist á í fyrri  og var 8. eða 9. en tók brautartíma í seinni og endaði í 3.
Í  sviginu var hann með langbesta tímann eftir fyrri ferð en fór á hausinn í seinni. Síðan var ,,paralell'' á sunnudeginum og endaði hann 3. þar.

Elli Bj (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 22:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband