Ísland yfirgefið
19.1.2007 | 17:23
Ég er búin að segja bless við Ísland í bili og þótt mér þykir margt orðið rotið á fróni þá sakna ég þess alltaf ógurlega að fara þaðan. Fyrst og fremst sakna ég fjölskyldu og vina og ég fer alltaf að gráta þegar ég kveð mömmu og pabba. Greinilega allt of mikil mömmu- og pabbastelpa.
Ég var nokkra daga í Reykjavík áður en ég hélt vestur um haf. Fór þangað fyrir viku og byrjaði á því að halda fyrirlestur í Nýja Garði. Þar var alveg fullt út úr dyrum og ég var bara býsna ánægð að sjá það. Skemmtilegast var að sjá allt fólkið sem ég kynntist á námsárum mínum þar. Suma hafði ég ekki séð lengi. Fyrirlesturinn gekk held ég bara ágætlega. Ég var reyndar svolítið stirð enda hef ég aldrei talað um þessi mál á íslensku en það sköpuðust líflegar umræður og ég frétti utan að mér að fyrirlesturinn hefði mælst vel fyrir.
Ég fór í kvöldverðarboð á hverju kvöldi. Borðaði megnið af íslenskum húsdýrum:Fékk lambakjöt hjá Siggu, folaldakjöt hjá Guðrúnu Helgu og Friðriki, nautakjöt hjá Eiríki og Gunnu og svínakjöt hjá Borghildi. Geiri og Erna ætluðu að bjóða mér í mat en urðu hreinlega of sein - öll kvöld upp bókuð. Svo ég fór í hádegisbrunch hjá þeim á sunnudaginn. Inn á milli þessa alls borðaði ég íslenskar pylsur með öllu enda sakna ég svoleiðis gæðamatar.
Ég náðir reyndar að borða flest allt sem mig langaði í á Íslandi: slátur, saltkjöt og baunir, saltkjötsstöppu, íslenska kjötsúpu, kjötbúðing, skyr, súrmjólk (með púðusykri og cheerios), ananasborgara, djúpsteikta pylsu með osti og kryddi (að hætti Akureyringa), venjulega pylsu með öllu, úrval af íslensku nammi... Ég hljóp í spik. Þarf að fara á fullt við að ná þessu af mér aftur.
Frá Keflavík flaug ég til Boston og gisti þar eina nótt þar sem mér fannst of tæpt á áframhaldandi flugi til Kanada. Innan við tveir tímar á milli sem þýðir að seinkun hjá Icelandair hefði sett mig í klípu. Þar að auki fékk ég ódýrara flug daginn eftir sem var jafnvel ódýrara þótt við verðið væri bætt einni nótt á hóteli.
Flaug sem sakt í gær hingað til Ottawa þar sem ég er nú. Ætla að vera hér í nokkra daga áður en ég fer heim og byrja að skrifa á fullu. Hef reyndar lítið gert í gær (eftir að ég kom) og í morgun. Hef verið að lesa Tíma Nornarinnar eftir Árna Þórarinsson sem ég hef mjög gaman af (kannski af því að bókin gerist á Akureyri) og svo hef ég prjónað aðeins. Þarf núna að fara að skrifa útdrátt fyrir fyrirlesetur sem ég ætla að halda í Saskatoon í vor ef ég kemst inn.
Mun reyna að blogga oftar en ég hef gert síðustu daga.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.