Íslensk tónlist

Áður en ég flaug af landi brott keypti ég nokkra íslenska geisladiska, marga þeirra hafði Martin beðið mig um að kaupa fyrir sig. Hafði verið að rannsaka MySpace t il að sjá hvað var spennandi í íslenskri tónlist. Ég hafði reyndar fengið tónleikadiskinn með Bubba í jólagjöf og var aðeins búin að vera að hlusta á hann en þegar ég lagði af stað með listan undir hendinn var það ekki til að kaupa svona þessa tónlist sem ég vanalega hef hlustað á. Ég hef síðan verð að hlusta á þessa diska í gær og í dag og líkar almennt vel. Reyndar eru diskarnir svolítið líkir hver öðrum, alla vega svona við fyrstu hlustun. Kannski eru áhrif Sigurrósar svona sterk.

Bestur, enn sem komið er, finnst mér nýi diskurinn með Ampop. Er einmitt að hlusta á hann núna. Hafði ekki heyrt í þeim áður enda lítið fylgst með nýrri íslenskri tónlist síðan ég flutti erlendis. Mér finnst þeir reyndar minna mig svolítið á Leaves, til dæmis lagið sem er á akkúrat núna, Two directions. Hins vegar finnst mér Leaves svo góðir að það er bara gott að líkjast þeim. Og þar að auki líkjast þeir þeim ekkert of mikið. Hafa líka sinn eigin stíl. 

Hinir diskarnir sem ég keypti eru Shadow Parade sem er mjög góður; Lights on the highway, sem fékk ekki góða umfjöllun í Mogganum (tvær stjörnur held ég) en sem mér finnst bara alveg ágætir; Pétur Ben sem ég þarf að hlusta á oftar. Ég hafði eitthvað pínulítið með honum og líkaði vel en fyrsta hlustun á nýja disknum var ekkert sérstök. Mér sýnist hins vegar þetta vera einn af þessum diskum sem maður þarf að hlusta á nokkrum sinnum þannig að ég hef engar áhyggjur. Ég keypti líka diskinn með Hafdísi Huld eftir að hafa heyrt smá brot af disknum. Mér finnst hann góður en verð samt að segja að bæði hún og Lay Low (sem mér finnst líka mjög góð og nældi mér líka í eintak af þeim diski) minna mig svolítið á Emiliönu Torrini. Það er ekkert vont í sjálfu sér því allar eru þær góðar en ég vildi heyra meir mun á þeim. Held það muni koma þegar ég hlusta oftar á plöturnar.

Heima voru líka allir að hlusta á Baggalút. Ég held ég hafi séð eintak af þeim diski á næstum hverju heimili sem ég heimsótti um jólin. Fannst það svolítið fyndið hvernig þeir hafa slegið í gegn og velti fyrir mér hversu mikið ég myndi spila þá. Fékk reyndar alltaf sent jólalagið þeirra á hverjum jólum og hafði gaman af, en veit ekki hvort ég myndi hafa þá lengi á fóninum.

Gleymdi einum diski. Keypti líka diskinn með Úlpu. Martin vildi endilega þann disk. Ég hafði heyrt brot af honum og fannst ekkert sérstakt en er búin að hlusta á diskinn núna tvisvar og verð að segja að ég hef bara gaman af. Ég hlakka til að kynnast þessum hljómsveitum öllum betur.

Martin minntist reyndar á að það væri alveg ótrúlegt hversu mikið af góðri tónlist kæmi frá Íslandi, þessu litla landi.

Er núna að hlusta á Temptation með Ampop og það er nú flott lag. Sama má segja um lag númer fimm men ég get ómögulega lesið hvað það heitir. Kem þeim skilaboðum hér með til Ampop að það er ekkert gagn af því að skrifa nafn laga á diskinn, né láta texta fylgja með, ef maður getur ekki lesið það sem stendur. Og ég bendi á að ég hef samt einn áfanga í handritalestri frá HÍ. Kannski þyrfti ég bara að nota gleraugun mín oftar.

Vil í lokin segja að ég sá bæði Mýrina og Börn þegar ég var í Reykjavík og fannst báðar alveg frábærar. Við eigum orðið mjög góða leikara. Strákurinn sem leikur Sigurð Óla í Mýrinni (Björn Hlynur?) er mjög góður og mér fannst flestir leikararnir í Börnum alveg frábærir. Alltaf stendur hann Ólafur Darri nú fyrir sínu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband