Kosningaréttur
6.5.2006 | 06:23
Eitt af því versta sem ég get hugsað mér er að geta engin áhrif haft á það sem gerist í kringum mig. Af því að ég er íslenskur ríkisborgari, en ekki kanadískur, hef ég engan rétt til kosninga hér í Kanada. Þess vegna get ég ekkert gert til að koma í veg fyrir að hálfvitar séu kosnir í allar stöður. Núna eru nokkurs konar sjálfstæðismenn þjóðarstjórnina og nokkurs konar hægrisinnaður Framsóknarflokkur við stjórn Bresku Kólumbíu. Hvort tveggja er slæmur kostur og vinstrimenn, NDP, komast lítið áfram. Þó eru þeir við völd í bæði Manitoba og Saskatchewan og gengur vel þar, en í öðrum fylkjum gengur ekki svo vel. Nú er ég ekki að segja að mitt eina mögulega atkvæði hefði breytt neinu, þar sem í engum þessa kosninga hefur nokkur unnið með einu atkvæði, en mér fyndist ég samt hafa einhver áhrif ef ég gæti kosið.
Það sem hefur huggað mig er að ég hef alla vega haldið kosningarétti mínum á Íslandi. Til dæmis kaus ég í síðustu ríkisstjórnarkosningum, og í síðustu forsetakosningum, en nú var ég að komast að því nýlega að ég hef ekki kosningarétt í sveitastjórnarkosningum. Ég hélt að það sama ætti við og um Alþingiskosningarnar, að ég ætti kosningarrétt þar sem ég átti síðast lögheimili. En nei, það er ekki svo. Maður missir kosningarrétt sinn við það að flytja burt. Nú þykir sumum það kannski eðlilegt, benda á að fyrst maður býr ekki í viðkomandi sveitafélagi ætti maður ekki að hafa nein áhrif á það sem þar fer fram. En fyrir okkur sem erum í þessarri stöðu lítur málið öðruvísi við. Ég hef engan kosningarétt í Kanada, og nú eru Íslendingar farnir að plokka af mér kosningaréttinn líka. Ég hef sem sagt ekki nein áhrif á það hvernig neinni borg er stjórnað. Mér líður svolítið eins og Stefáni G. þegar hann sagði: Ég á einhvern veginn orðið ekkert föðurland.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.