Kosningahneyksli ná ekki alltaf til frambjóðenda
5.5.2010 | 17:06
Af því að kosningar nálgast á Íslandi langar mig að segja ykkur frá máli sem er í gangi núna hér í réttarsölum Bresku Kólumbíu.
Fyrir rétt tæpu ári voru fylkiskosningar hér í Bresku Kólumbíu þar sem frjálslyndiflokkurinn sigraði enn og aftur með aulann Gordon Campbell í broddi fylkingar. Í hvert sinn sem ég spyr kunningja mína sem kjósa flokkinn af hverju þeir halda áfram að kjósa þetta lið sem ekkert hefur gert nema slæmt, benda þeir á ferjurnar sem NDP keypti í sinni valdatíð. Þær ferjur voru alltof dýrar og voru aldrei notaðar í það sem þær voru ætlaðar (siglinga á milli Vancouver og Victoria). Í staðinn var frjálslyndi flokkurinn kosinn þrátt fyrir að flokkurinn hafi svo svakalega skert framlög til skólamála að þúsundum kennara hefur verið sagt upp í þeirra valdatíð, og fjölda skóla lokað. Þá hefur niðurskurður til heilbrigðiskerfisins verið all svakalegur, og ofan á allt þetta virðist flokkurinn umvafinn skandölum. Einn sá þekktari er handtaka fylkisstjórans Gordons Campbells á Hawaii. Hann var handtekinn fyrir að keyra útúrdrukkinn. Í ferð þar sem hann var staddur á Hawaii til að heimsækja viðhaldið sitt. Konan sat heima á meðan. Sjá mynd af Campbell sem er svo fullur að hann brosir eins og asni á handtökumyndinni.
En ég ætlaði ekki að skrifa um flokkinn í heild heldur um mál sem er í gangi í dómsstólum núna.
Í fyrra kom í ljós að bæklingur á kínversku hafði verið prentaður og borinn út á kínversk heimili í Vancouver-Fraserview hverfinu. Þar var ráðist gegn NDP frambjóðandanum Gabriel Yiu sem sjálfur er af kínverskum ættum. Sagt var að Yiu stefndi að því að leyfa marijúana, að að hann myndi aldrei taka á glæpavandanum sem borgin ætti við. Bent var á að andstæðingur hans, lögreglumaðurinn Kash Heed myndi vera sá eini sem næði að stöðva glæpamennina. Bæklingurinn var hrein áróðursherferð gegn þessum eina frambjóðanda og á sama tíma hreinn stuðningur við Heed. Heed sigraði með 9.549 atkvæði gegn 8.801 atkvæðum Yiu. Heed var síðan gerður að dómsmálaráðherra.
Nú hafa komið fram gögn sem sýna skýrt fram á að bæklingurinn var gefinn út af framboði Heed og kosningastjóri hans hefur verið ákærður, svo og eigandi fyrirtækisins sem prentaði bæklinginn - og sem svo vill til að er stuðningsmaður frjálslynda flokksins.En talið er að ekki sé hægt að sýna fram á vitneskju Kash Heed um málið. Hann neitar meira að segja að hafa heyrt um þennan bækling áður, þrátt fyrir að fjallað hafi verið ítarlega um málið í öllum fjölmiðlum á sínum tíma. Um leið og dómur féll gegn kosningastjóranum og prentaranum, og um leið og Heed var sýknaður, tók hann aftur við stöðu sinni sem dómsmálaráðherra, en hann hafði vikið frá á meðan málið var í dómstólum.
Hér er fólk öskuillt yfir þessu öllu saman. Hversu miklar líkur eru á að Heed hafi ekki vitað af því sem kosningastjóri hans gerði? Og jafnvel hafi hann ekki vitað um þetta, hvers vegna fær hann að halda sæti sínu í ríkisstjórn og á þingi, eftir að komið hefur fram að þessi kosningaáróður kom frá hans eigin framboði? Maður hreinlega skilur ekki svona spillingu.
Og til að kóróna allt saman...sérlega ráðinn ríkissaksóknari sem ráðinn var eingöngu til að líta á þetta mál, og sá hinn sami og sýknaði Heed, hefur nú vikið úr starfi og gaf þá ástæðu að hann hafi séð eftir á að hann væri ekki óhlutbundinn þar sem lögstofan sem hann vinnur fyrir gaf mikla peninga í framboð frjálslyndaflokksins. En hann vék þó ekki fyrr en eftir að hann var búinn að sýkna ráðherrann.
Það rétta í stöðinni núna er augljóslega að boða til aukakosninga í Vancouver-Fraserview og gefa fólki kost á að fella sína eigin dóma. NDP og Gabriel Yiu eiga rétt á sanngjörnum kosningum.
Á síðunni hér má sjá mynd af bæklingi sem sendur var til kínverskra kjósenda. Ég held að þetta sé ekki bæklingurinn umræddi þar sem þessi er vel merktur Frjálslyndaflokknum, en hann sýnir annað sem Heed var einnig sakaður um, og það var það að Heed er í lögreglubúningi á myndinni. Kanadískum lögreglumönnum er ekki leyft að nota búninginn til eigin frama.
---
Ég las í dag um mann sem var að skemmta sér fullur í Whistler þegar hann datt niður stiga og slaðast þegar fjöldi drukkinna Whistlerbúa var að troða sér út við lokun. Hann mun lílega vera í hjólastól það sem eftir er ævinnar. Hann hefur nú kært veitingastaðinn þar sem hann var að skemmta sér og sagt að alkahól hafi verið afgreitt til of fullra viðskiptavina. Hann segir að veitingastaðurinn hefði átt að sjá til þess að fólk væri ekki svona drukkið. Er fólk hætt að taka ábyrgð á eigin gerðum?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.