Við viljum tvö kanadísk lið í úrslitin
7.5.2010 | 17:08
Já, Montreal hefur staðið sig vel og það er að miklum hluta að þakka hinum stórkostlega markmanni Halek. Hann hefur hreinlega staðið á haus í markinu og stoppað hérum bil allt sem nærri því kemur. Annar frábær Montreal leikmaður er Cammaleri sem Montreal fékk síðastliðið haust frá Calgary. Hef aldrei skilið hvað Calgarymenn voru að hugsa að láta Cammaleri frá sér. Þeir sögðust hafa gert það af því þeir urðu að losa peninga en í hokkíinu er þak á þeim fjármunum sem má eyða. Calgary vildi halda Olli Jokinen frekar en Cammaleri en það reyndist heimskulegt því að lokum skiptu þeir á Jokinen líka. En Montreal græddi vel og Cammaleri hefur launað þeim traustið og hefur 13 stig í úrslitakeppninni og situr í sjötta sæti. Sá eini frá Montreal sem kemst á topp 30 listann.
Á meðan Montreal slæst við Pittsburgh spilar Vancouver við Chicago sem sló þá úr keppni í fyrra. Við unnum fyrsta leikinn en töpuðum næstu tveim þannig að staðan er 1-2 eins og er. Við verðum að vinna leikinn í kvöld til að eiga raunverulega möguleika á að komast áfram því það er ekki líklegt að við næðum að vinna Chicago þrjá leiki í röð. Þeir eru með ungt og sterkt lið sem samt sem áður er komið með heilmikla leikreynslu eftir að hafa spilað þrjár umferðir í úrslitakeppninni í fyrra. Þar að auki var fjöldi leikmanna Chicago sem spilaði í gullleiknum á Ólympíuleikunum. Brent Seabrook, Jonathan Toews og Duncan Keith spiluðu allir fyrir Kanada og Patrick Kane lék fyrir Bandaríkin.
Draumastaðan er að bæði Vancouver og Montreal vinni sína mótherja og komist að minnst kosti í úrslitaleiki sinnar deildar. Vancouver í vestrinu og Montreal í austrinu. En best af öllu væri auðvitað að þessi tvö lið spiluðu úrslitaleikinn um Stanley bikarinn. Tvö kanadísk lið hafa ekki spilað um bikarinn síðan Calgary vann Montreal 1989.
Montreal er enn á lífi í NHL | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.