Óþrifanlegar kerlingar í sundlauginni
17.5.2010 | 22:01
Meðal þess sem ég sakna mest frá Íslandi (svona fyrir utan fjölskyldu og vini) eru sundlaugarnar. Sérstaklega á sumrin þegar sólin skín. Þá hugsa ég um hversu yndislegt það væri að synda fyrst kílómetra í passlega heitri lauginni og hanga síðan í pottunum eða á sundlaugarbakkanum í nokkra klukkutíma. Hér eru sundlaugar en þær eru oftast svo skítkaldar að maður þarf að synda fjórar ferðir áður en maður hættir að skjálfa. Og ef laugarnar eru úti þá eru þær vanalega fullar af öskrandi krökkum (ókei, maður fær það svo sem heima líka).
En það sem pirrar mig mest við það að fara í sund hér í Kanada er það sem í augum okkar Íslendinga er ekkert annað en óþrifnaður: Ég var í sundi í morgun og þegar ég var að þvo á mér hárið á eftir var ég undir bununni í þó nokkra stund. Þó nokkrar konur fóru út í laugina á meðan ég var þarna. Allar fóru þær í sundfötin inni í klefanum þannig að engin þvoði sér almennilega í klofinu áður en hún fór út í laugina. Hvernig getur maður treyst því að þær skeini sér þokkalega. Og það sem verra er, fjöldi kvenna fór út í laugina án þess að fara í sturtu. Sem sagt, beint í sundfötin í klefanum og svo grútskítugar út í laug. En allar passa þær sig á að vera í sandölum svo þær fái nú ekki sýkingu úr gólfinu. Bjakk. Ég er hneyksluð. Mig dauðlangar að fara og skammast í starfsfólkinu en veit að það hefur ekkert uppá sig. Enda virðist ekkert vera búist við því að fólk þvoi sér almennilega. Til dæmis er engin sápa í sturtuklefunum. Maður verður að koma sjálfur með sápu. Og það eru engin skilti upp á vegg sem hvetja fólk til þvottar.
Já, það má taka Íslendinginn út úr Íslandi en það er ekki hægt að taka Ísland út úr Íslendingnum.
Athugasemdir
Ég er hræddur um að maður geti því miður aldrei treyst því að fólk skeini sér þokkalega.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 18.5.2010 kl. 02:13
Dýrin í skóginum ákváðu að hætta að "kúka" út um allan skóg og létu byggja fyrir sig stórt almenningsalerni, og dýr eru venjulega ekkert feimin, svo það voru engir skilveggir hafðir, einn daginn sitja saman hlið við hlið, stór og mikill björn og íkorni, sitja þöglir smástund, en svo snýr björninn sér að íkornanum og spyr "Ertu nokkuð að fara ú hárum félagi ?"
"Neeei nei nei, held ekki" svaraði íkorninn, þar með þreif björninn íkornann og skeindi sig vandlega með honum.
Hvort þetta var í Kanada eða Noregi er ekki vitað, en Ísland er útilokað.
Við hér í Noregi söknum góðu sundlauganna frá Íslandi líka.
MBKV:
KH
Kristján Hilmarsson, 18.5.2010 kl. 20:40
HEYR HEYR. Ég sakna sundlauganna á íslandi og sundlaugamenningarinnar á íslandi, rétt eins og þú. Hér M'A ekki fara úr sundfötum í sturtu (því ræstingafólkið gæti verið af öðru kyni en þú), það ganga allir í gegnum klórbað með fæturnar og eru í sandölum, en að öðru leiti má fara óþveginn í sundið, það er heldur engin sápa hér, og ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíman séð nokkurn sápuþvo sér FYRIR sund hér, en það rembast allir við að skrúbba af sér klórinn (án þess að taka af sér sundbolina) EFTIR sundið. Það er skylda að vera með sundhettu, líka fyrir sköllótt ungabörn (það er bara reglan, heyrði ég starfsmann segja við mömmu sem var pirruð þegar hún þurfti að fá lánaða of stóra sundhettu fyrir ungabarn með 3 mm dún). Menn nota almennt baðsloppa, þótt sundlaugarnar séu innisundlaugar og það séu 5-10 metrar úr sturtunni að sundlauginni! Það sem mér þykir þó verst er að hér er ekki eins daglegdags að fara í sund, og þvi erum við með börnin okkar á sundleikjanámskeiði til að venja þau við vatnið, nokkuð sem alls ekki er þörf á fyrir íslensk börn sem kynnast vatninu á annan hátt en börnin hér á Ítalíu!
Rut (IP-tala skráð) 19.5.2010 kl. 20:32
Þar sem ég bý (Skagafirði) virðist yngra fólkið lítið vera að þvo sér áður en það fer út í. Ég fór oft í sund í Garðabænum upp úr 1985, þar var baðvörður sem stóð oft með moppuna í sturtuklefanum og passaði alveg upp á að enginn færi útí óþveginn..
Gunnar Þorgeirsson, 22.5.2010 kl. 11:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.