Ritgerðin þokast áfram

Ég hef verið á góðu róli í ritgerðaskrifum undanfarið. Sat við í níu klukkutíma á föstudaginn sem er býsna góður tími að sitja og skrifa og vann líka allan sunnudag og allan mánudag þótt hér væri löng helgi eins og heima. Laugardagurinn var eiginlega eini dagurinn sem ég tók að mestu í annað en skriftir. Þá fór ég og hjólaði 60 kílómetra niður til Steveston í Richmond hér fyrir sunnan Vancouver. Var býsna stolt af 1000 kaloríunum sem ég brenndi, en eyðilagði það svo með því að borða hamborgara í Steveston. Nei nei, það var engin eyðilegging, mátti alveg við því.

Síðast þegar ég hitti kennarann minn hálfpartinn skipaði ég honum að gefa mér eindaga á ákveðnum verkum. Svona svo ég hefði eitthvert viðmið og kannski svona lítil takmörk sem hægt er að krossa af reglulega. Það hjálpar við vinnuna. Svo hann sagði mér að skila sér ákveðnum kafla fyrir miðnætti í kvöld og kannski þess vegna sat ég við megnið af helginni. En það tókst að klára þetta og ég er búin að senda kaflann og svo ræðum við hann á fimmtudaginn. Annars ætti ég ekki að kalla þetta kafla heldur hluta af kafla. Þetta er nefnilega partur af stærsta kaflanum sem er orðinn um 70 blaðsíður. En það er líka sá kafli sem lengst er kominn.

Ég tók líka að mér smá verkefni fyrir einn kennarann í skólanum, svona til að fá nokkra aura. Hann og kona hans eru að vinna að barnamálsverkefni og munu m.a. fara til Íslands í næsta mánuði vegna þessa. Þau hafa form sem þarf að íslenska og ég er að dunda mér við það. Gallinn er að verkefni þeirra er um hljóðkerfisfræði og orðaforði minn í íslenskri hljóðkerfisfræði er orðinn mjög ryðgaður. Og það sem gerir málið enn verra er að margt hefur breyst í hljóðkerfisfræði síðan ég lærði hana á Íslandi fyrir tæpum tuttugu árum og mig vantar íslensku orðin fyrir nýju hugtökin sem nú eru notuð. Ég er búin að hráþýða skjalið en verð nú að leggjast betur yfir það svo íslenskan hljómi þokkalega.

En það er best að fara að sofa. Hér er farið að nálgast miðnætti en þið heima eruð að vakna. Ég segi því góða nótt við mig og 'rise and shine' við ykkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Veit svo sem ekki, en kannski gæti þessi vefur hjá gamla menntaskólanum nýst þér eitthvað við þýðinguna?!

http://old.ma.is/ma/fonet/default.htm

Magnús Geir Guðmundsson, 26.5.2010 kl. 17:50

2 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Annars minnist ég þess að hafa eitt sinn misst út úr mér við svipaða þaulsetu og hjá þér við ritgerðarsmíðina, að það væri "Botnharka" í manni, en þannig á víst ekki svona yfirleitt allavega að segja við dömur?!

Magnús Geir Guðmundsson, 26.5.2010 kl. 17:53

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk fyrir ábendinguna Magnús en því miður er þessi ágæti vefur Sverris Páls um hljóðfræði og mig vantar orð í hljóðkerfisfræði, sem er tengt efni en þó töluvert öðruvísi. Ég sit með gömlu skólabækur mínar úr háskólanum en jafnvel það dugir ekki til.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 26.5.2010 kl. 19:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband