Að berja indjánann úr barninu
16.6.2010 | 22:28
Fyrir örfáum árum sat þjóðin á öndinni yfir sjónvarpinu þegar fyrrum vistmenn á Breiðuvík sögðu sögur sínar, hver á eftir öðrum. Grimmdin sem þessum drengjum hafði verið sýnd var ofar skilningi okkar flestra.
Í Kanada voru svona Breiðavíkurskólar út um allt og börnin sem þangað voru send áttu eitt sameiginlegt; þau tilheyrðu hópi innfæddra, eða indjána eins og þeir kallast gjarnan. Þessi börn voru rifin frá foreldrum sínum á unga aldri og send í skóla hvítra manna þar sem tilgangurinn var að berja úr þeim indjánann og gera þau að góðum, hvítum og kaþólskum þegnum. Og rétt eins og í Breiðavíkurskólanum voru þess börn lamin, pínd og misnotuð kynferðislega.
Þessir skólar voru upphaflega stofnaðir á nítjándu öldinni, greiddir af kanadíska ríkinu, en í flestum tilfellum voru það kirkjurnar sem ráku skólana, og þá sérstaklega kaþólska kirkjan. Opinberlega var tilgangurinn sá að kenna indjánabörnunum ensku, kristna siði og bændastörf. Og til þess að þetta tækist var næstum allt leyft. Börnunum var meðal annars hegnt ef þau töluðu eigin tungumál, eða voru staðin að verki við að iðka eigin trú. Þetta gekk svo langt að á tuttugustu öldinni var skólunum líkt við menningarmorð.
Þessir skólar reyndust börnunum helvíti á jörðu. Allt of margir hírðust í alltof litlum húsakynnum, hreinlæti var ábótavant og skortur á lyfjum þegar á þurfti að halda leiddi til þess að berklar voru óvenju algengir. Í einum skólanum voru 50% allra nemenda sýktir. Dauðsföll voru almennt mjög algeng í þessum skólum, ekki bara vegna berkla, og á fyrstu áratugum skólanna létust 35%-60% allra nemendanna. Þá voru börnin barin nær daglega, þau pínd og þau notuð kynferðislega. Átti það bæði við um drengi og stúlkur, og gerendur voru bæði karlar og konur, en einnig önnur börn.
Síðasta skólanum var ekki lokað fyrr en 1996.
Í dag fer fram ráðstefna í Winnipeg þar sem rætt er um skólana og fórnarlömb þeirra. Stærstur hluti nemenda leiddist út í drykkju, eiturlyfjaneyslu og glæpi og fáir hafa nokkurn tímann náð sér almennilega. Kanadíska ríkið hefur undanfarið ár greitt hundruð þúsundir dollara í skaðabætur og fyrir tveim árum bað forsætisráðherra landsins opinberlega afsökunar á því sem gert var við þessi börn og í fyrra baðst páfinn afsökunar á því sem kirkjunnar menn höfðu gert. En hvernig er í raun hægt að bæta fyrir svona?
En áður en ég lýk þessari umfjöllun verð ég að benda á að ekki voru allir indjánaskólarnir jafn slæmir og ekki voru öll börn leikin jafn grátt. Doreen Jensen heitin, sem ég vann með þegar ég var að rannsaka tungumál hennar Gitxsan, sagði mér að hún hefði alltaf verið ánægð í skólanum og að aldrei hafi verið komið illa fram við hana. Það sama átti við um yngri systkini hennar. Hins vegar gaf hún í skyn að eldri systkinin hafi átt erfiðara svo kannski var þetta eitthvað að breytast einmitt á meðan hún var í skóla.
Það sorglega er að þrátt fyrir að ekki séu lengur til heilu skólarnir þar sem börn eru barin og kynferðislega misnotuð daglega, þá er ekki hægt að útrýma slíkum tilfellum algjörlega. Á undanförnum dögum hafa t.d. komið upp tvö tilfelli hér í BC um að kennarar hafi verið ákærðir fyrir að misnota nemendur kynferðislega. Annar þeirra hefur íslenskt eftirnafn. Barnaníðingar leynast alls staðar og baráttan er endalaus.
Athugasemdir
Sæl Kristín. Þetta er mjög áhugaverð grein. Ég er mikill áhugamaður um menningu frumbyggja í Ameríku allri og stuðningsmaður réttinda frumbyggja um allan heim og hef kynnt mér þetta mál. Ég sá heimildarmynd einmitt um það sem þú skrifar í bloggi þín hér að ofan og mér leið vægt til orða tekið mjög illa eftir að hafa horft á hana en ég mæli samt með henni vegna þess að hún er mjög fræðandi og mér finnst að allir ættu að sjá hana, sérstaklega fólk sem kennir sig við Kaþólsku kirkjuna vegna þess að glæpir hennar gegn frumbyggjum allstaðar í heiminum eru skelfilegir. Hér er linkur á þessa mynd og það þarf ekki að borga fyrir að horfa á hana. http://topdocumentaryfilms.com/unrepentant-kevin-annett-canadas-genocide/
Níels Sigurðsson (IP-tala skráð) 17.6.2010 kl. 18:23
Takk fyrir hlekkinn Níels. Ég kíki á þetta.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 19.6.2010 kl. 16:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.