Þegar ég skrifaðist á við McCartney yngri

Fyrir mörgum árum flaug ég milli Munchen og London. Ég var búin að taka mér sæti og var að koma mér fyrir þegar tveir ungir menn ganga fram hjá mér á leið í sæti sín aftar í vélinni. Ég varpaul_james_mccartney strax sannfærð um að annar þessa pilta væri James McCartney, sonur Bítilsins sjálfs. Ég hafði aðeins séð eina mynd af honum frá unglingsárum en það nægði til þess að ég væri þess fullviss að þetta væri sonur Pauls. Þar að auki er hann sterklíkur pabba sínum. Ég sá hann síðar í fluginu þegar ég skrapp á baðherbergið og sá þar hvar hann sat aftarlega í flugvélinn sömu megin og ég. Ég vissi að Rut vinkona mín biði eftir mér í London og lét mig dreyma um að Paul stæði við hliðina á henni.

Þegar ég sagði frá þessu síðar átti fólk erfitt með að trúa því að ég hefði í raun séð James. Hann hefur næstum aldrei sést á myndum og ef þið leitið á honum á netinu sjáið þið hversu fáar myndir eru í raun til af honum, alla vega samanborið við aðra Bítlasyni.

Síðar sama ár var ég að fikta á netinu og fann vefsíðu sem kallaðist whois. Maður gat slegið inn nöfn og fengið upp hvort einhver með því nafni væri skráður fyrir netfangi. Ég sló inn að gamni mínu McCartney, í von um að finna Paul (þótt mér hafi í raun ekki dottið í hug að hann myndi nokkurn tímann skrá sig undir réttu nafni á netinu). Ég fann ekki Paul en ég fann 'James Louis MCartney'. Var mögulegt að sonur McCartneys væri skráður fyrir netfangi undir eigin nafni? Ég ákvað að senda honum póst. En í stað þess að vera eins og einhver brjálaður Paul aðdáandi, ákvað ég að spyrja bara um James. Svo ég skrifaði honum örstutt bréf sem hljómaði einhvern veginn svona: 'Er mögulegt að þú hafir verið í British Airways flugvél á milli Munchen og London, þennan ákveðna dag?' Hann skrifaði mér til baka og sagði: 'Það passar.' Svo ég skrifaði honum aftur til að útskýra af hverju ég spurði þessarar undarlegu spurningar og að ég hafi bara viljað fá að vita fyrir víst að það var í raun hann sem ég sá. Hann skrifaði mér aftur til baka og sagði mér þá m.a. að hann væri búinn að vera að vinna svolítið með pabba sínum og að hann spilaði meðal annars á gítar í einu lagi á nýju plötu pabba síns sem væri væntanlega nokkrum mánuðum síðar. Þetta hljómaði allt mjög spennandi en auðvitað var mögulegt að þetta væri í raun einhver að bulla. Nema hvað nokkrum mánuðum síðar kom út platan Flaming Pie og eitt það fyrsta sem ég gerði var að athuga hvort James McCartney spilaði á gítar í einhverju laganna. Og jújú, James er skráður sem lead gítaristi á Heaven on a Sunday. Þann dag vissi ég fyrir víst að ég hafði í alvöru séð James í flugvélinni og að það var hann sjálfur sem skrifaði mér. Hey, fyrir mikinn Paul McCartney aðdáanda er ekkert smá spennandi að hafi átt í tölvusamskiptum við einkasoninn!

Áður hafði ég skrifast á við bæði May Pang, fyrrum kærustu Johns Lennons, og Laurence Juber sem var gítaristi í síðustu útgáfu Wings.

Ástæða þess að ég rifja hér upp kynni mín af James McCartney er sú að eftir mörg ár við gítardútl hefur hann loks rifið sig upp úr feimninni og er farinn að spila með eigin hljómsveit. Hér fyrir neðan má m.a. sjá hann syngja lag Neil Youngs Old man. Ég þekki ekki lagið sem hann spilar strax á eftir í sama vídeói. Það gæti verið eitt af hans eigin. Hann semur sín eigin lög eins og pabbi gamli. Og eins og pabbinn getur hann spilað á hvað sem er. Hann er víst fanta gítarleikari en spilar líka á píanó og trommur og ukulele. Í seinna vídeóinu hér að neðan spilar hann á píanó og virðist alveg þokkalegur við það.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband