Grænlandsferðin 1980

Í dag eru 30 ár liðin frá því Vigdís var kjörin forseti, eins og allir vita. Það þýðir líka að fyrir þrjátíu árum var ég á Grænlandi með fimm öðrum krökkum frá Akureyri og fararstjóranum okkar Helga Má.

Tilefnið va r 50 ára afmæli Narsaq bæjar og var sex krökkum frá öllum vinarbæjum Narsaq boðið að vera viðstaddir afmælisfagnaðinn. Valinn var einn ellefu ára krakki frá hverjum skóla í bænum en greinilega var einhver misskilningur í gangi því sumir skólar völdu krakka sem voru á ellefta ári á meðan aðrir völdu krakka sem voru orðnir ellefu ára og voru á tólfta ár og jafnvel orðnir tólf. Vegna þessa dreifðist aldurinn svo að ég var enn bara tíu ára, Siggi, Helga, Linda og Einar voru ellefu og Eiríkur var tólf. Aldurinn hafði áhrif á tungumálagetuna og þar með getuna til þess að eiga samskipti við krakka frá öðrum löndum. Ég var bara búin að læra dönsku í eitt ár og var ekki byrjuð í enskunámi. Samskipti fóru því fram á heimatilbúnu táknmáli.

Þetta var ævintýralegur tími. Við vorum flest ef ekki öll í burtu frá foreldrum í fyrsta sinn á ævinni og sváfum átta saman í herbergi, sem í raun var bara skólastofa þar sem búið var að setja dýnur á gólfið. Ætlunin var að krakkarnir kynntust vel og því var bara einn frá hverju landi í hverju herbergi, en strax fyrsta daginn fóru fram innbyrðist herbergisskipti og fljótt voru Linda og Helga komnar inn í herbergi hjá mér. Það var betra að hafa stuðning hver frá annarri þegar maður svaf í ókunnugu rúmi langt frá mömmu og pabba. Það dugði ekki fyrir alla því mikið var grátið á næturnar. Ég man sérstaklega eftir einni hollenskri stelpu sem hafði gífurlega heimþrá. Fararstjórinn hennar, stór og svartskeggjaður maður í klossum eyddi miklum tíma í okkar herbergi til að reyna að hugga hana og þegar hann fór á kvöldin fengu allar faðmlag sem vildu. Hann gat vel tekið á sig að vera einn allsherjar herbergispabbi.

Á hverjum morgni reistum við fána landsins okkar, tvö og tvö saman, og á hverjum kvöldi tókum við fánann niður. Einn daginn varð Linda fyrir því óláni að fáninn snerti jörðu. Hún komst í gífurlegt uppnám og tautaði í sífellu að við yrðum að brenna fánann. Við stóðum öll sex saman og ræddum hvað gera skyldi þegar einhver benti á að fáninn mætti ekki snerta íslenska jörð. Ekkert væri minnst á hvað gera ætti ef hann snerti grænlenska jörð, og þar með var það útrætt.

Við skemmtum okkur vel allan tímann á Grænlandi og tókum þátt í alls konar leikjum og kvöldvökum. Við fórum meðal annars í ratleik sem náði út um allan bæ. Okkur var skipt upp i hópa og svo fengum við alls konar vísbendingar um hvert við ættum að fara. Hópurinn minn átti fyrst að fara að eins konar félagsheimili og þar áttum við að biðja um vatn að drekka. Við hlupum þangað og báðum um vatnið en konan sem rak staðinn vildi endilega gefa okkur gos í staðinn. Það tók heillangan tíma að telja henni trú um að það yrði að vera vatn. Í annarri þrautinni fórum við niður á bryggju og þar áttum við að veiða fisk. Ég fékk marhnút á öngulinn og ætlaði að henda honum útí eins og maður gerði heima á Akureyri, en einhver náunginn greip fiskinn frá mér. Marhnútur er víst dýrindismatur á Grænlandi. 

Við fengum að sjá bátana koma að landi með nýveiddan sel. Veiðimaðurinn skar hann í sundur strax á bryggjunni og bauð hverjum sem vildi að smakka hráan og heitan selinn. Mig minnir að Eiríkur hafi verið sá eini sem þorði að smakka. Í annað skiptið fórum við í Brattahlíð og skoðuðum rústir af bæjum Eiríks rauða. Við fórum líka til Igaliko og þurftum að ganga töluvert til að komast þangað því bærinn er á öðrum firði sem of langt er að sigla til. Frá þeirri ferð man ég aðallega eftir kirkjunni og því að við fengum hrikalega vondar samlokur. Matur fannst mér almennt fremur vondur þarna en kannski var ekki að marka, ég var tíu ára. Mjólkurvörur höfðu allar skrítið bragð og ég man að okkur fannst osturinn þarna alveg hreint ógeðslegur. Einu sinni sáum við einn fararstjórann setja hnausþykka sneið af osti á brauðið og borða. Við horfðum á agndofa og með klígju. Ég man líka eftir þegar við fengum rækjur og þær voru bornar á borð með augum, öngum og öllu. Þann dag hætti ég að borða rækjur.

Við fórum líka í ferð með dönsku varðskipi og var ætlunin að sjá einhverja ísjaka, eða það skildist mér. Eitt herbergið á skipinu var fullt af blöðrum. Þetta var eins konar diskótek en í stað hlupu allir um og sprengdu blöðrur. Ég forðaði mér. Ferðin varð endasleppt því skipið rakst á ísjaka. Það hristist til og þeir sem voru standandi hentust til og féllu jafnvel í gólfið. Linda lenti í fanginu á skipstjóranum og varð það heilmikið umræðuefni í langan tíma á eftir. Það kvöldið skrifaði ég í dagbókina (sem við urðum að halda): "í dag fórum við í ferð til að skoða ísjaka en komumst ekki fyrir ísjökum." Ég held að tíu ára ég hafi ekki alveg fattað hvernig þetta hljómaði. 

Þetta var dásamlegur tími og mig hefur alltaf langað að fara til baka. Kannski við förum öll sjö þangað 2020 og fögnum fjörutíu ára Grænlandsafmæli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá, þetta hefur verið eftirminnileg ferð, og þú manst ótrúlegustu smáatriði svona löngu seinna! Þið ættuð endilega að stefna á ferð aftur seinna öll saman seinna!

Rut (IP-tala skráð) 29.6.2010 kl. 18:53

2 identicon

Hæ. Var í viku í Narsaq vorið 2008 og eftir myndunum að dæma hefur ekki margt breyst þar. Hvet þig eindregið til að kíkja þangað við tækifæri, verst að þú þarft líklega að fljúga frá Kanada um Kaupmannahöfn!

Matthías (IP-tala skráð) 30.6.2010 kl. 09:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband