Ímynd lögreglunnar

Um 6.500 lögreglu- og hermenn komu til Vancouver í febrúar til að sjá um löggæslu á Ólympíuleikunum. Þeir bjuggu á skemmtiferðaskipum niðri við bryggju. Skömmu eftir komu skipanna fóru að ganga villtar sögur um lífið um borð og skipið fékk alls kyns uppnefni. Það besta var Screw canoe. Þegar sögur heyrðust um að lögreglumenn hefðu verið sendir heim magnaðist orðrómurinn. Sögur gengu m.a. um að hórum væri smyglað um borð í hokkítöskum, en öryggisgæsla var ströng um borð.

Í gær töluðu fulltrúar lögreglunnar loks um málið og kom í ljós að þótt sögur hefðu verið stórlega ýktar var heilmikið til í þeim. T.d. viðurkenndu forsvarsmenn lögreglunnar að fimmtán löggæslumenn hefðu verið sendir heim, fjórtán karlar og ein kona. Í um fjórum eða fimm tilfellum var um að ræða kynferðislega áreitni karlkyns lögreglumanna gegn samstarfsmönnum sínum af fallegra kyninu. Í einu tilfelli var um að ræða búðarhnupl, í öðru tilfelli mætti lögreglumaður á vakt með engar kúlur í byssunni sinni og í enn öðru tilfelli fór lögreglumaður snemma af vaktinni sinni til að fara á hokkíleik. Í flestum tilfella þar sem lögreglumenn brutu á sér var áfengi haft um hönd.

Fyrir leikana hafði verið talað um að banna alla drykkju lögreglumanna á meðan á leikum stæði en til þess að slíkt væri hægt hefði þurft að borga öllum hálfgert bakvaktargjald, þar sem eina leiðin til að banna drykkju í frítíma er að hafa alla á bakvöktum. Það var því ekki gert og fyllerí var því töluvert. 

Eitt og sér er þetta ekki mikið mál. Lögreglumenn eru yfirleitt venjulegt fólk sem brýtur á sér á stundum eins og aðrir. Það sem kannski gerir málið verra er að undanfarin tvö þrjú ár hafa verið allt of mörg tilfelli í Kanada um brot lögreglumanna, ýmist á vakt eða ekki. Þeir eru t.d. enn að súpa seiðið af dauða pólska innflytjandans sem var drepinn með teiserbyssu á Vancouver flugvelli. Ekki löngu eftir það var einn fjögurra lögreglumanna sem þar voru að verki, handtekinn eftir að valda árekstri þegar hann var að keyra fullur. Og hann var ekki eini lögreglumaðurinn í Vancouver sem hefur verið tekinn fyrir að keyra fullur síðustu tvö árin. Ég man eftir alla vega tveimur slíkum tilfellum. Og í fyrra kom upp tilfelli þar sem lögreglumenn drápu heimilislausan mann sem þeir héldu að hefði brotist inn í búð. Þeir börðu hann til dauða. Hann var saklaus.

Lögregluyfirvöld hafa reynt að bæta ímynd lögreglunnar en það er ekki auðvelt þegar meðlimir hennar halda áfram að brjóta af sér. Gallinn er að það er með þessa starfstétt eins og aðrar, það þarf ekki nema örfáa hálfvita til að eyðileggja fyrir öðrum. Þeir lögreglumenn sem ég hef kynnst, t.d. í gegnum Ólympíuleikana, hafa allir verið fínustu menn sem aldrei myndu gera neitt af sér. En þeir þurfa að líða fyrir mistök annarra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ertu alveg hætt að blogga um Life of Stina?

Rut (IP-tala skráð) 7.7.2010 kl. 13:21

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Það gerist ekkert í því lífi. Skrifa ritgerð, hreyfi mig, borða, sef... Það er allt of sumt.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 7.7.2010 kl. 16:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband