Geitungastríðið

Ég hata geitunga. Þetta eru litlar, ljótar skepnur sem ekkert gott láta af sér leiða. (Ókei, þeir éta önnur skordýr sem oft kemur sér vel en fyrir  utan það...) Í fyrra grunaði mig að við hefðum geitungabú undir þakinu og hugsanlega inni í risgeymslunni minni því ég var alltaf að finna geitunga inni i íbúðinni þrátt fyrir net fyrir gluggum. Þar að auki voru óvenju margar í geymslunni.

Undanfarna daga höfum við tekið eftir geitungum sem skríða inn um holu undir þakinu (einmitt þar sem geymslan mín er) og það þýðir nær pottþétt að þarna er bú. Svo við hringdum í húseigandann og báðum hann um að senda meindýraeyði, en hann neitaði. Sagði að það væri ekki hans mál. Bull og vitleysa. Húseigandi sér um slíkt í húsum. Hann sagði að við gætum spreyjað þetta. Svoleiðis dugar næstum aldrei. Spreyið kemst ekki inn í búið og maður nær þeim ekki. En við ákváðum, öll sem búum í húsinu, að prófa þetta, og ef ekki gengi þá myndum við hringja á meindýraeyðinn og senda svo bara reikninginn til húseigandans.

Svo ég fór og keypti sprey. Bæði til notkunar utanhúss og innanhúss. Notaði fyrst innanhússspreyið í geymslunni hjá mér, og nýi nágranninn á miðhæðinni spreyjaði svo hinu inn um gatið. Gallinn er að þegar maður spreyjar þessu helvíti undir þakið þá kemur það inn. Ég sat og horfði á vídeó og fylgdist af og til með geymslunni, en ekkert gerðist. Nema mér fór að verða óglatt. Bölvað eitrað kom inn í íbúðina. Svo ég galopnaði gluggann í svefnherberginu, tók sængina mína fram í stofu, lokaði inn í svefnherbergið og svaf svo í stofunni í nótt. Svaf illa. Ekki góður sófi. 

Í morgun opnaði ég svo varlega hurðina og bjóst allt eins við að sjá geitunga á sveimi í herberginu, eftir að hafa flúið búið sitt í geymslunni, en sá engan. Allt lék í lindi. Engir geitungar hafa heldur sést við holuna í dag. En ég er ekki tilbúin til að fagna sigri enn. Ég er ekki viss um að við höfum náð þeim. Kannski koma þeir aftur á kreik á morgun eða hinn.

Og svo borga þessir andskotar ekki einu sinni leigu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Getur verið, að húseigandinn hafi brugðist svona argur við , vegna þess að bölvaðir geitungarnir borgi enga leigu ?

Vona annars innilega, að þið séuð  laus við pláguna.

Kv. KPG 

Kristján P. Gudmundsson, 9.7.2010 kl. 21:39

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Þekkjandi húseigandann myndi ég einmitt að halda að hann vildi losna við geitunga af því að þeir borga enga leigu. Nema að hann sé búinn að semja um verð við þá og þess vegna er það sem hann borgar ekki fyrir meindýraeyðinn.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 10.7.2010 kl. 08:04

3 Smámynd: Inga Sæland Ástvaldsdóttir

Já þeir eru fjandanum leiðinlegri þessir geitungar, en má ég þá frekar hafa þá en þessar ógeðslegu moskítóflugur hér á Spáni. oj bara þær eru búnar að ákveða það fyrir löngu að ég væri það albesta á matseðlinum , ég hef að vísu bætt á mig einhv. kílóum og sjálfsagt ansi girnilegur biti en argggggg.. þetta eru sannkalaðir vágestir.

Inga Sæland Ástvaldsdóttir, 11.7.2010 kl. 14:13

4 identicon

þið hafið væntanlega passað ykkur á því að spreyja þá þá að kvöldi til eða nóttu?  Virkar ekki ef gert er yfir daginn þegar þeir eru ekki heima ;)

Gangi ykkur vel í þessari baráttu - ég hugsa að ég væri flutt út úr húsinu 

Krunka (IP-tala skráð) 16.7.2010 kl. 10:20

5 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Já, við spreyjuðum eftir sólsetur.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 17.7.2010 kl. 20:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband