Eitthvað sem drottinn bjó til

Fyrir nokkrum dögum horfði ég á lítið þekkta sjónvarpsmynd frá HBO sem nefnist Something the Lord made eða 'Eitthvað sem drottinn bjó til'. Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum og fjallar um lækninn Dr. John Blalock og aðstoðarmann hans, hinn ómenntaða Vivien Thomas. Saman breyttu þessir tveir menn nútímalæknavísindum þegar þeir framkvæmdu fyrstu hjartaaðgerðina.

Ég hafði aldrei heyrt neitt um þessa menn og ekkert heldur um hina svokölluðu Blue babies, eða 'bláu börnin'.

John Blalock var virtur skurðlæknir og yfirlæknir á skólasjúkrahúsinu Johns Hopklns í Baltimore. Á meðan hann vann í Nashville réð hann til sín ungan, svartan smið, Vivien Thomas, með drauma um að verða læknir. Thomas var búinn að safna fyrir skólanámi í mörg ár þegar bankinn sem geymdi peninga hans fór á hausinn og þar með draumurinn um að verða læknir. En Blalock sá getu þessa unga manns og réð hann til sín sem aðstoðarmann og síðar sem yfirmann rannsóknastofu sinnar. Var Blalock duglegur að kenna Thomas það sem hann kunni og auk þess lá Thomas yfir bókum. Kunnátta hans í læknisfræði var því jafnmikil og læknis sem gengur í skóla, en maður fær ekki gráðu fyrir það.

Þegar Blalock tók við stöðu yfirlæknis við Johns Hopkins tók hann Thomas með sér og fékk því framgengt að hann yrði gerður að yfirmanni rannsóknastofunnar. Slíkt var þá algjörlega óþekkt að svartur maður gegndi svo hárri stöðu. Þetta var á fimmta áratugnum en enn þurftu svartir að ganga inn um annan inngang að sjúkrahúsinu. Thomas sætti mikillar gagnrýni læknanna á staðnum en ekki síður frá öðrum svertingjum sem fannst sumum hann telja sig merkilegri en þá af því að hann fékk að ganga um í hvítum slopp. 

Stuttu eftir að þeir Blalock og Thomas komu til Baltimore tók Blalock að sér það verkefni að finna lausn á vanda hinna svokölluðu bláu barna, sem fengu ekki nóg súrefni í lungun. Vegna anna við kennslu og skurðaðgerðir hafði hann hins vegar lítinn tíma til að sinna rannsóknum svo Thomas sá að mestu um rannsóknavinnuna, en fékk hjálp frá Blalock. Þeir náðu eða endurgera í hundi ástand bláu barnanna, en það eitt tók marga mánuði. Þegar það hafði tekist tóku þeir við að finna lausn og lá lausnin í því að leiða æðar framhjá vandræðastaðnum. Ég er ekki læknir svo ég get ekki lýst þessu nákvæmlega en þið finnið nánar um þetta m.a. á Wikipedia. Þeir þurftu að prófa sig svolítið áfram en þetta tókst. Án mikilla æfinga var ákveðið að framkvæma aðgerðina á lítilli stúlku, Eileen, sem var um það bil að deyja úr veikinni. Margir lögðust hart að Blalock að gera þetta ekki þar sem hann væri í raun að framkvæma tilraun á barninu en með samþykki foreldra var ákveðið að drífa í þessu ef það mætti bjarga lífi Eileen. Blalock framkvæmdi aðgerðina (þar sem Thomas var ekki með læknaleyfi) en hann lét Thomas standa fyrir ofan sig og segja sér til. Þetta olli mikilli reiði læknasamfélagsins en Blalock fékk sínu fram. 

Aðgerðin tókst vel og Eileen var enn á skurðborðinu þegar litur hennar breyttist úr bláu í bleikt. Ótrúlega áhrifaríkt atriði. Veit ekki hvort það gerðist svo fljótt í alvörunni.

Fyrsta hjartaskurðaðgerð í heimi og John Blalock varð að hetju. Skrifað var um hann í blöðum og myndir birtar af honum út um allt. Ekki var minnst á Vivien Thomas. Og það sem var kannski verst var að í þakkarræðu við verðlaunaafhendingu, þakkaði Blalock læknunum sem aðstoðuðu hann en hann sagði ekki orð um Thomas, sem þó átti jafnmikinn þátt í að þetta tókst. Thomas, smiður eins og ég áður sagði, hafði t.d. sjálfur smíðað og hannað mörg verkfæri til að nota við aðgerðina, og mér skilst að sum þeirra séu enn notuð. Þetta olli vinaslita á milli mannanna, og Thomas hætti að vinna fyrir Blalock. Hann komst hins vegar fljótt að því að þessi vinna var líf hans, svo hann kyngdi stoltinu og bað Blalock um vinnu. Thomas varð síðar gerður að kennara við Johns Hopkins og fékk að lokum þá viðurkenningu sem hann átti skilið.

Á vefnum má finna athugasemdir fólks þar sem mikið er talað um kynþóttafordóma og því haldið fram að jafnvel Blalock hafi verið haldinn kynþáttafordómum og því hafi Thomas ekki fengið þær þakkir sem hann átti skilið. Og það er ábyggilega margt til í því. Á fimmta áratugnum voru kynþáttafordómar enn mjög sterkir í Bandaríkjunum og talið var að svartir menn ættu ekkert erindi í heim hvíta mannsins.

En það má heldur ekki gleyma því að Thomas var óskólagenginn og próflaus og ég hef fulla trú á því að það hafi spilað jafnmikið hlutverk í því að hann fékk ekki þá viðurkenningu sem hann átti skilið. Akademíska samfélagið er snobbað og þeir sem eru minna menntaðir fá yfirleitt að finna fyrir því. Ég veit af eigin reynslu eftir að hafa kennt í háskóla með aðeins masterspróf. Ekki var litið á mig sem fræðimann eins og hina sem höfðu doktorsgráðu. Ég held að minna hafi farið fyrir þessu á Íslandi en hér í N-Ameríku skiptir prófgráðan ótrúlegu máli og ekki síður úr hvaða skóla maður útskrifast. Gráður eru ekki allar jafnar. Ég held nefnilega að það hafi verið býsna erfitt fyrir læknana við Johns Hopkins að veita ómenntuðum manni þá viðurkenningu sem Thomas átti skilið. Fáránlegt auðvitað, enda vitum við að það er ekki það sama að vera menntaður og skólaður, og að sjálfsögðu átti Thomas að fá sömu viðurkenningu og Blalock. En það má ekki ganga út frá því að hörundslitur hans hafi verið eina ástæðan fyrir því að hann fékk hana ekki fyrr en á gamalsaldri.

Viðbætur: Las rétt í þessu að heiðursdoktornafnbótin sem John Hopkins veitti Thomas havi ekki verið í læknavísindum heldur í lögum, sem er auðvitað skrítið þegar tekið er tillit til þess að hann hafði ekkert með lög að gera. Kannski þýðir þetta einfaldlega að Lagadeildin ákvað að það væri þess virði að heiðra hann, en læknadeild sá ekki ástæðu til þess. Enn er fólk að berjast fyrir því að læknadeildin við John Hopkins skólann sjái sóma sinn í því að veita Vivien Thomas heiðursdoktorsgráðu í læknavísindum, þrátt fyrir að hann sé fallinn frá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Mjög áhugavert. Takk fyrir.

Kristinn Theódórsson, 29.7.2010 kl. 23:42

2 Smámynd: Jens Guð

  Ég fatta ekki hvar himnadraugur blandast inn í söguna.

Jens Guð, 30.7.2010 kl. 01:53

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Titillinn úr myndinni kemur beint úr setningu sem Blalock segir við Thomas. Thomas hafði útbúið eitthverja klemmu sem hann notar til þess að auðveldara væri að komast að hjartanu. Í fyrsta sinn sem Blalock þreyfar á þessu segir hann: "Bjóst þú þetta til? Þetta lítur út fyrir að vera eitthvað sem drottinn bjó til."

Kristín M. Jóhannsdóttir, 30.7.2010 kl. 07:18

4 identicon

Hann var væntanlega að tala um The lord of the rings ;)

doctore (IP-tala skráð) 30.7.2010 kl. 12:11

5 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Kristín, ég þakka þér fyrir ágætt blogg um ágæta kvikmynd, sem ég sá fyrir nokkrum árum. Bæði Alan Rickman og Mos Def , svo og margir aðrir, sem komu að gerð þessarrar myndar hafa fengið ótal verðlaun samkvæmt "IMDb", en þar er einkunn hennar 8,2 (af 10 m.) í dag.

Með góðri kveðju, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 30.7.2010 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband