Svona rétt að láta frá mér heyra
10.8.2010 | 06:39
Ég hef ekki bloggað mikið að undanförnu. Bæði er að ég hef reynt að einbeita mér að því að skrifa ritgerðina mína í stað þess að blogga, en einnig það að ekki hefur verið frá miklu að segja. Ég borða, sef, skrifa ritgerð og ýmist spila fótbolta, hjóla eða geng á fjöll til að fá smá hreyfingu.
Annars fór ég í brúðkaup um helgina. Rina sem vann með mér hjá VANOC giftist ástinni sinni, honum Carlo. Þau eru bæði af filipískum uppruna og voru hérumbil allir í veislunni filipískir. Á Íslandi er ég með minnsta fólki, hvar sem ég kem, en í filipískri samkomu er ég bara nokkuð há. Allir voru mjóir og litlir. Varla sást feit manneskja og varla sást hávaxin manneskja. Ég held það hafi kannski verið fimm ljóshærðir af 150 veislugestum. Það er eiginlega ótrúlegt í Kanada hvað fólk af sama uppruna heldur mikið saman. Eins og ég segi, flestir þarna voru filipískir, og þegar ég fór í jarðaför um daginn þar sem sá látni hafði verið af portúgölskum uppruna, þá voru næstum allir í kirkjunni portúgalskir. Ég hef séð líka hvernig fólk af kínverskum, indverskum og japönskum hefur tekið yfir heilu hverfin og jafnvel heilu borgirnar. Í Richmond hér beint fyrir sunnan Vancouver er um helmingur allra borgarbúa af kínverskum ættum - ég hef meira að segja að það sé hátt upp í 60%. Ég veit ekki hvort þetta er rétt en það er ljóst að Kínverjar eru fjölmargir þar því þegar maður fer í verslunarmiðstöðina þarna syðra þá er í mesta lagi fjórðungur hvítur. Og flest skilti á verslunum eru á kínversku. Við Íslendingar erum of fáir til að halda svona saman og raunar gerum við lítið af því að hittast. Ég hef til dæmis ekki séð Íslending hér síðan sautjánda júní og þó búa þó nokkuð margir á svæðinu. Ætlaði reyndar að reyna að koma á íslenskri grillveislu á ströndinni fyrir sumarlok. Þyrfti kannski að drífa í því.
Ritgerðarskrif ganga bara nokkuð vel. Í síðustu viku sagði umsjónarkennarinn mér að hún þyrfti ekki að sjá kafla tvö aftur fyrr en ég skilaði ritgerðinni inn. Ég ætla reyndar að skipta þeim kafla í tvo. Hann er núna rúmlega 90 síður og betra er að hafa tvo 45 síðna kafla. Sérstaklega af því að hinir kaflarnir þrír eru í kringum þá lengd.
Ég ætla að reyna að skrifa aðeins oftar hér á bloggið en get ekki lofað að það verði mjög oft samt sem áður. En ég vona að þið hafið ekki alveg gefist upp á mér þótt ekki sé oft uppfært.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.