Magnaðir tónleikar

Það er alltaf gaman að fara á góða tónleika og enn betra þegar boðið er upp á skemmtilegt spjalla á milli laga. Paul McCartney er býsna góður með það, Billy Joe Armstrong í Green Day hafði margt skemmtilegt að segja þegar ég sá þá spila og Fran Healy í Travis var geysi skemmtilegur í bæði skiptin sem ég hef séð hann á sviði. En enginn er betri en Chris Isaak hvað þetta snertir.

Tónleikarnir hófust á laginu Dancing og Chris skellti sér svo beint í Two hearts og Somebody's crying áður en hann bauð gesti velkomna. Chris of félagar bjuggu í Vancouver í þrjú ár á meðan þeir gerðu sína stórkostlegu sjónvarpsþætti og borgin á því alltaf sérstakan stað í hjarta þeirra. Chris sjálfur bjó á húsbáti niðri við Granville island á meðan þeir voru hér. Chris lofaði því að þeir skyldu spila bæði góðu lögin sín. Svo spurði hann hvort einhver í salnum hefði komið á tónleika með þeim áður. Við vorum mörg sem höfðu séð þá áður svo Chris sagði, mjög alvarlega: "Mér hefur alltaf líkað svo vel við hversu góðir Kanadamenn eru með það að gefa fólki annað tækifæri. Þetta sem gerðist síðast, það mun ekki gerast aftur. Við lofum að spila vel í þetta sinn." 

Chris kynnti sérlega fyrir áhorfendum gítarleikara sinn og yngsta meðlim hljómsveitarinnar, Hershel Yatowich, og þóttist vera að kenna honum sviðsframkomu. Hann benti á bassaleikarann, Roly Salley, og sagði Hershel að hann ætti að fylgjast með Roly og læra af honum. Hvernig ætti að heilla áhorfendur o.s.frv. Hann sagði Hershel að nú væri það hans starf að halda okkur sem sátum á svölunum hamingjusömum. Það væri alltaf hætta á að þeir sem sætu þarna uppi fyndust þeir vanræktir svo nú skyldi bætt úr því. Síðan bað hann Hershel að spila eitthvað rómantískt og Hershel spilaði Love me tender. Chris greip míkrafóninn, byrjaði að syngja og gekk svo út í sal. Svo hvarf hann. Við heyrðum bara í honum, gerðum ráð fyrir að hann væri einhvers staðar í hvarfi frá okkur þarna uppi. Nema hvað allt í einu birtist uppi á svölum og gekk niður mín megin. Hann var sirka metra frá mér. Þegar hann kom út á endann á svölunum öskraði hann niður: "Strákar, ég veit ekki hvernig ég á að komast niður héðan", svo hann settist bara í autt sæti og sat og söng við hliðina á ákaflega hamingjusamri konu. Allt í einu kallaði hann: "strákar, haldið tóninum, ég ætla að koma niður" og svo rauk hann af stað niður bakdyr og kom loks hlaupandi upp á svið aftur. 

 Við fengum að heyra I want your love, Cheater's town, Speak of the devil og smellinn Wicked game. Þeir spiluðu líka Best I've ever had, One day, Big wide wonderful world, Worked it out wrong, Take my heart og kántrílagið Western stars sem K.D. Lang hefur tekið upp sína arma. Þegar hann söng Yellow bird lét Hershel gítarinn syngja eins og fugl. Eingöngu magnaðir gítarleikar geta spilað þannig.

Eftir eitt lagið þar sem píanó var í aðalhlutverki kallaði Chris til ljósamannsins og bað hann um að halda fókusnum á hljómborðsleikaranum Scott, sem ekki er hluti af Silfurtónum en hefur spilað með þeim í einhver ár. Þegar ljósið skein vel á Scott sagði Chris: Það er alltof oft að maðurinn fremst á sviðinu með míkrafóninn fær meiri athygli en hann á skilið. Fólk heldur að það sé hann sem hafi hæfileikana og sé aðalsprautan í hljómsveitinni. En ef þið lítið framhjá honum og horfið aftar á sviðið þá finnið þið oft þann sem raunverulega hefur mestu hæfileikana." Scott þóttist snortinn og veifaði til áhorfenda. Nema hvað þá hélt Chris áfram: "Því er ekki þannig farið í þessari hljómsveit, en í sumum öðrum..."

Þeir sungu Dark moon og Return to me. Og svo fór Chris að tala um James Brown. Hann hitti hann einu sinni og var með stjörnur í augum. James Brown var hetjan hans. Svo Chris gekk upp að Brown, kynnti sig og sagðist vera mikill aðdáandi. James Brown leit á Chris og sagði svo: "Ah" (og þetta sagði Chris með svona James Brown rödd.) "Ah". Og svo bætti Chris við: "Alveg síðan þá hef ég reynt að lifa eftir þessu sem best ég get."

 

 

 Hann söng svo James Brown lagið I'll go crazy og skellti sér svo í You don't cry like I do. Svo kom að laginu þar sem Chris níðist á Roly, Baby did a bad thing. Hann gerir það alltaf. Ég hef séð þá þrisvar og alltaf ræðst hann á Roly í þessu lagi. Sennilega af því að bassinn er aldrei meir áberandi en einmitt þarna. Í miðju lagi kynnti hann Roly og sagði að hann hefði sérlegur áhugamaður um ekkjur og fráskyldar konur. Bauð svo tveim brussum upp á svið og kallaði til Roly að þetta gæti verið happakvöldið hans. Þessar tvær voru vel fullar og önnur þeirra greip míkrafóninn af Chris og var næstum hent út. En Chris sagði öryggisverðinum að láta hana í friði, þetta væri ekki henni að kenna heldur Jaegermeister. Svo þóttist hann vera stelpan að hringja í mömmu sína og segja henni að hún væri að dansa uppi á sviði og væri orðin ástfangin. "En mamma, þetta er allt í lagi. Hann er ekki tónlistarmaður. Hann er bassaleikari." Roly þóttist móðgaður yfir þessu en hann er orðinn vanur Chris eftir 25 ára samstarf. Roly er uppáhaldið mitt í hljómsveitinni. Hann lifir sig inn í tónlistina og hann er alltaf brosandi, alveg sama hvað vitleysa kemur upp úr Chris. Ég hefði átt að dansa við hann. Nema hvað ég sat uppi og hefði ekki verið komin á sviðið fyrr en lagið var búið.

 Hljómsveitin var klöppuð upp enda enginn búinn að fá nóg. Við vildum að hann spilaði fram á morgun. Scott og trommuleikarnir komu fyrst fram á sviðið, Kenney-Dale og Kúbumaðurinn sem ég man ekki hvað heitir, enda er hann ekki heldur í Silfurtónum. Kenney-Dale hafði haft sig lítið í frammi sem var svolítið sorglegt því hann er þrælskemmtilegur. Þeir byrjuðu að spila Lonely with a broken heart sem þeir nota stundum til að hefja tónleika. Roly og Hershel komu svo hlaupandi inn og bættu við bassa og gítar og að lokum kom CHris í speglafötunum sínum. Hann hefur gaman af því að vera í undarlegum fötum og heldur því fram að eina leiðin til að klæða sig svona sé að vera í sjóbisnes, svona af því að enginn í hljómsveitinni stundaði skautadans. 

Þeir spiluðu Blue hotel, San Francisco days, Pretty woman og enduðu svo á Blue Spanish sky. Ég veit að Chris hefur notað það sem lokalag á þessu tónleikaferðalagi en ég er svolítið hissa á því. Mér finnst það of rólegt. En kannski var bara ágætt að enda á einhverju rólegu og fallegu. 

En ef þið hafið ekki náð því með þessum lestri þá skemmti ég mér konunglega, eins og alltaf þegar ég sé Chris Isaak á tónleikum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband